| Sf. Gutt

Jafntefli í fyrsta leik Roy Hodgson

Roy Hodgson hóf valdatíð sína sem framkvæmdastjóri Liverpool með því að stýra liði sínu til jafnteflis 0:0 við svissneska liðið Grasshoppers. Roy tefli fram ungu liði og útkoman var ekki svo slæm.

Það var Brasilíumaðurinn Lucas Leiva sem leiddi Liverpool til leiks í fyrsta æfingaleiknum á þessu sumri. Leikurinn var skiljanlega mjög rólegur fram eftir öllu og segja má að ekkert hafi gerst fyrstu tuttugu mínúturnar.

Á 26. mínútu náði Liverpool loksins sínu fyrsta markskoti sem kalla má því nafni. Alberto Aquilani tók þá aukaspyrnu utan teigs en Benito, í marki svissneska liðsins, varði vel með því að slá boltann frá. Á 33. mínútu varð Diego Cavalieri að hreyfa sig í marki Liverpool þegar hann varði skot frá Zuber sem skaut utan vítateigs. Litlu síðar skall hurð nærri hælum við mark Liverpool. Eftir sókn upp hægri kantinn og fyrirgjöf varð Diego að verja í tvígang í sömu sókninni til forða marki.

Ekkert kom markið í fyrri hálfleik og hafi sá hálfleikur verið rólegur þá varð sá seinni enn rólegri. Peter Gulacsi kom í markið í leikhléi og smá saman tíndust varamenn til leiks. Á 70. mínútu kom Guðlaugur Victor Pálsson til leiks ásamt Steven Irwin. Þetta var í fyrsta sinn sem Guðlaugur kemur við sögu í aðalliðinu. Þótt ekki hafi verið um opinberan leik að ræða þá var þetta samt merkur áfangi fyrir landa okkar. 
 
Sem fyrr segir gerðist lítið uppi við mörkin í síðari hálfleik. Nathan Eccleston tók góðan sprett þegar tólf mínútur voru eftir. Hann náði þá boltanum af mótherja og lék fram að vítateignum en skot hans fór framhjá. Mínútu fyrir leikslok fékk Grasshoppers dauðafæri eftir horn og einn leikmaður liðsins hitti ekki boltann rétt upp við markið. Ekkert kom þó markið og þau úrslit voru í heildina sanngjörn.

Liverpool: Cavalieri (Gulacsi 46. mín.), Degen (Irwin 70. mín.), Darby, Kelly (Guðlaugur Victor 70. mín.), Ayala, Amoo (Robinson 82. mín.), Eccleston, Leiva (Ince 61. mín.), Spearing, Aquilani (Shelvey 61. mín.) og Ngog (Dalla Valle 61. mín.) Ónotaður varamaður: Riera.

Maður leiksins: Daniel Ayala. Spánverjinn lék mjög vel og var eins og klettur í vörn Liverpool.
 
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.



Roy Hodgson: Strákarnir stóðu sig mjög vel. Þetta er hópur stráka sem margir hverjir hafa ekki leikið með aðalliðinu og eru ekki hagvanir í því. Leikmenn eins og Tom Ince, Jack Robinson og Victor Pálsson eru allir mjög ungir leikmenn. Þannig að spila við lið á borð við Grasshoppers, sem eru við toppinn í svissnesku deildinni og gátu notað allt sitt lið, og ná markalausu jafntefli er fínn árangur með nokkra leikmenn sem hafa ekki sparkað bolta utan Akademíunnar. Við áttum nokkur tækifæri og áttum jafnteflið skilið. Við náðum því ekki með heppni heldur með mikilli vinnu og áræðni. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan