Vladimir vonast til að fá að spila á gamla heimavellinum
Vladimir Smicer getur ekki beðið eftir því að koma aftur heim til Liverpool. Hann hefur enn ekki leikið á þessari leiktíð vegna meiðsla sem hann varð fyrir undir lok síðustu leiktíðar og af þeim sökum missti hann af HM. Tékkinn vonast þó til að koma við sögu annað kvöld þegar Bordeaux spilar á Anfield Road. Vladimir sagðist ekki hafa trúað því þegar hann frétti að Liverpool og Bordeaux hefðu dregist saman í riðil í Meistaradeildinni. Alla tíð síðan hefur hann beðið spenntur eftir viðureignum félaganna. Hann lék ekki í fyrri leiknum en hann er í liðshópi franska liðsins fyrir leikinn annað kvöld.
Hvort sem Vladimir leikur eða ekki þá er það öruggt að honum verður vel tekið á Anfield Road. Stuðningsmönnum Liverpool er enn í fersku minni hvernig Vladi kvaddi Liverpool. Hann kom inn sem varamaður fyrir Harry Kewell í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn við AC Milan. Það höfðu ýmsir stuðningsmenn Liverpool efasemdir um að Vladimir myndi láta mikið að sér kveða á Ataturk leikvanginum. En raunin varð önnur. Vladi átti stóran þátt í endurkomu Liverpool í leiknum. Hann skoraði annað mark Liverpool í leiknum og minnkaði muninn í 3:2. Síðasta spyrna hans í búningi Liverpool endaði líka í marki AC Milan þegar Tékkinn skoraði í vítaspyrnukeppninni. Liverpool vann hana og Evrópubikarinn. Vladimir vissi þá að þetta væri síðasti leikur hans með Liverpool og hann naut sigursins út í ystu æsar.
Vladimir rifjaði vítaspyrnuna mikilvægu upp ekki alls fyrir löngu. “Ég sagði já um leið og Rafa spurði mig hvort ég vildi taka vítaspyrnu. Ég vildi axla ábyrgðina og grípa tækifærið til að sýna að ég væri eftir allt saman góður leikmaður. Ég man þegar ég gekk upp að vítapunktinum og tók boltann. Ég var fullur sjálfstrausts. Ég var ekkert að hugsa um að þetta yrði síðasta spyrna mín fyrir félagið. Ég vildi bara sjá svo um að ég gæti gefið Liverpool og stuðningsmönnum félagsins eitthvað til baka. Ég hugsa oft um þetta. Þetta var stærsta stundin á ferli mínum. Það veitti mér ómælda ánægju að enda ferilinn hjá félaginu með marki, skora úr vítaspyrnu og vinna bikarinn."
Vladimir Smicer kunni vel við sig á Englandi. ,,Ég sakna Englands svolítið eftir að hafa búið þar í sex ár. Ég var búinn að venjast lífinu þar. Mest sakna ég þó Anfield. Andrúmsloftið þar var einstakt. Það er ekki hægt að bera andrúmsloftið þar saman við það sem er hér í Frakklandi og þó eru frábærir stuðningsmenn hérna.”
Vladimir Smicer spilaði 184 leiki með Liverpool og skoraði 19 mörk. Hann var sem fyrr segir Evrópumeistari með Liverpool 2005, deildarbikarmeistari 2001 og 2003 og vann F.A. bikarinn 2001. Sama ár var hann í liði Liverpool sem vann Evrópukeppni félagsliða. Það er því ekki hægt að segja annað en Vladimir hafi verið fengsæll á ferli sínum með Liverpool. En tíð meiðsli komu í veg fyrir að hann næði fyllilega að standa undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar eftir að hann kom til félagsins árið 1999. Hans verður þó alltaf minnst fyrir síðasta leik sinn með Liverpool!
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!