Engin uppskera á Brúnni
Leikmenn Liverpool komu gríðarlega ákveðnir til leiks og það var greinilegt að nú átti að snúa misjöfnu gengi liðsins í deildinni við. Fyrsta færi leiksins féll Liverpool í skaut. Eftir hornspyrnu Liverpool sendi Steven Gerrard boltann á Dirk Kuyt sem komst í opið færi hægra megin í teignum. Hollendingurinn hamraði boltann að marki en því miður þá small boltinn í þverslánni. Allt leit vel út hjá Liverpool þegar dró að lokum fyrri hálfleiks. En líkt og í flestum leikjum leiktíðarinnar fékk liðið á sig mark upp úr þurru. Á 42. mínútu sendi Frank Lampard á Didier Drogba sem fékk boltann rétt utan vítateigs. Hann náði þar snilldarlega að snúa Jamie Carragher af sér og þruma boltanum í markið án þess að Jose Reina kæmi nokkrum vörnum við. Algert kjaftshögg og dæmigert að fyrstu mistökum Liverpool yrði refsað með marki. Steven Gerrard fékk færi á að jafna fyrir leikhlé en skot hans fór yfir.
Það dró til tíðinda strax eftir fimm mínútur í síðari hálfleik. Michael Ballack tróð þá á Mohamed Sissoko og var umsvifalaust rekinn réttilega af velli. Í herbúðum Chelsea fannst mörgum að búið hefði átt að vera að reka Mohamed af velli fyrir hlé. Hann fékk þá gult spjald og litlu síðar braut hann af sér en Momo slapp með skrekkinn. Þrátt fyrir að vera manni fleiri gekk Liverpool lengi vel illa að komast í færi. Það endaði þó með því á 68. mínútu. Steven Gerrard komst þá í opið færi inn á teiginn en skaut beint á Petr Cech úr dauðafæri. Heimamenn brunuðu upp og Arjen Robben komst inn á teig þar sem varnamenn Liverpool þrengdu að honum en löglega þó. Að minnsta kosti að mati dómarans. Fimmtán mínútum fyrir leikslok varði Petr vel frá Craig Bellamy. Leikmenn Liverpool heimtuðu svo vítaspyrnu þegar Frank Lampard virtist stjaka við Steven. Ekkert var dæmt. Leikmenn Liverpool reyndu að herja á mark Englandsmeistanna undir lokin en varð lítt ágengt. Peter Crouch fékk besta færið á lokamínútunni en hann skallaði beint á Petr úr góðu færi. Uppskera Liverpool á Stamford Brigde varð því, eins og svo oft á undanförnum árum í deildarleikjum, ekki nein.
Chelsea: Cech, Boulahrouz (Ferreira 71. mín.), Ricardo Carvalho, Terry, A. Cole, Essien, Makelele, Ballack, Lampard, Shevchenko (Robben 65. mín.) og Drogba (Kalou 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Cudicini og Mikel.
Mark Chelsea: Didier Drogba (42. mín.).
Rautt spjald: Michael Ballack.
Booked: Boulahrouz, Didier Drogba og Petr Cech.
Liverpool: Reina, Finnan, Agger, Carragher, Warnock (Aurelio 54. mín.), Pennant, Gerrard, Alonso, Sissoko (Zenden 67. mín.), Bellamy (Crouch 78. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Dudek og Hyypia.
Gul spjöld: Stephen Warnock og Mohamed Sissoko.
Áhorfendur á Stamford Bridge: 41.882.
Maður leiksins: Daniel Agger. Daninn heldur áfram að leika vel í hjarta varnar Liverpool. Hann var mjög sterkur í leiknum.
Rafel Benítez fannst að Liverpoo ætti meira skilið en raun bar vitni. "Mér finnst að við verðskulduðum meira úr leiknum. Það er ljóst að við þurfum fleiri stig. Þetta er þó aðeins byrjunin á leiktíðinni. Framundan er langhlaup en við þurfum að koma okkur af stað."
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!