| Sf. Gutt

Spáð í spilin

Stórleikur á Anfield! Liverpool og Tottenham Hotspur takast á í leik sem gæti skipt miklu máli í baráttunni um Evrópusæti. Það eru Evrópusæti á lausu bæði í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni. Sumir telja kannski að það skipti ekki máli hvort sæti næst í Evrópudeildinni og kannski jafn gott að sleppa við að keppa í henni. En Liverpool þarf á því að halda að spila í Evrópukeppni hvað sem hún heitir. Svo er nú ekki alveg útilokað að sæti í Meistaradeildinni náist en Spurs er mun nær þeim sætum.
 

Tottenham hefur verið í miklum ham síðustu vikurnar og fengið mikið hrós fyrir kraftmikinn sóknarleik og glæsimörk Gareth Bale. Framkvæmdastjóri þeirra er kannski dæmi um mann sem nær að koma sínum áherslum fram fái hann tíma og frið. Á sama árstíma var hann látinn fara frá Chelsea sem hefur haft tvo framkvæmdastjóra síðan. Kannski má líkja bætingu Tottenham við þá bætingu sem mátt hefur sjá á Liverpool. Brendan Rodgers lá undir ámæli lengi leiktíðar en nú virðist svo sem að áherslur hans séu að skila sér. Hann hefur jú líka fengið tíma og starfsfrið.  

Liverpool hefur gengið illa með Tottenham í síðustu leikjum og tapað fjórum af síðustu fimm og það þarf að breytst eigi Liverpool að ná nauðsynlegum sigri. Síðast vann Liverpool sigur á Tottenham á leiktíðinni 2009/10 þegar tvö mörk Dirk Kuyt tryggðu 2:0 sigur á Anfield. Liverpool er 12 stigum á eftir Spurs og hæpið að ná Lundúnaliðinu en það er bara svo margt annað undir hjá Liverpool. Það þarf að ná eins mörgum stigum í hús og kostur er, laga markatöluna, efla sjálfstraust leikmanna og kæta stuðningsmennina. Sem sagt allt að vinna.

Það virist vera meðbyr með Brendan og mönnum hans. Markaskorun gengur vel og vörnin hefur verið traust eftir að gamli foringinn mætti í hana. Tottenham hlýtur að fara að misstíga sig og ég spái því að liðið hökkti á Anfield á morgun. Liverpool lék mjög vel í fyrri leik liðanna sem Spurs vann 2:1. Í þeim leik kom vel í ljós að Liverpool ætti að geta snúið Tottenham niður. Liverpool vinnur 2:0. Luis Suarez heldur áfram að skora og fyrirliðinn bætir einu í safnið!

YNWA

Hér má
sjá leikmenn Liverpool æfa á Melwood í gær.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan