| Ólafur Haukur Tómasson

Ablett: Ngog gerði gæðamun

Hinn efnilegi David Ngog sem hefur staðið sig með eindæmum ágætum með aðalliði Liverpool lék með varaliði liðsins í gærkvöldi þegar varaliðið lék sinn síðasta deildarleik á tímabilinu, þetta var leikur sem gat skorið úr um það hvort að meistarar síðasta árs myndu hafna í neðsta sæti deildarinnar eður ei.

Leiknum lauk með 5-1 stórsigri á liði Newcastle og þar skoraði David Ngog eitt marka Liverpool, þar sem hann tók við langri sendingu, lék á varnarmann og skoraði með þrumuskoti í fjærhornið. Glæsilegt mark hjá stráknum sem hefur skorað þrjú mörk fyrir aðalliðið á tímabilinu, sem er hans fyrsta í Ensku Úrvalsdeildinni en hann kom frá Paris Saint-German í sumar.

Gary Ablett, þjálfari varaliðsins hrósaði David í hástert eftir leikinn og sagði að hannn hafi breytt miklu í leik liðsins. Fleiri leikmennsem komið hafa við sögu hjá aðalliðinu á tímabilinu tóku einnig þátt í leiknum en það voru þeir Damien Plessis, Nabil El Zhar, Stephen Darby og Philipp Degen sem hefur verið að stíga upp úr meiðslum sem hafa haldið honum frá keppni yfir allt tímabilið, hann komst í gegnum sjötíu mínútna leik meiðslalaus.

"David gerði mjög vel í marki sínu, hann var mjög beittur fram á við og var ávallt ógnandi. Við nutum góðs af því að hafa aðalliðsleikmenn með okkur og Nabil var mjög líflegur. Áætlunin var að taka þá út af í hálfleik en þeir vildu spila áfram því þeir höfðu svo gaman af leiknum.

Við sögðum að við vildum enda á jákvæðum nótum og að koma hingað og skora fimm mörk var mjög gott. Mér fannst við stjórna leiknum og gerðum mjög vel. Við skoruðum vel unnin mörk og þetta er góð leið til að enda tímabilið. Þetta sýnir bara að okkur vantaði stöðugleika í spili okkar yfir tímabilið. Ef við hefðum getað spilað svona leiki reglulega þá yrðum við líklegast í allt annari stöðu í deildinni." sagði Gary Ablett.

Varaliðið var það sterkasta í Englandi í fyrra en þeir urðu Englands- og deildarmeistarar, nú á tímabilinu hallaði heldur betur undir fæti og liðið náði ekki að halda uppteknum hætti frá síðasta tímabili. Unglingaliðið hefur hins vegar leikið frábærlega á tímabilinu og eru til að mynda komnir í úrslitaleik Ungliðabikarins, en liðið vann þá keppni tvö ár í röð árið 2006 og 2007.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan