| Sf. Gutt

Klaufalegt jafntefli

Evrópuáframhald Liverpool er í óvissu eftir klaufalegt 2:2 jafntefli á móti Young Boys á Anfield. Liverpool leiddi tvívegis en missti sigur út úr höndunum undir lokin. Nú geta öll liðin nema Udinese í riðlinum komist áfram.

Svissneska liðið byrjaði af ótrúlegum krafti og átti átti skot yfir markið eftir níu sekúndur! Aftur kom skot  á mark Liverpool eftir mínútu en það var laust og beint á Jose Reina. Enn eftir fimm mínútur átti Raphael Nuzzolo skot eftir eldsnögga sókn en aftur fór boltinn beint á Jose. Ótrúlegur kraftur hjá Young Boys!

Það var ekki fyrr en eftir stundarfjórðung að Liverpool fékk færi. Jonjo Shelvey átti ripsu fram hægra megin og sendi fyrir á Joe Cole en hann skaut framhjá úr upplögðu færi. Litlu seinna sendi Jonjo frábæra hælsendingu inn fyrir vörnina á Jordan Henderson sem slapp einn í gegn en Marco Wolfli varði frá honum. Jordan hefði átt að skora enda einn í miðjum vítateig.

Um miðjan hálfleikinn fóru stuðningsmenn Liverpool að klappa uppi um allar stúkur. Ástæðan var sú að fylgismenn Young Boys höfðu dregið upp borða sem á stóð ,,Í minningu Hillsborough" - "In memory of Hillsborough". Magnað hjá Svisslendingunum og þeir eiga þakkir skildar fyrir þetta vinarbragð!

Á 31. mínútu kom Steven Gerrard til leiks í staðinn fyrir Andre Wisdom sem virtist hafa meiðst. Jordan var settur í stöðu Andre í stöðu hægri bakvarðar. Hvort sem það var innkomu Steven að þakka eða ekki þá náði Liverpool forystu mínútu síðar. Suso og Joe léku saman þríhyrning. Joe tók við boltanum hægra megin í vítateignum og stakk honum þvert fyrir markið. Kannski ætlaði hann sjálfur að hitta á markið en Jonjo Shelvey sá um að koma boltanum í markið með skalla af stuttu færi.

Liverpool lét nú kné fylgja kviði. Á 36. mínútu átti Liverpool horn frá vinstri. Steven sendi fyrir og eftir mikinn hamagang var bjargað á línu frá Martin Skrtel en hann potaði boltanum í markið af stuttu færi. Á 43. mínútu átti Joe góða sendingu á Suso sem slapp í gegn en hann skaut framhjá. Þar hefði Spánverjinn ungi líklega gert út um leikinn.

Gestirnir vissu að leikurinn var ekki úti, hófu síðari hálfleikinn vel og ógnuðu tvívegis. Joe hefði líka getað skorað hinu megin eftir góða sendingu frá Suso en Marco kom út á móti og varði. Ungu piltarnir jöfnuðu svo á 52. mínútu. Raul Bobadiila fékk góða sendingu út til vinstri. Hann lagði boltann vel fyrir sig í utarlega í vítateignum og þrumaði honum svo út við stöngina fjær. 

Liverpool tók aftur völdin en það stóð á færum þrátt fyrir gott spil á köflum. Brendan sýndi svo að hann ætlaði sér sigurinn sem þurfti með því að senda Luis Suarez til leiks á 60. mínútu. Liverpool komst yfir tólf mínútum síðar. Eftir gott samspil sendi Steven inn í vítateiginn. Joe Cole fékk boltann, sneri sér snöggt við og sparkaði boltanum í markið. Vel gert og það var gaman að sjá Joe loksins brosa í búningi Liverpool þegar hann fagnaði markinu. 

Eftir þetta virtist Liverpool eiga sigurinn vísan. Það er liðið réði leiknum og svissneska liðið ógnaði ekki neitt. Tveimur mínútum fyrir leikslok sótti Liverpool en Young Boys sneri vörn í sókn. Hún virtist svo sem ekki vera neitt hættuleg en boltinn endaði hjá Elsad Zverotic rétt við vítateigslínuna og hann þrumaði boltanum upp undir þverslána án þess að Jose kæmi vörnum við. Staðan orðin jöfn og Evrópuáframhaldið komið í óvissu eftir að hafa verið tryggt að allir héldu. Leikmenn Liverpool gerðu harða hríð að marki Young Boys til loka en það dugði ekki og jafntefli niðurstaðan.

Liverpool: Reina, Wisdom (Gerrard 31. mín.) Skrtel, Carragher, Downing, Suso (Suarez 60. mín.), Sahin, Henderson, Cole (Sterling 76. mín.), Shelvey og Assaidi. Ónotaðir varamenn: Jones, Enrique, Coates og Allen.
 
Mörk Liverpool: Jonjo Shelvey (33. mín.) og Joe Cole (72. mín.).

Gult spjald: Nuri Sahin.

Young Boys: Wolfli, Sutter, Nef, Veskovac (Ojala 23. mín.), Lecjaks, Zverotic, Farnerud, Zarate, Schneuwly, Nuzzolo og Bobadilla. Ónotaðir varamenn: Mvogo, Gonzalez, Vitkieviez, Costanzo, Frey og Doubai.
 
Mörk Young Boys: Raul Bobadilla (52. mín.) og Elsad Zverotic (88. mín.).

Gult spjald: Elsad Zverotic.

Áhorfendur á Anfield Road: 37.810.
 
Maður leiksins: Joe Cole. Kannski var þetta besti leikur hans með Liverpool. Ekkert hefur gengið upp hjá honum frá því hann kom til Liverpool en hann hefur alltaf lagt sig fram. Joe skoraði mark sem hefði átt að færa Liverpool sigur og lagði upp annað. Hann fékk verðskuldað klapp þegar hann fór af velli.

Brendan Rodgers: Leikmennirnir lögðu sig alla fram. Liðið var mjög staðfast á móti öðru mjög góðu liði. En maður er mjög vonsvikinn eftir að hafa náð forystu tvívegis, misnotað full af færum og svo fá á sig mark undir lokin.

                                                                     Fróðleikur.

- Jonjo Shelvey skoraði sitt fjórða mark á keppnistímabilinu.

- Öll hafa komið í Evrópukeppninni og þrjú á móti Young Boys.

- Joe Cole skoraði í fyrsta sinn á leiktíðinni.
 
- Hann skoraði síðast fyrir Liverpool í apríl 2011 í 5:0 sigri gegn Birmingham City.

- Jose Reina lék sinn 81. Evrópuleik. Þar með sló hann markmannsfélagsmet sem Ray Clemence átti. 
 
 
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com

Staðan í riðlinum fyrir síðustu umferð

1 Anzhi Makhachkala 5 +4 10

2 Liverpool 5 +1 7 

3 Young Boys 5 -1 7 

4 Udinese 5 -4  4



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan