| Heimir Eyvindarson

Liverpool spilar besta boltann í deildinni

Steve Clarke stjóri WBA segir að Liverpool spili fallegasta fótboltann í Úrvalsdeildinni. Það kemur honum ekki á óvart að sumir leikmennirnir sem Dalglish keypti á sínum tíma séu nú að ná sér á strik.

Steve Clarke starfaði í 18 mánuði hjá Liverpool, sem aðstoðarmaður Kenny Dalglish. Þegar Kenny var látinn taka pokann sinn og Brendan Rodgers ráðinn í staðinn skildu leiðir Clarke og félagsins. Annað kvöld mætir hann á Anfield í fyrsta sinn eftir viðskilnaðinn, þegar Liverpool tekur á móti núverandi lærisveinum hans í WBA. Liverppol á harma að hefna því WBA gjörsigraði okkar menn á sínum heimavelli í fyrsta leik tímabilsins.

Clarke er ánægður með boltann sem Liverpool spilar og hann segir að það komi sér ekki á óvart að menn eins og Stewart Downing og Jordan Henderson séu nú farnir að sýna hvað í þeim býr, eftir erfiða byrjun. Það geti einfaldlega tekið þennan  tíma að ná áttum hjá nýju félagi. 

„Ég er ekki hissa á frammistöðu ungu strákanna sem hafa verið að koma inn og gera góða hluti. Það kemur mér heldur ekki á óvart að menn sem Kenny keypti, eins og Jordan Henderson, Stewart Downing og Jose Enrique séu að standa sig vel núna. Við vissum alltaf að þeir gætu spilað fótbolta, en það getur tekið tíma að komast á skrið hjá svo stóru félagi sem Liverpool er. Fólk verður að sýna því skilning", segir Clarke.

„Þessir strákar og svo auðvitað Luis Suarez eru að spila mjög vel um þessar mundir og raunar er ég á því að Liverpool spili besta boltann í deildinni núna. Það er komið gott jafnvægi á liðið."

„Það er heilmikið púsl að koma saman góðu fótboltaliði. Það tekur tíma. Það er ekki nóg að hafa góða leikmenn það verður svo margt annað að ganga upp."

„Liverpool hefur alltaf reynt að spila góðan fótbolta. Brendan hefur komið inn með aðra sýn á hlutina en Kenny og vitanlega tekur tíma fyrir leikmennina og alla í kringum liðið að aðlagast því. Liðið byrjaði illa, en hefur náð að hífa sig upp og er farið að nálgast það að spila boltann sem Brendan vill spila. Það hefur verið erfið fæðing, en liðið er á góðu skriði núna. Við eigum von á mjög erfiðum leik annað kvöld, en vonandi tekst mínum mönnum að endurtaka leikinn frá því í fyrra þegar liðið sigraði Liverpool 1-0."

Aðspurður um tíma sinn hjá Liverpool og hvernig honum lítist á að koma aftur á Anfield segir Clarke:

„Ég hlakka til. Ég átti 18 góða mánuði hjá Liverpool. Ég kynntist mörgu góðu fólki og tók með mér góðar minningar. Stuðningsmennirnir eru einstakir. Þeir eru skilningsríkir og þolinmóðir og vilja að liðið spili góðan fótbolta um leið og þeir óska þess náttúrlega heitt að liðið nái fyrri hæðum."

„Við áttum nokkur ágæt móment. Náðum tveimur bikarúrslitaleikjum sem var gaman að taka þátt í, þótt annar hefði tapast. Ef maður bætir við undanúrslitaleiknum við Everton þá áttum við þrjár eftirminnilegar ferðir á Wembley. Stuðningsmenn liðsins lifa fyrir þessu stóru augnablik og það var virkilega gaman að fá nasaþefinn af því. Félag eins og Liverpool á auðvitað að keppa um alla stóru titlana."







 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan