Í hnotskurn
Evrópumeistararnir þjörmuðu að ensku meisturunum. En það dugði ekki alveg til sigurs í þessari Englandsrimmu. Þetta er leikur Liverpool og Chelsea í hnotskurn.
- Það var sannkölluð meistararimma. Fimmföld meistaralið gangi á hólm. Evrópu- og Stórbikarmeistararnir tókust á við Englands-, Deildarbikarmeistara og Góðgerðarskjaldarhafana. Það eru sem sagt núna fimm titlar í vörslu þessara tveggja félaga!
- Þegar þetta ár hefur runnið sitt skeið verða Liverpool og Chelsea búin að ganga sjö sinnum á hólm á árinu!
- Þetta var fimmta viðureign liðanna á þessu ári. Chelsea hefur unnið tvo, Liverpool einn og tvívegis hafa liðin skilið jöfn.
- Þetta var í ellefta skipti sem lið frá sama þjóðlandi mætast í Mestaradeildinni.
- Aldrei fyrr hafa lið frá sama landi leikið saman í riðlakeppninni. Fram til þessa hefur liðum frá sömu þjóðlöndum verið haldið í sundur í riðlakeppninni. En Knattspyrnusamband Evrópu svipti Liverpool þessum rétti í sumar þegar það gaf Evrópumeisturunum færi á að verja titil sinn.
- Liverpool hefur notað 23 leikmenn í Evrópukeppninni á þessari leiktíð. Aðeins þeir Sami Hyypia og Djibril Cissé hafa spilað alla leikina. Liverpool notaði 27 leikmenn á Evrópuvegferðinni á síðustu leiktíð.
- Frá því Liverpool lék við Chelsea í undanúrslitunum í vor hafa tveir Evróputitlar bætst á afrekaskrá félagsins!
- Fyrir þennan leik hafði Chelsea unnið alla níu leiki sína á leiktíðinni.
- Argentínumaðurinn Hernan Crespo spilaði síðasta stundarfjórðunginn. Hann skoraði tvívegis gegn Liverpool í Istanbúl í vor. Hann var auðvitað í tapliði það magnaða kvöld. Fyrir þennan leik sagist hann hyggja á hefndir. Það gekk ekki eftir!
- Leikmenn Liverpool hafa viljað fá fjórar til fimm vítaspyrnur í leikjunum fimm sem þeir hafa spilað gegn Chelsea á árinu. Ekki er hægt að segja að sú krafa sé ósanngjörn!
- Fjórir af þeim leikmönnum Liverpool sem spiluðu gegn Chelsea í undanúrslitarimmunni í vor eru farnir frá félaginu. Þetta eru þeir Igor Biscan, Milan Baros, Vladimir Smicer og Antonio Nunez.
- Liverpool spilaði í fyrsta skipti í nýju Evrópubúningunum á Anfield Road.
- Stuðningsmenn Liverpool minntu Chelsea á atburði síðasta vors með því að syngja ,,Hvar voru þið í Istanbúl?"
- Fyrir leikinn fékk Liverpool Evrópubikarinn formlega til eignar þegar Lennart Johansson afhenti Rafael Benítez hann. Um það eignarhald verður engu framar breytt!!!!!
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Traore, Hamann, Garcia, Gerrard, Alonso, Crouch og Cissé (Sinama Pongolle 78. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson, Riise, Josemi, Warnock, Zenden og Potter.
Gult spjald: Xabi Alonso.
Chelsea: Cech, Ferreira, Carvalho, Terry, Gallas, Essien, Makelele, Lampard, Duff (Crespo 75. mín.), Drogba (Huth 90. mín.) og Robben (Wright-Phillips 65. mín.). Ónotaðir varamenn: Cudicini, Cole, Geremi og Guðjohnsen.
Gul spjöld: Claude Makelele, Arjen Robben, Frank Lampard og John Terry.
Áhorfendur á Anfield Road: 42.743.
Maður leiksins samkvæmt Liverpool.is: Luis Garcia. Sem fyrr gek ekki allt upp sem Spánverjinn var að reyna. En leikstíll hans er bara svona. Hann var mjög duglegur í síðari hálfleiknum og var alltaf að reyna að skapa eitthvað uppi við mark Chelsea. Hann var einu sinni næstum sloppinn í gegnum vörnina og var truflaður í leið sinni að markinu. Luis var mjög ógnandi og líklega var hann sá leikmaður Liverpool sem ógnaði marki Chelsea mest.
Jákvætt :-) Liverpool lék líklega sinn besta leik á leiktíðinni. Í heild lék liðið mjög vel. Liðið spilaði kraftmikinn sóknarleik eftir leikhlé og ætlaði sér ekkert nema sigur. Liverpool stöðvaði sigurgöngu Chelsea á leiktíðinni. Enn sýndu áhorfendur á Anfield Road hvernig á að magna upp stemmningu sem hvergi finnst önnur eins.
Neikvætt :-( Leikmenn Liverpool skoruðu ekki mark. Dómarinn dæmdi ekki vítspyrnu á Chelsea en það gáfust fleiri en eitt tækifæri til þess. Sóknarmenn Liverpool komust ekki í eitt einasta opið marktækifæri. Ég hef miklar efasemdir um gagnsemi þess að láta Djibril Cissé spila úti á kanti. Sóknarmenn eiga að spila í sókninni.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Leikmenn fóru varlega af stað og fyrri hálfleikurinn var tíðindalítill. Það var samt ekkert gefið eftir og leikmenn beggja liða börðust eins og ljón. Jose Reina varði tvívegis vel. Í fyrra skiptið frá Frank Lampard. Í seinna skiptið varði hann meistaralega þegar hann sló fast skot Arjen Robben yfir. Liverpool náði ekki að skapa sér opin færi en Evrópumeistararnir áttu að fá vítaspyrnu. Peter Crouch skallaði þá boltann til Sami Hyypia sem var við að komast í færi þegar Didier Drogba virtist sparka í hann. Finninn féll en dómarinn dæmdi ekkert. Evrópumeistarnir voru miklu sterkari aðillinn eftir leikhlé. Leikmenn Liverpool voru vel studdir af áhorfendum þegar þeir sóttu að The Kop. En líkt og í fyrri hálfleik gekk liðsmönnum illa að skapa opin marktækifæri. Þar var í raun sama hvað reynt var alltaf voru varnarmenn ensku meistaranna vel á verði og fyrir aftan þá var Tékkinn Petr Cech öruggur. Tvívegis vildu leikmenn Liverpool fá vítaspyrnu. Í fyrra skiptið virtist Luis Garcia vera truflaður þegar hann var við það að sleppa í gegnum vörnina. Í seinna skiptið átti Jamie Carragher fastan skalla að marki eftir hornspyrnu. William Gallas setti hendina fyrir og stöðvaði för boltans að markinu. Dómarinn var rétt hjá og það var ótrúlegt að hann skyldi ekki dæma vítaspyrnu. Leikmenn Liverpool sóttu grimmt til leiksloka en markið lét á sér standa. Xabi Alonso átti tvö góð langskot. Annað varði Petr örugglega en hitt fór rétt framhjá. Á lokakafla leiksins var augljóst að leikmenn Chelsea tóku öllu með ró og voru sáttir með að fara með stig frá Liverpool. Sú ætlan tókst. Það þykir greinilega gott að ná stigi á útivelli gegn Evrópumeisturunum!
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!