Í hnotskurn
Aþenufararnir luku leiktíðinni með jafntefli sem dugði til þriðja sætis. Robbie Fowler kvaddi Anfield Road og aðdáendur sína. Þetta er leikur Liverpool og Charlton í hnotskurn.
- Liverpool spilaði sinn 38. og síðasta deildarleik á þessari leiktíð.
- Í leikjunum 38 vann liðið 20 leiki, gerði 8 jafntefli og laut í gras 10 sinnum. Þessi árangur gaf Liverpool 68 stig.
- Liverpool endaði í þriðja sæti deildarinnar.
- Leikmenn Liverpool skoruðu 57 mörk. Markverðir Liverpool máttu sækja boltann 27 sinnum í markið.
- Dirk Kuyt skoraði flest deildarmörk Liverpool. Hann skoraði þrettán.
- Steven Gerrard lék flesta leiki Liverpool í deildinni. Hann lék 36 leiki af 38.
- Alls tóku 29 leikmenn Liverpool þátt í deildarleikjunum 38.
- Daniele Padelli lék sinn fyrsta leik með Liverpool. Hann varð fyrstur Ítala til að spila með Liverpool.
- Markvörður Charlton var líka í fyrsta sinn í byrjunarliði síns liðs.
- Scott Carson mátti ekki leika gegn Liverpool þar sem hann var í láni. Hann var kosinn leikmaður ársins hjá Charlton!
- Robbie Fowler lék sinn síðasta leik, á Anfield Road, sem leikmaður Liverpool. Hann leiddi liðið sem fyrirliði í þessum síðasta leik sínum í Musterinu.
- Xabi Alonso skoraði fjórða mark sitt á leiktíðinni. Hann skoraði helminginn af mörkum sínum gegn Charlton!
- Harry Kewell skoraði fyrsta mark sitt á þessari leiktíð.
- Xabi var fljótur að láta til sín taka eftir að hann kom inn sem varamaður. Hann var ekki búinn að vera inn á í nema eina mínútu þegar hann skoraði!
- Tvær skiptingar Rafael Benítez tókust fullkomlega. Bæði Xabi og Harry komu inn á sem varamenn.
- Þriðja skiptingin hefði mátt bíða í eina mínútu!
- Mínútu eftir að Robbie fékk heiðursskipting var dæmd vítaspyrna á Charlton! Robbie hefði tekið hana ef hann hefði enn verið inni á vellinum.
- Það er langt um liðið frá því leikmaður hefur verið hylltur jafn innilega á Anfield Road og Robbie Fowler.
- Allir áhorfendur, líka þeir sem fylgdu Charlton, stóðu upp og klöppuðu fyrir meistaranum þegar honum var skipt af velli.
- Venju samkvæmt gengu leikmenn Liverpool heiðurshring eftir leikinn og þökkuðu stuðningsmönnum sínum stuðninginn á leiktíðinni.
Jákvætt:-) Liverpool náði þriðja sæti deildarinnar með jöfnunarmarkinu á lokamínútu leiksins. Harry Kewell kom gríðarlega sterkur til leiks. Robbie Fowler fékk að kveðja Anfield Road á þann hátt sem goðsögn eins og hann átti skilið.
Neikvætt:-( Robbie Fowler náði ekki að skora. Hann var farinn af leikvelli þegar Liverpool fékk vítaspyrnu. Því miður komu meiðsli í veg fyrir að Jerzy Dudek gæti spilað kveðjuleik sinn. Varnarleikur Liverpool var með því allra versta sem hefur sést á leiktíðinni.
Þrír bestu leikmenn Liverpool samkvæmt Liverpoolfc.tv:
1. Steven Gerrard. Hann var gríðarlega duglegur eins og venjulega. Þó svo að hann væri að hugsa um Aþenuferðina þá gaf hann ekki eftir í neinni tæklingu.
2. Harry Kewell. Ástralinn kom inn sem varamaður fyrir Bolo Zenden og átti stórgóðan leik. Harry gaf Liverpool kraft á vinstri kantinn. Hann sýndi líka mikla leikni. Hann lagði upp jöfnunarmarkið fyrir Xabi Alonso, átti þrumuskot í þverslá og jafnaði svo metin úr vítaspyrnu.
3. Robbie Fowler. Uppáhaldssonur The Kop náði að vísu ekki að skora í kveðjuleik sínum á Anfield en hann reyndi þó sitt besta til þess. Hann sýndi góð tilþrif og spilaði boltanum vel. Tvívegis var heppnin ekki með honum í góðum færum.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!