| Sf. Gutt

Steven Gerrard er tilbúinn í meistaraslaginn

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, er tilbúinn í meistaraslaginn í kvöld. Hann segir að leikmenn Evrópumeistaranna séu tilbúnir  að takast á við allar þær þrautir sem lagðar verði fyrir þá. Þetta segir hann í reglulegum pistli sem hann skrifar í leikskrá Liverpool, This is Anfield, fyrir leik kvöldsins.

"Ég er viss um að leikmenn Chelsea koma hingað ákveðnir í því að ná nokkurri hefnd fyrir það sem gerðist hér í undanúrslitunum á síðustu leiktíð. En við erum undirbúnir fyrir það og höfum trú á að við séum tilbúnir í allt sem þeir leggja fyrir okkur.

Andrúmsloftið í leiknum gegn Chelsea hér í maí var einfaldlega það magnaðasta sem ég hef upplifað og ég veit að það verður svipað í kvöld. Áhorfendur á Anfield verða okkar tólfti maður og ég get ekki beðið eftir því að heyra hávaðann þegar við komum út úr göngunum í kvöld."

Enn verður fyrirliði Liverpool í sviðsljósinu þegar Liverpool og Chelsea ganga á hólm. Hann var það fyrir úrslitaleikinn í Deildarbikarnum vegna þess að hann ákvað að vera um kyrrt hjá Liverpool í fyrrasumar. Hann var það ekki síður, vegna þess sem gerðist í úrslitaleik Deildarbikarsins, þegar liðin áttust við í Englandsrimmunni í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í vor. Í sumar bauð Chelsea í hann þegar svo virtist sem Steven hyggðist ætla að yfirgefa Liverpool. En hann ákvað að vera um kyrrt hjá Liverpool. Nú í aðdraganda þessa leiks hefur sú ákvörðun hans verið rifjuð upp og sett í samhengi við byrjun þessara tveggja liða á leiktíðinni. En Steven Gerrard tók við Evrópubikarnum í vor. Það hefði hann ekki gert hefði hann farið til Chelsea í fyrrasumar!

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan