Meistararimma
Það er sannkölluð meistararimma í uppsiglingu á Anfield Road í kvöld. Með nokkrum rökum má segja að fimmföld meistaralið gangi á hólm. Evrópu- og Stórbikarmeistararnir takast á við Englands-, Deildarbikarmeistara og Góðgerðarskjaldarhafana. Það eru sem sagt núna fimm titlar í vörslu þessara tveggja félaga!
Þegar þetta ár hefur runnið sitt skeið vera Liverpool og Chelsea búin að ganga sjö sinnum á hólm á árinu! Það er mikið búið að ganga á í þeim fjórum rimmum sem af eru.
Hver man ekki eftir leiknum á fyrsta degi ársins þegar Chelsea hélt heim í höfuðstaðinn eftir að hafa herjað út öll þrjú stigin?
Hver man ekki eftir úrslitaleik Deildarbikarsins í Cardiff þegar aðeins herslumuninn vantaði upp á að Liverpool næði að vinna Deildarbikarinn í áttunda sinn?
Hver man ekki eftir fyrri undanúrslitarimmunni í Meistaradeildinni á Stamford Bridge þegar liðin skildu án marka? Eftir þann leik töldu 99,9% stuðningsmanna Liverpool, samkvæmt útreikningum Jose Mourinho, að Liverpool væri komið í úrslitaleikinn.
Hver man ekki eftir seinni undanúrslitarimmunni á Anfield Road. Þá runnu leikmenn Liverpool og stuðningsmenn þeirra saman í eitt og lögðu Chelsea að velli. Jú, 99,9% stuðningsmanna Liverpool höfðu rétt fyrir sér eftir allt saman! Liverpool fór í úrslitaleikinn og vann Evrópubikarinn!
Undanfarna daga er mikið búið að ræða um leikinn í fjölmiðlum á Englandi. Þessi Englandsorrusta hefur auðvitað ekki sömu þýðingu og undanúrslitarimma þessara félaga í vor. Það er ekki allt í húfi eins og þá. Auðvitað er mikið undir. Ef annað hvort liðið fer með sigur af hólmi í kvöld þá mun það standa mjög vel að vígi í riðlinum. En áframhald í keppninni er ekkert úr sögunni þótt annað liðið tapi leiknum. Það eru auðvitað minningarnar úr leiknum á þessum sama stað í vor sem vekja mesta evtirvæntingu. Annað eins kvöld á sér vart hliðstæðu í sögu Liverpool. Það fór í annála félagsins og var lyklillinn að fimmta Evrópubikarsigri Liverpool. Því gleymir enginn!
Það á örugglega mikið eftir að ganga á í kvöld á meðan meistaraslagurinn stendur yfir. En um hvað verður mest rætt eftir leikinn? Verður réttmætri vítaspyrnu sleppt? Breytir sjálfsmark gangi leiksins? Fær einhver leikmaðurinn ósanngjarnt gult spjald? Ráðast úrslitin á marki sem verður síðar umdeilt? Svör fást á Anfield Road í kvöld.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!