| Sf. Gutt

Fyrrum lærisveinn Liverpool kom við

Það fer venjulega ekki framhjá neinum þegar fyrrum leikmenn Liverpool koma við á Íslandi. Það fór þó lítið fyrir einum á dögunum. Paul Harrison lék reyndar aldrei með aðalliði Liverpool en hann náði að komast þrettán sinnum á varamannabekk aðalliðsins.
 
Paul Harrison kom til Íslands á dögunum með liði sínu The New Saints og stóð í markinu gegn Fram í leik liðanna í Evrópudeildinni. Fram vann þann leik 2:1 og endurtók leikinn í seinni leiknum í Wales með sömu markatölu.

Paul lék með yngri liðum Liverpool og varaliðinu áður en hann yfirgaf félagið. Faðir hans og frændi létust í Hillsborough slysinu. Honum var því boðið að leika með úrvalsliði Liverpool, sem Kenny Dalglish stjórnaði, í minningarleik um Hillsborough slysið sem fór fram á Anfield núna undir lok keppnistímabilsins.

Hér eru upplýsingar um Paul Harrison af vefsíðu The New Saints.

Þess má til gamans geta að Liverpool lék gegn The New Saints í forkeppni Meistaradeildarinnar sumarið 2005. Liverpool vann fyrri leikinn 3:0 og þann seinni með sömu markatölu.  Þá hét liðið reyndar Total Network Solutions eða TNS. Liðið breytti svo um nafn þegar fyrirtækið, sem það var nefnt eftir, hætti að styrkja það. Það gerist sannarlega ekki oft að lið breyti um nafn.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan