| Sf. Gutt
TIL BAKA
Luis tryggði jafntefli gegn Newcastle
Enn einu sinni bregst heimavöllurinn hjá Liverpool. En sem betur fer þá var Luis Suarez enn einu sinni á ferðinni uppi við mark andstæðinga Liverpool. Nú tryggði hann Liverpool 1:1 jafntefli á móti Newcastle United á Anfield með ótrúlegu marki.
Steven Gerrard lék í 600. sinn með Liverpool og fékk fyrir leik viðurkenningu frá félagi sínu fyrir leikinn. Hann leiddi að sjálfsögu sína menn til leiks og þeir byrjuðu leikinn af miklum krafti. Eftir fimm mínútur eða svo hefði Luis Suarez átt að fá víti eftir viðskipti við Fabricio Coloccini en ekkert var dæmt. Það verður líklega bið á því að Luis fái dæmda vítaspyrnu en hann gæti verið búinn að fá nokkrar það sem af er leiktíðar.
Þrátt fyrir kraftmikinn leik Liverpool létu færin á sér standa og það var ekki fyrr en eftir tuttugu mínútur að marki Newcastle var ógnað. Luis tók þá aukaspyrnu og fínt skot hans strauk þverslána. Rétt á eftir braust Luis inn í vítateiginn hægra megin, eftir flotta sókn, en Tim Krul varði naumlega með fæti eins og handboltamarkmaður.
Gestirnir fóru smá saman að færa sig upp á skaftið en þeir höfðu þó varla átt færi áður en þeir skoruðu á 43. mínútu. Hatem Ben Arfa lék þá inn í vítateiginn hægra megin. Þar fór hann illa með Jose Enrique og sendi boltann fyrir markið. Yohan Cabaye fékk hann við markteigshornið hinu megin og þrumaði fallega í hornið fjær án þess að Brad Jones ætti möguleika. Hversu oft síðustu misseri hefur þetta gerst? Mótherjar Liverpool skora eitthvað ótrúlegt mark úr sínu fyrsta færi eftir að Liverpool hefur átt leikinn! Að sjálfsögðu dugði markið til að tryggja Newcastle hálfleiksforystu.
Leikmenn Liverpool virtust slegnir út af laginu framan af síðari hálfleik en þá tók Luis til sinna ráða. Á 58. mínútu átti hann fast skot utan vítateigs sem Tim varði naumlega. Það var svo á 67. mínútu sem Liverpool jafnaði verðskuldað. Jose sendi þá langa og háa sendingu inn í vítateig Newcastle. Þar var Luis Suarez einn í kapphlaupi við varnarmann. Ekki virtist mikil hætta en á einhvern ótrúlegan hátt náði Luis að drepa boltann niður með öxlinni. Hann lék svo í einni hreyfingu á Tim og varnarmanninn og rúllaði boltanum í markið af stuttu færi. Ótrúlegt mark og Tim og varnarmaðurinn skildu ekki neitt í neinu hvernig Luis fór að þessu öllu og það var heldur ekkert auðvelt að átta sig á þessum töfrabrögðum. Frábært mark hjá þessum magnaða leikmanni og með þeim fallegri en af mörgum er að taka!
Rétt á eftir var Luis enn á ferðinni. Hann skildi tvo varnarmenn eftir hægra megin í vítateignum, komst upp að endamörkum og sendi út á varamanninn Jonjo Shelvey sem á einhvern ótrúlegan hátt mistókst að kom boltanum í opið markið. Hroðalegt að horfa upp á svona gott færi fara forgörðum.
Á 76. mínútu sendi Luis á Raheem Sterling. Hann komst í gott færi og allt leit út fyrir mark þegar hann hleypti af en Steven Taylor bjargaði málum með því að henda sér fyrir boltann. Raheem var mjög góður í leiknum og það munar um þann litla. Sókn Liverpool var linnulaus og það gaf gestunum færi á skyndisóknum. Á 82 mínútu átti Sammy Ameobi skot sem Brad þurfti að henda sér niður til að verja. Tveimur mínútum seinna fækkaði í liði Newcastle þegar Fabricio hljóp að Luis með takkana á undan sér og það var ekki honum að þakka að Luis fór ekki illa út úr því. Dómarinn sendi þann argentínska umsvifalaust af velli og það réttilega.
Sókn Liverpool var nú linnulaus og Jonjo hefði átt að skora tveimur mínútum fyrir leikslok en boltinn fór beint á Tim þegar hann skallaði eftir fyrirgjöf Stewart Downing. Dauðafæri! Auðvitað kom svo tréverkið við sögu áður en yfir lauk. Annað gat ekki gerst! Steven sendi þá aukaspyrnu inn í vítateiginn. Boltinn skoppaði í jörðina, yfir allt og alla og lenti ofan á þverslánni og yfir markið en auðvitað fór hann ekki í markið. Sigurmarkið sem Liverpool hefði verðskuldað kom ekki og enn einu sinni mistókst Liverpool að vinna á Anfield.
Liverpool: Jones, Wisdom, Skrtel, Agger, Enrique, Gerrard, Allen, Sahin (Downing 74. mín.), Suso (Shelvey 66. mín.), Suarez og Sterling. Ónotaðir varamenn: Gulacsi, Assaidi, Henderson, Coates og Carragher.
Mark Liverpool: Luis Suarez (67. mín.).
Newcastle United: Krul, Anita, S. Taylor, Coloccini, Santon, Perch (Simpson 27. mín.), Cabaye (Ferguson 68. mín.), Gutierrez, Ben Arfa, Cisse og Ba (Sammy Ameobi 50. mín.). Ónotaðir varamenn: Harper, Williamson, Shola Ameobi og Obertan.
Mark Newcastle: Yohan Cabaye (43. mín.).
Rautt spjald: Fabricio Coloccini.
Gult spjald: Davide Santon.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.803.
Maður leiksins: Luis Suarez. Þessi magnaði leikmaður var allt að því óviðráðanlegur á köflum. Hann barðist eins og ljón og gafst aldrei upp. Svo skoraði hann mark sem lengi verður í minnum haft. Frábær tilþrif.
Brendan Rodgers: Mér fannst við leika frábærlega. Við vorum látlaust með boltann í fyrri hálfleik og við sóttum án afláts. Við áttum nokkur færi en sváfum á verðinum rétt fyrir hálfleik. Ég er mjög ánægður með hvernig leikur okkar er að þróast.
Fróðleikur
- Steven Gerrard lék sinn 600. leik með Liverpool. Hann hefur skorað 151 mark í leikjunum.
- Luis Suarez skoraði sitt tíunda mark á leiktíðinni.
- Fyrir þennan leik hafði Liverpool unnið Newcastle í síðustu sjö leikjum á Anfield.
- Liverpool hefur ekki snúið tapstöðu í sigur í deildarleik frá því í desember í fyrra þegar liðið vann Newcastle 3:1 á Anfield.
- Liverpool hefur aðeins unnið þrjá af síðustu fimmtán heimaleikjum sínum í deildinni.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpool.com.
Hér er viðtal við Brendan Rodgers.
Steven Gerrard lék í 600. sinn með Liverpool og fékk fyrir leik viðurkenningu frá félagi sínu fyrir leikinn. Hann leiddi að sjálfsögu sína menn til leiks og þeir byrjuðu leikinn af miklum krafti. Eftir fimm mínútur eða svo hefði Luis Suarez átt að fá víti eftir viðskipti við Fabricio Coloccini en ekkert var dæmt. Það verður líklega bið á því að Luis fái dæmda vítaspyrnu en hann gæti verið búinn að fá nokkrar það sem af er leiktíðar.
Þrátt fyrir kraftmikinn leik Liverpool létu færin á sér standa og það var ekki fyrr en eftir tuttugu mínútur að marki Newcastle var ógnað. Luis tók þá aukaspyrnu og fínt skot hans strauk þverslána. Rétt á eftir braust Luis inn í vítateiginn hægra megin, eftir flotta sókn, en Tim Krul varði naumlega með fæti eins og handboltamarkmaður.
Gestirnir fóru smá saman að færa sig upp á skaftið en þeir höfðu þó varla átt færi áður en þeir skoruðu á 43. mínútu. Hatem Ben Arfa lék þá inn í vítateiginn hægra megin. Þar fór hann illa með Jose Enrique og sendi boltann fyrir markið. Yohan Cabaye fékk hann við markteigshornið hinu megin og þrumaði fallega í hornið fjær án þess að Brad Jones ætti möguleika. Hversu oft síðustu misseri hefur þetta gerst? Mótherjar Liverpool skora eitthvað ótrúlegt mark úr sínu fyrsta færi eftir að Liverpool hefur átt leikinn! Að sjálfsögðu dugði markið til að tryggja Newcastle hálfleiksforystu.
Leikmenn Liverpool virtust slegnir út af laginu framan af síðari hálfleik en þá tók Luis til sinna ráða. Á 58. mínútu átti hann fast skot utan vítateigs sem Tim varði naumlega. Það var svo á 67. mínútu sem Liverpool jafnaði verðskuldað. Jose sendi þá langa og háa sendingu inn í vítateig Newcastle. Þar var Luis Suarez einn í kapphlaupi við varnarmann. Ekki virtist mikil hætta en á einhvern ótrúlegan hátt náði Luis að drepa boltann niður með öxlinni. Hann lék svo í einni hreyfingu á Tim og varnarmanninn og rúllaði boltanum í markið af stuttu færi. Ótrúlegt mark og Tim og varnarmaðurinn skildu ekki neitt í neinu hvernig Luis fór að þessu öllu og það var heldur ekkert auðvelt að átta sig á þessum töfrabrögðum. Frábært mark hjá þessum magnaða leikmanni og með þeim fallegri en af mörgum er að taka!
Rétt á eftir var Luis enn á ferðinni. Hann skildi tvo varnarmenn eftir hægra megin í vítateignum, komst upp að endamörkum og sendi út á varamanninn Jonjo Shelvey sem á einhvern ótrúlegan hátt mistókst að kom boltanum í opið markið. Hroðalegt að horfa upp á svona gott færi fara forgörðum.
Á 76. mínútu sendi Luis á Raheem Sterling. Hann komst í gott færi og allt leit út fyrir mark þegar hann hleypti af en Steven Taylor bjargaði málum með því að henda sér fyrir boltann. Raheem var mjög góður í leiknum og það munar um þann litla. Sókn Liverpool var linnulaus og það gaf gestunum færi á skyndisóknum. Á 82 mínútu átti Sammy Ameobi skot sem Brad þurfti að henda sér niður til að verja. Tveimur mínútum seinna fækkaði í liði Newcastle þegar Fabricio hljóp að Luis með takkana á undan sér og það var ekki honum að þakka að Luis fór ekki illa út úr því. Dómarinn sendi þann argentínska umsvifalaust af velli og það réttilega.
Sókn Liverpool var nú linnulaus og Jonjo hefði átt að skora tveimur mínútum fyrir leikslok en boltinn fór beint á Tim þegar hann skallaði eftir fyrirgjöf Stewart Downing. Dauðafæri! Auðvitað kom svo tréverkið við sögu áður en yfir lauk. Annað gat ekki gerst! Steven sendi þá aukaspyrnu inn í vítateiginn. Boltinn skoppaði í jörðina, yfir allt og alla og lenti ofan á þverslánni og yfir markið en auðvitað fór hann ekki í markið. Sigurmarkið sem Liverpool hefði verðskuldað kom ekki og enn einu sinni mistókst Liverpool að vinna á Anfield.
Liverpool: Jones, Wisdom, Skrtel, Agger, Enrique, Gerrard, Allen, Sahin (Downing 74. mín.), Suso (Shelvey 66. mín.), Suarez og Sterling. Ónotaðir varamenn: Gulacsi, Assaidi, Henderson, Coates og Carragher.
Mark Liverpool: Luis Suarez (67. mín.).
Newcastle United: Krul, Anita, S. Taylor, Coloccini, Santon, Perch (Simpson 27. mín.), Cabaye (Ferguson 68. mín.), Gutierrez, Ben Arfa, Cisse og Ba (Sammy Ameobi 50. mín.). Ónotaðir varamenn: Harper, Williamson, Shola Ameobi og Obertan.
Mark Newcastle: Yohan Cabaye (43. mín.).
Rautt spjald: Fabricio Coloccini.
Gult spjald: Davide Santon.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.803.
Maður leiksins: Luis Suarez. Þessi magnaði leikmaður var allt að því óviðráðanlegur á köflum. Hann barðist eins og ljón og gafst aldrei upp. Svo skoraði hann mark sem lengi verður í minnum haft. Frábær tilþrif.
Brendan Rodgers: Mér fannst við leika frábærlega. Við vorum látlaust með boltann í fyrri hálfleik og við sóttum án afláts. Við áttum nokkur færi en sváfum á verðinum rétt fyrir hálfleik. Ég er mjög ánægður með hvernig leikur okkar er að þróast.
Fróðleikur
- Steven Gerrard lék sinn 600. leik með Liverpool. Hann hefur skorað 151 mark í leikjunum.
- Luis Suarez skoraði sitt tíunda mark á leiktíðinni.
- Fyrir þennan leik hafði Liverpool unnið Newcastle í síðustu sjö leikjum á Anfield.
- Liverpool hefur ekki snúið tapstöðu í sigur í deildarleik frá því í desember í fyrra þegar liðið vann Newcastle 3:1 á Anfield.
- Liverpool hefur aðeins unnið þrjá af síðustu fimmtán heimaleikjum sínum í deildinni.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpool.com.
Hér er viðtal við Brendan Rodgers.
Nýlegar fréttir
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni
Fréttageymslan