| Grétar Magnússon
TIL BAKA
Slæmt tap í fyrsta deildarleik
Fyrsti leikur Brendan Rodgers sem stjóri Liverpool í Úrvalsdeildinni fór eins og verst var á kosið er liðið tapaði 3-0 fyrir West Bromwich Albion. Til að bæta gráu ofaná svart var liðið manni færri meirihlutann af síðari hálfleik.
Joe Allen lék sinn fyrsta leik fyrir félagið og Glen Johnson spilaði vinstri bakvörð þar sem José Enrique var lítillega meiddur. Martin Kelly leysti þá hægri bakvarðastöðuna.
Það voru mennirnir hans Steve Clarke fengu fyrsta færi leikisins er Liam Ridgewell skaut yfir markið frá vítateigslínu eftir tveggja mínútna leik. Skömmu síðar vann Shane Long boltann af Lucas Leiva úti vinstra megin en hann náði ekki skoti á markið úr þröngri stöðu.
Eftir 10 mínútna leik leit fyrsta færi Liverpool dagsins ljós er Luis Suarez fékk boltann á miðjum vallarhelmingi WBA, hann lék framhjá Jonas Olsson og Gareth McAuley áður en hann þrumaði að marki en Ben Foster sló boltann frá. Suarez var aftur á ferðinni nokkrum andartökum síðar er hann snerist framhjá varnarmönnum andstæðinganna og náði skoti á markið sem Foster varði einnig.
Eftir hálftíma leik hefði Suarez mátt gera betur er hann skallaði boltann yfir markið úr markteignum eftir góðan undirbúning frá Glen Johnson sem komst uppað endamörkum og sendi fyrir markið frá vinstri. Áfram héldu gestirnir að gera sig líklegri uppvið markið og föst sending frá Suarez var ekki hreinsuð nægilega frá marki og þar kom Glen Johnson aðvífandi en skot hans var vel yfir markið.
Gestirnir fengu svo aukaspyrnu og var það fyrirliðinn sem tók hana, boltinn barst til Lucasar inní vítateig en hann náði því miður ekki valdi á boltanum og þar með ekki skoti á markið.
Tveimur mínutum fyrir hálfleik kom svo fyrsta mark leiksins og þar var Zoltan Gera að verki. Heimamenn fengu hornspyrnu og varnarmenn Liverpool skölluðu frá, boltinn fór þó ekki langt útfyrir vítateig þar sem Gera stóð og hann tók boltann á brjóstkassann og þrumaði að marki. Skotið hafnaði efst í markhorninu, óverjandi fyrir Pepe Reina.
Staðan var því 1-0 í hálfleik fyrir heimamenn.
Liverpool byrjaði seinni hálfleikinn ágætlega og Luis Suarez fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig. Hann tók spyrnuna sjálfur en skaut rétt framhjá markinu.
Eftir þetta fór að síga verulega á ógæfuhliðina hjá gestunum. Á 57. mínútu fékk Shane Long sendingu innfyrir og honum til happs rann Martin Skrtel og hann var kominn nánast einn í gegn. Daniel Agger náði þó til hans og virtist ýta við honum er hann lék inní vítateig. Phil Dowd dómari dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu og rak þar með Agger af velli sem þótti nú kannski frekar strangur dómur. Margir muna eftir fyrsta leik Liverpool í fyrra þar sem Phil Dowd var einmitt dómari leiksins. Þar fékk aftasti varnarmaður Sunderland aðeins gult spjald fyrir að brjóta á Suarez er hann var kominn einn gegn markmanni.
Shane Long fór sjálfur á punktinn og vítaspyrna hans var vægast sagt léleg því Pepe Reina þurfti rétt að kasta sér niður til að grípa boltann. En skömmu síðar var búið að dæma aðra vítaspyrnu er Martin Skrtel felldi Shane Long inní teig. Skrtel var of lengi með boltann og Long náði til hans og Skrtel sparkaði í hann.
Peter Odemwingie fór nú á punktinn og hann gerði engin mistök og setti boltann í markið. Skömmu síðar fengu Liverpool menn hornspyrnu sem Joe Allen tók, Ben Foster gerði sig líklegan til að grípa boltann en missti hann. Suarez náði að skjóta en boltinn fór yfir markið, þar með var mörgum ljóst að það átti ekki fyrir gestunum að liggja að skora í leiknum.
Varamaðurinn Romelu Lukaku hjá WBA fékk svo sendingu innfyrir vörnina og hristi Jamie Carragher auðveldlega af sér, hann lék áfram og sendi boltann fyrir markið þar sem James Morrison var á einn gegn Pepe Reina en sem betur fer skaut hann yfir markið.
Það var svo Lukaku sem skoraði síðasta mark heimamanna með skalla af stuttu færi eftir sendingu frá Ridgewell vinstra megin í teignum. Brendan Rodgers reyndi hvað hann gat til að hressa uppá leik sinna manna og setti hann Joe Cole inná fyrir Lucas. Það fór þó ekki betur en svo að Cole meiddist aftur og þurfti hann að fara af velli fimm mínútum síðar og í hans stað kom Andy Carroll.
Síðasta færið sem vert er að minnast á féll enn og aftur Suarez í skaut, Borini sendi fyrir markið frá hægri og Suarez var í mjög góðu skallafæri en hann hitti ekki markið.
Leikurinn fjaraði út og 3-0 sigur heimamanna staðreynd.
West Bromwich Albion: Foster, Olsson, McAuley, Ridgewell, Reid, Yacob, Mulumbu, Morrison (Brunt, 81. mín.), Gera (Fortune, 69. mín.), Odemwingie og Long (Lukaku, 68. mín.). Ónotaðir varamenn: Myhill, El Ghanassy, Dawson og Jara.
Gult spjald: Marc-Antoine Fortune.
Mörk West Bromwich Albion: Zoltan Gera (43. mín.), Peter Odemwingie (vítaspyrna 64. mín.) og Romelu Lukaku (77. mín.).
Liverpool: Reina, Kelly, Agger, Skrtel, Johnson, Leiva (Cole, 69. mín. (Carroll 78. mín.)), Allen, Gerrard, Downing (Carragher 60. mín.), Borini og Suarez. Ónotaðir varamenn: Jones, Adam, Shelvey og Henderson.
Gul spjöld: Glen Johnson, Luis Suarez, Lucas Leiva og Andy Carroll.
Rautt spjald: Daniel Agger (58. mín.).
Maður leiksins: Það er svo sem alltaf erfitt að nefna einhvern leikmann þegar tapið er slæmt en Joe Allen þótti standa sig vel í sínum fyrsta leik fyrir félagið. Hann var öruggur í sínum aðgerðum á miðjunni.
Brendan Rodgers: ,,Mér fannst lokatölur leiksins vera nokkuð harðar, ég verð að vera hreinskilinn. Á upphafsmínútunum vorum við að stjórna leiknum og takturinn í okkar leik var góður. Alveg þangað til að þeir skora fyrsta markið þá leit út fyrir að við yrðum fyrstir til að skora."
,,Ég get ekki kvartað yfir fyrsta markinu - þetta var glæsilegt skot. Við vörðumst hornspyrnunni með ágætum skalla frá marki. Glen Johnson hefði svo örugglega ekki getað gert betur í því að pressa boltann en þetta var bara ótrúlega vel gert. Ég er svo ekki vanur að kvarta yfir dómurum en mér fannst tvær ákvarðanir - þrjár ef þú telur brottreksturinn með - vera mjög mjög strangar. Ég held að hvorug ákvörðunin hafi verið vítaspyrna, ef maður skoðar þetta aftur á myndbandi má sjá að þetta voru mjög mjög strangir dómar."
Fróðleikur:
- Brendan Rodgers stjórnaði liðinu í fyrsta sinn í Úrvalsdeildinni.
- Þetta var í 250. skiptið sem Steven Gerrard bar fyrirliðabandið í Úrvalsdeildinni.
- Þetta var í 250. skiptið sem Steven Gerrard bar fyrirliðabandið í Úrvalsdeildinni.
- Fabio Borini spilaði í fyrsta sinn fyrir félagið í Úrvalsdeildinni ásamt Joe Allen sem lék sinn allra fyrsta leik fyrir félagið.
- Þetta var versta tap félagsins í fyrsta leik tímabilsins síðan árið 1937. Liverpool tapaði þá 6:1 fyrir Chelsea.
Nýlegar fréttir
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni
Fréttageymslan