| Sf. Gutt

Enn skorar Fernando

Fernando Morientes hefur gengið flest í hag eftir að hann hélt aftur heim til Spánar. Hann yfirgaf Liverpool í sumar og gekk til liðs við Valencia. Í viðtali við fréttaþátt Meistaradeildarinnar á dögunum sagði hann að ýmsir hefðu örugglega talið að hann væri að fara heim til Spánar til að taka það rólega nú þegar farið væri að síga á seinni hluta ferils hans. Fernando sagði svo aldeilis ekki vera og hann ætlaði sér að leggja sig allan fram hjá Valencia og helst að bæta við glæsilegt verðlaunasafn sitt.

Fernando hefur gengið vel við markaskorun hjá Valencia og hann er nú langt kominn með að vera búinn að skora jafn mörg mörk á þessari leiktíð og á öllum ferli sínum með Liverpool. Um síðustu helgi skoraði hann mark Valencia þegar liðið gerði 1:1 jafntefli á heimavelli við Athletica Bilbao. Þetta var fimmta mark hans í átta leikjum í spænsku deildinni. Að auki hefur hann skorað fimm mörk í aðeins sex Meistaradeildarleikjum. Þetta gera tíu mörk og nú vantar Fernando aðeins tvö mörk upp á að vera búinn að skora jafnmörg mörk og hann gerði á ferli sínum hjá Liverpool. Þar skoraði hann tólf mörk í 61 leik. Góð framganga hans á leiktíðinni var þess valdandi að Fernando var valinn í spænska landsliðið sem spilaði nú í vikunni. Þar hefur hann ekki verið frá því snemma á þessu ári.

Í fyrrnefndum fréttaþætti sagðist Fernando hafa viljað standa sig betur með Liverpool. Hann sagði þó að sér hefði líkað vel hjá félaginu og átt góðar stundir þar. En knattspyrnan þar í landi virtist einfaldlega ekki henta honum. Fernando náði þó að auka við verðlaunasafn sitt hjá Liverpool því hann vann bæði Stórbikarinn og F.A. bikarinn á meðan á Englandsdvöl hans stóð.

Sem fyrr segir hefur Fernando staðið sig mjög vel í Meistaradeildinni og þarf það ekki að koma á óvart því hann á glæsilegan árangur að baki í þeirri keppni. Valencia stendur vel að vígi í sínum riðli og þar sem Liverpool er komið áfram í keppninni er ekki loku fyrir það skotið að þessi lið eigi eftir að mætast í þeirri keppni.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan