| Heimir Eyvindarson

Gerrard mætir þakleggjaranum

Ef Steven Gerrard spilar gegn Brighton í kvöld mun hann mæta manninum sem lagði þakið á húsið hans!

Craig Noone, einn besti leikmaður Brighton, er Scouser í húð og hár og gallharður stuðningsmaður Liverpool. Á sunnudaginn var hann t.d. meðal áhorfenda á White Hart Lane, þegar Liverpool lá fyrir Tottenham.

Áður en hann komst að hjá Brighton lék hann með ýmsum áhugamannaliðum á Merseyside og til að framfleyta sér meðan hann bjó fyrir norðan þurfti hann að vinna með boltanum, eins og gengur. Dag einn datt hann svo sannarlega í lukkupottinn.

,,Verkstjórinn hringdi í mig klukkan sjö um morguninn og sagði að við værum að fara að setja þak á húsið hjá Steven Gerrard! Ég hélt hann væri að grínast. En þegar við komum á staðinn þekkti ég húsið af myndum í blöðum og sjónvarpi", segir Noone í viðtali við Daily Express.

,,Hann byggði æfingasal og leikherbergi við húsið sitt og við settum þakið á og klæddum húsið að utan fyrir hann. Ég var þarna í um það bil mánuð, en ég talaði aldrei við hann. En ef hann spilar leikinn þá ætla ég að nefna við hann að ég hafi unnið fyrir hann."

Noone lék með drengjaflokkum Liverpool, en þegar hann var 11 ára ráðlagði félagið honum að leita á önnur mið. Nú hlakkar hann til að mæta uppáhaldsfélaginu sínu.

,,Að fá að mæta Liverpool er algjör draumur. Öll fjölskyldan er full af Liverpool aðdéndum. Bæði móður- og föðurættin. Ég á einn vin sem heldur með Everton, restin heldur með Liverpool þannig að ég þurfti að redda fullt af miðum á leikinn. Ég á alveg eins von á því að félagar mínir og fjölskylda laumi sér Liverpool megin í stúkuna. Það er spurning hvað þeir gera ef ég skyldi nú skora. Það er ekkert víst að þeir fagni!"

Noone er ekki eini Scouserinn sem spilar fyrir Brighton. Alan Navarro sem var um skeið hjá Liverpool er einnig fastamaður í liði sunnlendinganna. Navarro fékk úthlutað treyju númer 33 hjá Liverpool árið 2000, en spilaði aldrei aðalliðsleik.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan