| Sf. Gutt

Jafnt í fyrsta deildarleiknum á leiktíðinni

Bikar- og Skjaldarhafar Liverpool máttu sætta sig við jafntefli í fyrsta deildarleik leiktíðarinnar. Nýliðarnir í deildinni neituðu að gefast upp þrátt fyrir harðar atlögur leikmanna Liverpool sem skörtuðu nýju gulu varabúningunum sínum í fyrsta sinn. Leikmenn Sheffield United börðust eins og ljón allan leikinn vel hvattir áfram af stuðningsmönnum sínum. Jafntefli var líklega nokkuð sanngjörn niðurstaða þrátt fyrir yfirburði Liverpool í síðari hálfleik.

Það var mikil stemmning á Bramall Lane í Sheffield um hádegisbilið í dag þegar heimamenn mættu til leiks í efstu deild í fyrsta sinn í tólf ár. Vitað var að leikurinn yrði erfiður fyrir gestina. Það kom strax í ljós því leikmenn Sheffield United gáfu mótherjum sínum ekkert eftir þegar flautað var til leiks. Liverpool varð fyrir áfalli eftir rúmlega 20 mínútur þegar John Arne Riise meiddist eftir að hafa gefið fyrir markið. Hann rakst í varnarmann heimamanna og virtist meiðast á ökkla. Hann var borinn til búningherbergja. Hann sat á varamannabekknum í síðari hálfleik með hækjur sér við hlið. Eftir meiðsli Norðmannsins náði Liverpool loks betri tökum á leiknum og fékk loks hættulegt færi eftir um 25 mínútur þegar Paddy Kenny varði vel eftir að boltinn hafði hrokkið að markinu eftir aukaspyrnu Liverpool.  Ekki lagaðist ástandir hvað meiðsli varðaði þegar Jamie Carragher haltraði af velli eftir rúman hálftíma. Hann meiddist snemma leiks eftir samstuð við sóknarmann heimamanna. Besta marktilraun Liverpool kom sjö mínútum fyrir hálfleik. Brasilíumaðurinn Fabio Aurelio átti þá mjög gott skot beint úr aukaspyrnu sem Paddy varði vel með því að slá boltann yfir.

Leikmenn Liverpool sofnuðu illa á verðinum í upphafi síðari hálfleiks. David Unsworth sendi þá aukaspyrnu inn á vítateig Liverpool. Robert Hulse náði þar að stinga sér á milli varnarmanna Liverpool og stanga boltann í markið. Mikill fögnuður braust út innan vallar sem utan en leikmenn Liverpool gátu nagað sig í handarbökin að vera marki undir því þetta var í fyrsta sinn sem heimamenn gerði verulega hættulega atlögu að markinu. Það voru aðeins 52 sekúndur liðnar af hálfleiknum þegar markið kom. Eftir þetta tóku leikmenn Liverpool öll völd á vellinum í sínar hendur og við tók linnulaus sókn. Strax í þeirri fyrstu var Sami Hyypia nærri búinn að jafna en skalli hans fór í stöng. Þrátt fyrir mikla sókn Liverpool gekk ill að koma vörn heimamanna úr jafnvægi enda margir menn til varnar. Á 67. mínútu átti Fabio góða fyrirgjöf á Craig Bellamy en skalli hans var vel varinn. Þremur mínútum síðar bar sókn Liverpool loks árangur. Steven Gerrard slapp inn á vítateiginn eftir fallegt þríhyrningsspil við Robbie Fowler. Þar renndi Chris Morgan sér í Steven. Fyrirliðinn missti jafnvægið án þess þó að detta þegar Chris renndi sér á eftir honum. Dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Þótti heimamönnum ekki vera rétt dæmt en það má spyrja sig hvort dómarinn hefði ekki átt að reka Chris af velli fyrst hann dæmdi á hann. Robbie Fowler tók spyrnuna og skoraði af miklu öryggi með því að senda Paddy Kenny í rangt horn. Sókn Liverpool þungdist jafnt og þétt en illa gekk að skapa opin færi. Leiknum lyktaði því með því að liðin skildu jöfn. Liverpool hefði átt að hafa sigur en leikmenn Sheffield neituðu einfaldlega að gefast upp og fyrir það má segja að þeir hafi verðskuldað að halda jöfnu.

Sheffield United: Kenny, Geary, Bromby (Leigertwood 75. mín.), Morgan, Unsworth, Ifill (Gillespie 59. mín.), Jagielka, Tonge, Armstrong, Hulse (Akinbiyi 86. mín.) og Webber. Ónotaðir varamenn: Nade og Sommeil.

Mark Sheffield United: Robert Hulse (46. mín.).

Gult spjald: Chris Morgan. 

Liverpool: Reina, Kromkamp, Hyypia, Carragher (Agger 34. mín.), Riise (Gonzalez 26. mín.), Gerrard, Sissoko, Zenden, Aurelio, Fowler (Pennant 83. mín.) og Bellamy. Ónotaðir varamenn: Dudek og Crouch.

Mark Liverpool: Robbie Fowler, víti, (70. mín.).

Gul spjöld: Mohamed Sissoko og Jan Kromkamp.

Áhorfendur á Bramall Lane: 31.726.

Maður leiksins: Sami Hyypia. Finninn var mjög sterkur í vörn Liverpool. Að auki ógnaði hann marki heimamanna nokkrum sinnum og var óheppinn þegar skalli hans fór í stöng.

Rafael Benítez var ekki of ánægður eftir leikinn. ,,Við lékum ekki vel í fyrri hálfleik. Við náðum ekki að spila boltanum vel og áttum í erfiðleikum með að komast í gegnum vörn þeirra. Þeir mættu okkur framarlega á vellinum og við áttum á köflum erfitt uppdráttar. En það jákvæða var að mér fannst við leika miklu betur í síðari hálfleik. Þetta er ekki góð byrjun á leiktíðinni hjá okkur en þetta er langhlaup. Fólk segir að þetta sé Maraþon. Við náðum bara einu stigi en það er löng leið framundan."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan