| Grétar Magnússon

Fréttir af Lucas, Shelvey og Reina

Brendan Rodgers færði góðar fréttir af meiðslum þriggja leikmanna á blaðamannafundi fyrr í dag.

Lucas Leiva byrjaði í dag æfingar að fullu á Melwood eftir endurhæfingu sína vegna meiðsla sem hann hlaut í fyrsta heimaleik tímabilsins gegn Manchester City.

Þeir Jonjo Shelvey og Pepe Reina eru einnig búnir að ná sér af sínum meiðslum og geta spilað gegn Wigan um helgina.

Rodgers sagði á blaðamannafundi:  ,,Við erum í góðri stöðu núna.  Sumir leikmenn sem hafa verið lengi frá vegna meiðsla eru byrjaðir að æfa að fullu á ný."

,,Lucas Leiva er byrjaður að æfa á ný, það eru frábærar fréttir.  Hann hefur lagt gríðarlega mikið á sig í endurhæfingunni, hann kemur því út á völlinn á ný í góðu standi.  Hann verður ekki klár um helgina, en á næstu vikum verður hann mjög nálægt því að spila með aðalliðinu."

Um þá Shelvey og Reina bætti Rodgers við:  ,,Jonjo byrjar að æfa aftur í dag, hann mun því vera í góðu standi (til að spila um helgina)."

,,Pepe hefur verið að æfa á fullu.  Hann var mjög nálægt því að spila á sunnudaginn (gegn Chelsea).  Hann sýndi það hversu mikið hann vill berjast um sæti í liðinu hér að hann afþakkaði að fara til liðs við spænska landsliðshópinn þrátt fyrir að vera kallaður inn.  Hann vildi frekar vera hér og ganga úr skugga um að hann verður klár um helgina og hann hefur verið að æfa alla vikuna."


Reina hefur ekki spilað síðan 7. október og hefur Brad Jones staðið á milli stanganna síðan.  Rodgers segir að hann muni eiga í vandræðum með að ákveða hvorn markvörðinn hann notar um helgina vegna þess hversu vel Jones hefur staðið sig.

Stjórinn sagði:  Brad hefur staðið sig frábærlega.  Ég hef sagt það áður og ég endurtek það, Pepe Reina er markvörður okkar númer 1."

,,Hann hefur verið framúrskarandi markvörður hjá þessu félagi.  Ég veit það eftir að hafa rætt við hann að hann stefnir á að vera áfram að spila á þessu stigi til næstu níu eða tíu ára."

,,Hann hefur verið frábær atvinnumaður síðan ég kom hingað, ég ræði reglulega við hann til að reyna að bæta hans leik og koma honum aftur á þann stall sem hann var á.  Það er gott að hafa tvo markverði.  Brad hefur komið inn og staðið sig frábærlega.  Núna þarf ég að taka ákvörðun fyrir helgina."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan