| Sf. Gutt

Stærsti sigur leiktíðarinnar!

Liverpool tók Norwich City í kennslustund og vann stærsta sigur leiktíðarinnar. Fimm leikmenn komust á markalista og Liverpool vann 5:0 á Anfield. Daniel Sturridge hefur skorað í öllum þremur leikjum sínum með Liverpool. Það merkilega var að nú skoraði Liverpool svo til úr öllum færum sínum. Öðruvísi mér áður brá þegar illa gekk að nota færin! 

Brendan Rodgers breytti liði sínu aðeins frá tapinu í Manchester um síðustu helgi. Daniel Sturridge kom að sjálfsögðu í byrjunarliðið og eins Jamie Carragher sem leysti Martin Skretel af. Brad Jones mætti svo óvænt í markið en Jose Reina var meiddur.  

Leikurinn hófst heldur dauflega og leikmenn Liverpool voru ekkert mjög snarpir til að byrja með. Búast hefði mátt við meiri hraða þó ekki væri nema vegna skítakulda og leikmenn myndu vegna hans reyna að hlaupa sér almennilega til hita.

Norwich fékk svo upplagt færi eftir sjö mínútur. Ryan Bennett fékk þá færi við markteig eftir aukaspyrnu en laflaus skalli hans fór beint á Brad. Norwich átti ekki eftir að fá betra færi í leiknum og hér eftir fór Liverpool í gang. Á 12. mínútu lék Daniel Sturridge sig í færi eftir samspil við Luis Suarez en Mark Bunn varði.

Fyrsta markið kom svo á 26. mínútu. Luis Suarez reyndi þá að koma sér í skotstöðu rétt við vítateig Norwich. Einn leikmanna Norwich þóttist góður að pota boltanum frá Luis en það var skammgóður vermir því Jordan Henderson tók boltann á lofti fyrir miðjum vítateignum og þrumaði honum viðstöðulaust út í hægra hornið. Frábært mark hjá þessum seiga leikmanni sem er að spila æ betur og á nú skilið að vera í byrjunarliðinu. Það var því kannski ekki svo vitlaust hjá Kenny Dalglish að kaupa hann eftir allt saman!

Yfirburðir Liverpool voru algjörir og miðað við þá má segja að annað mark leiksins á 36. mínútu hafi gert út um leikinn. Lucas Leiva sendi langa sendingu af eigin vallarhelmingi fram á Daniel. Sendingin var beint á hann en hann var búinn að taka eftir hlaupi Luis og lét boltann fara. Luis slapp við þetta einn í gegn, lék inn í vítateiginn og skoraði með hnitmiðuðu skoti neðst í hægra hornið. Sjöunda mark Luis á móti Norwich í fimm leikjum!

Norwich ógnaði aðeins þegar fimm mínútur voru til leikhlés. Eftir harða sókn átti Grant Holt skot sem Andre Wisdom skallaði í burtu við markteiginn. Brad var fyrir aftan hann og hefði varið en vel gert hjá unga bakverðinum sem stóð sig með sóma eins og í öðrum leikjum sem hann hefur verið að spila. Daniel endaði hálfleikinn með skoti úr vítateignum sem Mark varði.

Liverpool átti leikinn með húð og hári í síðari hálfleik en það var ekki fyrr en á 59. mínútu sem næsta mark kom. Boltinn gekk manna á milli. Jordan sendi út til hægri á Stewart Downing og hann gaf viðstöðulaust á lofti fyrir markið á Daniel sem skoraði af stuttu færi. Pilturinn er þar með búinn að skora í hverjum þeirra þriggja leikja sem hann hefur spilað í búningi Liverpool!

Sjö mínútum seinna kom næsta mark. Glen Johnson tók rispu af vinstri vængnum inn á völlinn og renndi boltanum fyrir fætur Steven Gerrard. Fyrirliðinn stillti miðið og smellti boltanum neðst í hægra hornið fyrir framan The Kop! Færið var rúmlega 20 metrar og Mark átti ekki möguleika í markinu! Glæsilegt mark hjá þessum mikla foringja.

Enn bætti Liverpool við á 74. mínútu. Varamaðurinn Raheem Sterling náði þá boltanum af varnarmanni, lék inn í vítateiginn og renndi boltanum framhjá Mark. Ekki er nú víst að boltinn hefði ratað í markið en hann hefði örugglega farið til Fabio Borini sem líka var kominn til leiks og hann hefði skorað. En áður en boltinn komst svo langt sparkaði Ryan Bennett honum í eigið mark. Algjörir yfirburðir Rauða hersins og stærsti sigur á valdatíð Brendan Rodgers geirnegldur! 

Það eina sem kvarta mátti yfir það sem lifði leiks var að leikmenn Liverpool skyldu ekki gera meira í að reyna að bæta við mörkum því það hefði verið auðvelt hefði maður haldið slíkir voru yfirburðirnir. Það er þó ekki hægt að kvarta eftir 5:0 sigur eða hvað? Það er einfaldlega dónaskapur! En stuðningsmenn Liverpool sem voru í Musterinu gátu ornað sér við magnaða framgöngu sinna manna í kuldanum!

Liverpool: Jones, Wisdom, Carragher, Agger, Johnson, Gerrard, Leiva (Sterling 68. mín.), Henderson (Allen 77. mín.), Suarez, Sturridge (Borini 69. mín.) og Downing. Ónotaðir varamenn: Gulacsi, Shelvey, Skrtel og Robinson.

Mörk Liverpool: Jordan Henderson (26. mín.), Luis Suarez (36. mín.), Daniel Sturridge (59. mín.), Steven Gerrard 66. mín.) og Ryan Bennett, sm., (74. mín.)

Gult spjald: Glen Johnson.

Norwich City: Bunn, Martin, R. Bennett, Turner, Garrido, E. Bennett (Hoolahan 65. mín.), Johnson, Howson, Snodgrass (Pilkington 86. mín.), Tettey og Holt. Ónotaðir varamenn: Rudd, Jackson, Barnett, Tierney og Kane.
 
Gult spjald: Robert Snodgrass.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.901.
 
Maður leiksins: Steven Gerrard. Þessi einstaki leikmaður var alveg frábær í dag eins og svo oft áður. Hann sendi hárnákvæmar sendingar stuttar og langar völlinn þveran og endilangan. Varla nokkur þeirra fór ekki þangað sem Steven ætlaði. Svo skoraði hann glæsilegt mark! Algjörlega frábær leikmaður.
 
Brendan Rodgers: Við stjórnuðum leiknum mjög vel og skoruðum frábær mörk. Mér fannst liðið pressa af miklum ákafa, leika varnarleikinn vel og vera grimmt í að ná boltanum þegar hann tapaðist. Þetta var stórgóður leikur. Við tökum einn leik fyrir í einu. Þetta var mjög ánægjulegur dagur en við förum ekkert fram úr sjálfum okkur.



                                                                      Fróðleikur.

- Liverpool vann sinn stærsta sigur undir stjórn Brendan Rodgers.

- Jordan Henderson skoraði annað mark sitt á sparktíðinni. 

- Luis Suarez skoraði í 20. sinn á leiktíðinni.

- Daniel Sturrdge skoraði í þriðja leiknum í röð.
 
- Steven Gerrard skoraði sjötta mark sitt á keppnistímabilinu.

- Luis Suarez er nú búinn að skora sjö mörk á móti Norwich í aðeins fjórum leikjum.

- Daniel Surridge er fyrstur leikmanna Liverpool til að skora í þremur fyrstu leikjum sínum með liðinu frá því Ray Kennedy hóf feril sinn með sama hætti 1974.

- Liverpool hefur raðað inn mörkum á móti Norwich og í þremur síðustu leikjum liðanna hefur Liverpool skorað 13 mörk og þar af hefur Luis Suarez skorað sjö!

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.
 
Hér er viðtal við Brendan Rodgers af vefsíðu BBC.

Hér er viðtal við Daniel Sturridge af vefsíðu BBC.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan