| Heimir Eyvindarson

Kærkominn heimasigur

Það kom að því að Liverpool tækist að leggja Wigan að velli. Eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik á Anfield tóku heimamenn öll völd á vellinum og uppskáru kærkominn 3-0 sigur.

Brendan Rodgers gerði þrjár breytingar á liðinu frá jafnteflisleiknum gegn Chelsea um liðna helgi. Pepe Reina tók stöðu sína í markinu á ný, eftir að hafa verið frá vegna meiðsla í síðustu leikjum. Þá kom Martin Skrtel aftur inn í vörnina eftir smávægileg meiðsli og Suso tók stöðu Nuri Sahin.

Liverpool hóf leikinn af mun meiri krafti en heimamenn og var nánast einrátt á vellinum fyrstu 10-15 mínúturnar. Eftir það jafnaðist leikurinn aðeins og gestirnir komust í nokkrar ágætar sóknir.

Liðin skiptust á um að sækja, Liverpool var heldur meira með boltann og átti fleiri hálffæri og hornspyrnur. Lítið var hinsvegar um alvöru sjénsa.

Fyrsta virkilega góða færi Liverpool kom 23. mínútu þegar Suso átti hörkuskot að marki gestanna sem Al Habsi varði vel.

Al Habsi átti ekki síðri tilþrif á 44. mínútu þegar Jose Enrique gerðist aðgangsharður í teignum eftir góðan undirbúning Gerrard og Suarez.

Á 28. mínútu leiksins varð að gera nokkurra mínútna hlé þar sem Ben Watson leikmaður Wigan virtist meiðast illa eftir að hann og Sterling hoppuðu saman upp í boltann. Eftir leikinn var staðfest að Watson væri fótbrotinn.

Á 37. mínútu fór Suso af velli og Jordan Henderson kom inn á í hans stað. Ekkert hefur enn heyrst frá Liverpool um það hvort Suso hafi meiðst, og þá hversu alvarlega. Við vonum það besta.

Fyrri hálfleikur fjaraði nokkuð tíðindalaust út og liðin héldu jöfn til búningsherbergjanna í leikhléi.

Staðan 0-0 í hálfleik og ekkert voðalega mikið að gerast í leiknum.

Í síðari hálfleik tók Liverpool síðan öll völd á vellinum. Strax á 47. mínútu skoraði Luis Suarez eftir að Raheem Sterling hafði  komist inn í sendingu Wigan manna og sent góða sendingu fyrir fætur Úrugvæans í teignum. Staðan orðin 1-0 á Anfield.

Einungis rúmum 10 mínútum síðar var sjóðheitur Suarez aftur á ferðinni. Núna skoraði hann laglegt mark eftir frábæran undirbúning Jose Enrique. Staðan 2-0 og Suarez kominn með 10 mörk í deildinni í vetur.

Sjö mínútum síðar var svo Enrique sjálfur á ferðinni með þriðja mark Liverpool. Liverpool fékk þá ranglega dæmt innkast á miðjum vallarhelmingi Wigan og upp úr innkastinu komust þeir Suarez og Sterling inn í teiginn og gerðu þar mikinn usla. Al Habsi í marki Wigan tókst að verja skot Suarez út í teiginn og þar kom Enrique og ýtti boltanum yfir línuna. Staðan orðin 3-0 og úrslitin ráðin á Anfield. Leikmenn Wigan voru gríðarlega ósáttir við Kevin Friend dómara og hans menn eftir markið og fengu að launum tvö gul spjöld.

Á 75. mínútu kom síðan besta færi gestanna, þegar Arouna Koné fékk boltann í lappirnar 2-3 metra frá marki eftir skot frá Beausejour. Boltinn hrökk af Kone og í stöng Liverpool, en aðstoðardómarinn dæmdi rangstöðu og dró þar með líklega aðeins úr vonbrigðum Kone. Að vísu leiddi endursýning í ljós að Kone var ekki rangstæður.

Rétt um mínútu síðar geystist Glen Johnson inn í vítateig gestanna og átti gott skot rétt fram hjá markinu og varnarlausum Al Habsi. Það sem eftir lifði leiks hélt Liverpool áfram að sækja án þess að ná að bæta við marki. Niðurstaðan á Anfield sanngjarn og kærkominn 3-0 sigur heimamanna.

Liverpool:
Reina, Wisdom, Agger (Carragher á 82. mín.), Skrtel, Johnson, Enrique, Allen, Gerrard, Sterling, Suso (Henderson á 37. mín.) og Suarez (Shelvey á 87. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones, Carragher, Shelvey, Cole, Sahin og Coates.
 
Mörk Liverpool: Luis Suarez (47. og 58. mín.), Enrique (65. mín.).

Wigan: Al Habsi, Ramis, Caldwell (Gomez á 69. mín.), Boyce, Figueroa, Beausejour, Watson (Jones á 32. mín.), McCarthy, Maloney, Di Santo (Miyaichi á 69. mín.), Kone. Ónotaðir varamenn: Boselli, Pollitt, Stam og McManaman.

Gul spjöld:
Di Santo, Caldwell og Figueroa.
 

Áhorfendur á Anfield Road:
44.913.

Dómari: Kevin Friend

Maður leiksins: Jose Enrique verður fyrir valinu að þessu sinni. Það er að vísu erfitt að gera upp á milli Luis Suarez og Jose Enrique í þessum leik. Markaskorararnir voru örugglega bestu menn Liverpool í dag. Suarez með tvö mörk og Enrique með mark og frábæra stoðsendingu. En það er virkilega ánægjulegt að sjá hvað Enrique er að koma sterkur til baka eftir að hafa verið úti í kuldanum um langt skeið. Hann nýtur sín vel á kantinum þar sem varnarskyldan er aðeins minni en í bakverðinum. Frábærar sendingar oft á tíðum og vinnur vel. Velkominn til baka!  

Brendan Rodgers: Við lékum vel í dag, sérstaklega í seinni hálfleik. Loksins uppskera leikmenn laun erfiðis síns. Luis skoraði tvö frábær mörk og það er mjög ánægjulegt hvað hann er í góðu formi. Það var líka mikilvægt að halda markinu hreinu í dag. Liðið allt á hrós skilið fyrir góða baráttu.
                                                                      
Fróðleikur.

- Þetta var annar heimasigur Liverpool í deildinni í vetur.

- Luis Suarez er nú orðinn markahæstur í Úrvalsdeildinni með 10 mörk. Alls hefur hann skorað 13 mörk á leiktíðinni.

- Luis Suarez er klárlega mikilvægasti leikmaður Liverpool um þessar mundir. Liverpool hefur nú skorað 17 mörk í Úrvalsdeildinni það sem af er leiktíðar. Þar af hefur Suarez skorað 10. Að auki hefur hann átt tvær stoðsendingar. Það þýðir að Úrugvæinn hefur skorað eða lagt upp rúm 70% marka Liverpool í deildinni í vetur.

- Luis Enrique skoraði í fyrsta sinn fyrir Liverpool. 

- Liverpool vann Wigan síðast í deildinni í desember 2009. Pepe Reina, Jamie Carragher, Martin Skrtel, Daniel Agger og Steven Gerrard, sem allir komu við sögu í dag, eru einu leikmenn Liverpool sem voru í liðinu þá.

- Pepe Reina og Jamie Carragher hafa tekið þátt í 14 af 15 deildarleikjum Liverpool gegn Wigan, eða fleiri en nokkrir aðrir Liverpool leikmenn.

- Það er athyglisverð staðreynd að Liverpool er eina liðið í deildinni á þessari leiktíð sem hefur ekki tekist að skora mark á síðustu 15 mínútum leiksins.

- Það er góðs viti að skora fyrsta markið í leikjum gegn Wigan. Það sem af er þessari leiktíð hefur Wigan nefnilega tapað öllum leikjum þar sem mótherjinn hefur verið fyrri til að skora.

- Liverpool hefur nú spilað sjö leiki án taps í deildinni. 

Hér eru myndir úr leiknum af opinberri heimasíðu Liverpool 

Hér er viðtal við Brendan Rodgers sem tekið var eftir leik.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan