| Sf. Gutt

Gott jafntefli á Brúnni

Liverpool gerði býsna góða ferð í höfuðstaðinn og náði 1:1 jafntefli við Chelsea á Brúnni eftir að hafa lent undir. Luis Suarez skoraði enn og aftur mikilvægt mark.

Brendan Rodgers breytti liðinu sínu að sjálfsögðu mikið frá Evrópuleiknum í Moskvu. Reyndar hélt Jamie Carragher sæti sínu og kom það á óvart en ástæðan var sú að Martin Skrtel var veikur. Evrópu- og F.A. bikarmeistararnir byrjuðu betur og það kom svo sem ekki á óvart að Deildarbikarmeistararnir ættu undir högg að sækja. Oscar fékk fyrsta færið. Joe Allen missti boltann, boltinn gekk inn í vítateig á Brasilíumanninn en hann skaut yfir úr góðu færi.

Framhaldið var tíðindalítil fram á 20. mínútu. Chelsea fékk þá horn frá hægri. John Terry losaði sig úr gæslu Daniel Agger og skallaði boltann óvaldaður í markið án þess að Brad Jones gæti nokkuð að gert. Fyrirliði Chelsea var að koma úr fjögurra leikja banni og var auðvitað snarbrattur með markið. Það merkilega var að hornið kom eftir að dómarinn hafði stöðvað sókn Liverpool. Boltinn fór í dómarinn og beint á leikmann Chelsea en dómarinn er jú hluti af vellinum og ekkert við því að segja.

Sjö mínútum seinna mátti ekkert út af bera. Fernando Torres komst inn í vítateiginn og náði skoti sem Brad varði stórvel. Hann hélt þó ekki boltanum sem hrökk út í vítateiginn á Edin Hazard en hann náði ekki að stýra boltanum í markið úr góðu færi. 

Fimm mínútum fyrir leikhlé varð Chelsea fyrir miklu áfalli þegar Luis Suarez var hrint á John Terry sem lá ekki og stóð ekki upp aftur. John virtist illa meiddur á hné. Luis var þó ekki um að kenna því honum var hrint þannig að hann lenti á John. Fimm mínútum var bætt við og á þeim tíma fékk Juan Mata upplagt færi. Hann komst einn í gegn eftir að vörn Liverpool opnaðist upp á gátt en Spánverjinn skaut yfir. Mark á þessum tímapunkti hefði farið langt með að klára leikinn en Liverpool átti von þrátt fyrir að vera undir. 

Liverpool gekk illa að komast inn í leikinn eftir hlé og á 57. mínútu bjargaði Brad aftur liði sínu. Fernando átti þá skalla eftir aukaspyrnu en Brad varði. Boltinn hrökk út og vörn Liverpool náði naumlega að bjarga í mikilli orrahríð sem fylgdi. Steven Gerrard lá eftir þegar hættan var liðin hjá en gat haldið áfram eftir að hugað var að honum. 

Brendan Rodgers sendi Suso til leiks á 60. mínútu og við það batnaði leikurinn Liverpool til muna. Liverpool jafnaði svo metin á 73. mínútu. Suso tók hornspyrnu frá hægri, Jamie Carragher skallaði boltann aftur fyrir sig yfir á fjærstöng og þar var Luis Suarez mættur til að skalla í markið af örstuttu færi. Vel gert og ekki síst hjá Jamie sem leggur ekki upp mark á hverjum degi.
 
Bæði lið hefðu getað tryggt sér sigur á síðustu mínútunum. Á 84. mínútu sendi Steven fram á Raheem Sterling sem lék inn í vítateiginn hægra megin. Hann lagði svo boltann fyrir fætur Suso en skot hans var mislukkað og endaði uppi í stúku. Tveimur mínútum fyrir leikslok átti Jose Enrique, sem átti sinn besta leik á árinu, fína sendingu fram á Luis sem slapp einn í gegn. Petr Cech var þó vel vakandi, kom út fyrir vítateiginn á móti Luis og kom boltanum í burtu. 

Á lokamínútunni átti Edin skot utan vítateigs sem var ekki fjarri lagi en fór sem betur fer framhjá. Enn gafst færi áður en leiknum lauk. Raheem fékk boltann við vítateiginn, sendi þvert til vinstri á Luis og hann sendi enn lengra til vinstri á Jose sem átti autt svæði framundan. Hann skaut í stað þess að fara nær markinu en Petr varði neðst í horninu og sló boltann í horn. Þar með lauk leiknum. 

Liverpool hefði vissulega getað tapað þessum leik en náði jafntefli og hefði getað unnið. Liðið átti jafntefli skilið fyrir góða baráttu en það þarf að breyta jafnteflum í sigra og til þess þarf helst að skora meira en eitt mark í leik.

Chelsea: Cech, Azpilicueta, Terry (Cahill 39. mín.), Ivanovic, Bertrand, Mikel, Ramires, Hazard, Oscar (Moses 77. mín.), Mata og Torres (Sturridge 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Turnbull, Romeu, Ferreira og Marin. 

Mark Chelsea: John Terry (20. mín.).

Gul spjöld: John Obi Mikel.
 
Liverpool: Jones, Wisdom, Carragher, Agger, Johnson, Allen, Gerrard, Sterling, Sahin (Suso 60. mín.), Enrique og Suarez. Ónotaðir varamenn: Gulacsi, Cole, Assaidi, Henderson, Coates og Downing.
 
Mark Liverpool: Luis Suarez (73. mín.).

Gul spjöld: Joe Allen, Glen Johnson og Steven Gerrard.

Áhorfendur á Stamford Bridge: 41.627.

Maður leiksins: Jamie Carragher. Sá gamli kom óvænt til leiks og stóð sig eins og hetja. Jamie hefur oft staðið vaktina vel á þessum velli og það gerði hann sannarlega í þetta skiptið. Svo gerði hann sér lítið fyrir og lagði upp mark. Magnaður leikur hjá Jamie!

Brendan Rodgers: Leikmennirnir sýndu enn og aftur skapstyrk sinn í síðari hálfleik. Ég og allir aðrir vita vil hversu erfitt er að spila hérna. Þetta er fínt stig og þegar upp er staðið hefðum við getað unnið leikinn.

                                                                       Fróðleikur.

- Luis Suarez skoraði í ellefta sinn á leiktíðinni.

- Markið var hans áttunda í deildinni og hefur aðeins einn annar leikmaður skorað jafn mörg mörk og hann.

- Raheem Sterling lék sinn 20. leik með Liverpool. Hann hefur skorað einu sinni.

- Liverpool hafði unnið síðustu þrjá leiki á Stamford Bridge.

- Liverpool hefur nú spilað sex leiki án taps í deildinni. Þó hafa aðeins tveir unnist.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpool.com.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan