Árið byrjaði eins og best varð á kosið!
Árið byrjaði eins og best varð á kosið! Bikarmeistararnir komust á bragðið þegar fyrsta mark ársins, og um leið mark ársins, leit dagsins ljós. Frábært mark Peter Crouch gaf tóninn og Liverpool lagði Bolton Wanderers 3:0 á Anfield Road. Liðið lék frábærlega í síðari hálfleik og stuðningsmenn Liverpool fögnuðu þremur glæsilegum mörkum. Liverpool fór með sigrinum upp í þriðja sætið í deildinni. Árið 2007 gat því ekki byrjað betur fyrir Liverpool!
Það var engu líkara en leikmenn liðanna væru eitthvað ryðgaðir eftir gamlárskvöldið því fyrsti leikur ársins fór mjög rólega af stað. Það var kannski ekki að undra enda leiktíminn út í hött. Hverjum dettur eiginlega í hug að láta leik hefjast í hádeginu á nýársdag? Greinilega einhverjum!
Það var nærri hálftími liðinn þegar fyrsta alvöru færi leiksins kom. Steve Finnan átti þá bylmingsskot sem Jussi Jaaskalainen náði að slá uppi í þverslána og yfir. Xabi Alonso átti svo langskot rétt framhjá litlu síðar. Lítið meira markvert gerðist í fyrri hálfleik. Liverpool var þó sterkari aðilinn og gestirnir áttu ekki eina einustu marktilraun.
Eftir leikhlé herti Liverpool tökin. Góð marktækifæri létu þó bíða eftir sér og það var ekki fyrr en á 61. mínútu sem færi gafst og það varð að fyrsta marki ársins. Dirk Kuyt lék upp að teignum og sendi svo boltann út til hægri á Jermaine Pennant. Vængmaðurinn sendi frábæra sendingu fyrir markið. Peter Crouch tók við boltanum á lofti við vítapunktinn og klippti hann viðstöðulaust í markið með föstu skoti fyrir framan The Kop! Stuðningsmenn Liverpool vöknuðu sannarlega við þetta mark sem var stórglæsilegt og föguðu vel. Markið var endurtekning á markinu sem Peter skoraði í Evrópuleiknum gegn Galatasaray í haust. Sannarlega mark ársins!
Ekki var liðin nema ein mínúta áður en boltinn lá aftur í markinu fyrir framan The Kop. Dirk tók magnaðan sprett upp hægri kantinn og sendi fyrir markið. Steven Gerrard skaust inn á vítateinn og smellti boltanum viðstöðulaust upp í vinkilinn. Glæsilegt mark hjá orðuhafanum.
Þessi tvö mörk brutu mótstöðu Bolton á bak aftur. Liverpool réðu nú lögum og lofum. Peter átti skalla beint á Jussi þegar tuttugu mínútur voru eftir. Fimm mínútum síðar skallaði hann yfir. Í bæði skiptin hefði Peter átt að skora. Á 80. mínútu varði Jussi vel þegar hann sló skot frá Dirk yfir. Hollendingurinn kom sér sjálfur í færið með góðri rispu. Sami Hyypia átti skalla eftir hornspyrnuna sem fylgdi en landi hans varði enn frábærlega.
Finninn í marki Bolton kom engum vörnum við á 83. mínútu. Luis Garcia tók þá góða rispu fram völlinn og lék upp að vítateignum. Hann sendi svo hárnákvæma sendingu til hægri á Dirk Kuyt sem stakk sér inn á teiginn. Hollendingurinn lék inn á teiginn og þrátt fyrir að vera í nokkuð þröngri aðstöðu náði hann hnitmiðuðu skot sem hafnaði neðst í bláhorninu. Glæsilega afgreitt mark hjá Dirk sem átti svo sannarlega skilið að skora. Sigur Liverpool var nú í höfn og hann skilaði liðinu upp fyrir gestina.
Liverpool lék einn besta leik sinn á leiktíðinni og það segir sína sögu að Bolton átti aðeins eina marktilraun í öllum leiknum og Jose Reina þurfti ekki að verja skot. Jólatörnin endaði sem sagt ens og best varð á kosið og nýtt ár gekk í garð með gleðilegum hætti fyrir stuðningsmenn Liverpool sem gátu haldið áramótagleðinni áfram!
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Pennant, Alonso, Gerrard (Aurelio 85. mín.), Gonzalez (Garcia 69. mín.), Crouch og Kuyt (Fowler 85. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Agger.
Mörk Liverpool: Peter Crouch (61. mín.), Steven Gerrard (63. mín.) og Dirk Kuyt (83. mín.).
Bolton: Jaaskelainen, Hunt, Faye, Ben Haim, Gardner, Campo, Nolan (Teymourian 81. mín.), Speed (Tal 66. mín.), Diouf (Vaz Te 66. mín.), Anelka og Davies. Ónotaðir varamenn: Al Habsi og Meite.
Gul spjöld: Tal Ben Haim, Ivan Campo og Abdoulaye Faye.
Áhorfendur á Anfield Road: 41.370.
Maður leiksins: Dirk Kuyt. Hollendingurinn átti algeran stórleik. Lengi vel gekk kannski ekki sem best hjá Dirk en hann hélt alltaf áfram að berjast. Þegar upp var staðið var hann svo búinn að eiga þátt í tveimur mörkum og skora eitt sjálfur. Frábær framganga!
Rafael Benítez var í sannkölluðu áramótaskapi eftir leikinn og sigurinn framlengdi áramótagleði hans. "Liðið mitt var frábært og við skoruðum þrjú glæsileg mörk. Það var frábært að byrja nýja árið svona. Peter Crouch skoraði ótrúlegt mark og hefði getað skorað nokkur til viðbótar. Það var gaman fyrir Steven Gerrard að skora eftir að hafa fengið MBE orðuna og Dirk Kuyt verðskuldaði að skora mark. Það var ótrúlegt að sjá hversu Dirk var duglegur í leiknum. Ég hélt að Dirk hefði verið orðinn þreyttur en hann hélt áfram að hlaupa og afgreiddi markið sitt snyrtilega."
-
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga!