| AB

Neil Mellor enn á skotskónum

Mellor fagnar einu af fjórum mörkum sínum fyrir Preston í gærÞað eru fáir beittari en Neil Mellor í varaliðsleikjum. Neil skoraði 45 mörk fyrir Liverpool í 44 varaliðsleikjum og menn vonuðust til að hann myndi láta að sér kveða með aðalliðinu þó sýnilegt væri að hann byggi ekki yfir kostum sem prýða toppframherja. Hann var eilítið þungur og hafði ekki bestu tækni í heimi en hann kunni svo sannarlega að vera réttur maður á réttum stað. Meiðsli settu strik í reikninginn hjá Liverpool en honum tókst engu að síður að skora 6 mörk í 22 leikjum með aðalliðinu þar af var hann í byrjunarliðinu í 15 leikjum.

Neil Mellor var lánaður til Úrvalsdeildarliðsins Wigan þar sem hann fékk næga samúð frá framkvæmdastjóra félagsins, Paul Jewell, sem þurfti sjálfur að leita annað eftir að hafa ekki komist að í framlínu Liverpool. Neil skoraði mark í sínum fyrsta leik þegar Wigan vann Middlesborough 3:2. Hann meiddist hins vegar fljótlega og hélt sneyptur heim. Fyrstudeildarliðið Preston keypti Mellor í upphafi tímabilsins en hann hefur ekki leikið einn einasta leik fyrir félagið vegna meiðsla.

Neil Mellor er þó aftur kominn á ról og lék með varaliði Preston gegn Tranmere í gærkvöldi og skoraði 4 mörk í 6:3 sigri. Fyrsta markið skoraði hann eftir að hafa komist einn fyrir vörnina eftir stungusendingu. Annað markið kom rétt fyrir hálfleik og var potmark að hætti Neil Mellor. Þriðja markið kom eftir að markvörðurinn varði langskot og Neil var á réttum stað til að koma boltanum í markið. Fjórða markið var svo skallamark.

Þó að Neil Mellor sé farinn frá Liverpool vonar maður að hann spjari sig með Preston og sanni getu sína. Þess má geta að með varaliði Tranmere lék gamli Púllarinn Jason McAteer en hann var tekinn útaf á 33. mínútu og fleygði treyju sinni að varamannabekknum í bræði sinni.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan