| Grétar Magnússon

Markalaust gegn Hömrunum

Liverpool tók á móti West Ham United og skemmst er frá því að segja að hvorugu liðinu tókst að skora. Því varð niðurstaðan 0-0 jafntefli sem var alls ekki nógu gott.

Brendan Rodgers tefldi fram óbreyttu liði frá sigrinum gegn Aston Villa helgina áður.  Ein breyting var gerð á varamannabekknum en þar settist Oussama Assaidi í stað Raheem Sterling sem glímdi við smávægileg meiðsli. Fyrir leikinn var haldin mínútu þögn til minningar um þá 96 sem létu lífið í Hillsborough slysinu en í ár eru 24 ár síðan þessi harmleikur átti sér stað.

Eins og við var að búast voru heimamenn meira með boltann og ógnuðu meira en gestirnir lágu aftarlega á vellinum og freistuðu þess að beita skyndisóknum.  Philippe Coutinho komst fyrstur á blað með skot að marki en Jussi Jaaskalainen varði vel.  Þeir Steven Gerrard, Luis Suarez og Jordan Henderson reyndu allir skot að marki af mislöngu færi en enginn ógnaði marki gestanna að neinu ráði.

Það voru svo leikmenn West Ham, eða nánar tiltekið Mohamed Diame, sem fékk besta færi fyrri hálfleiksins á 25. mínútu.  Hann var með boltann úti hægra megin, lék framhjá tveimur varnarmönnum og inná vítateiginn.  Þar náði hann að koma boltanum framhjá fleiri varnarmönnum og loks þrumaði hann að marki en sem betur fer fór boltinn yfir markið.

Skömmu síðar þurfti Stewart Downing að fara af velli og inná í hans stað kom Daniel Sturridge.  Gott samspil Coutinho og Suarez á hægri kanti endaði með góðu skoti frá Suarez af stuttu færi en Jaaskalainen var sem fyrr vel á verði í markinu.  Skömmu síðar missti Lucas boltann á stórhættulegum stað, rétt fyrir utan sinn eigin vítateig og Carlton Cole náði boltanum, þrumaði að marki en sem betur fer var Daniel Agger mættur til að henda sér í veg fyrir skotið. Rétt fyrir lok hálfleiksins tók svo Suarez snögga hornspyrnu sem barst til Sturridge hægra megin í teignum.  Hann kom boltanum fyrir sig og þrumaði að marki en sem fyrr var markvörður gestanna fyrir skotinu.

Seinni hálfleikur var svo beint afrit af þeim fyrri.  Heimamenn meira með boltann og sköpuðu sér færi en gestirnir áttu líka sín færi.


Besta færi leiksins fékk Steven Gerrard á 55. mínútu er hann fékk boltann inn á miðjum vítateig.  Hann þrumaði að marki og nú kom Jaaskalainen ekki neinum vörnum við en þá var James Tomkins mættur á línuna til að bjarga marki !  Luis Suarez þrumaði svo boltanum framhjá markinu úr mjög þröngu færi hægra megin úr vítateignum á 60. mínútu.  Boltinn fór á milli lappa markvarðarins en dansaði á línunni en fór svo að lokum framhjá. Rétt á eftir vildu gestirnir fá víti þegar Jose Enrique sparkaði óvart í James Tomkins en ekkert var dæmt. Það hefðu örugglega einhverjir dæmt víti en sem betur fer ekki þessi dómari.  

Daniel Sturridge tókst loks að koma boltanum í netið á 66. mínútu þegar Jordan Henderson skaut að marki og hafði boltinn viðkomu í sóknarmanninum.  Línuvörðurinn flaggaði til marks um rangstöðu en endursýningar sýndu fram á að það hefði alveg verið hægt að sleppa því að lyfta flagginu þar. Philippe Coutinho þrumaði svo að marki skömmu síðar vinstra megin úr teignum en boltinn fór rétt framhjá stönginni. Á 70. mínútu voru heimamenn aftur ósáttir við dómarann þegar löppunum virtist sópað undan Steven en víti fékkst ekki eins og flestum fannst.

Ekki mikið meira markvert gerðist upp við mark gestanna en síðasta færi leiksins var stórhættulegur skalli Jack Collison eftir hornspyrnu sem Lucas hreinsaði af marklínu.  Þar hefðu gestirnir svo sannarlega getað stolið sigrinum enda aðeins nokkrar mínútur eftir. Liverpool sótti allt til loka en ekkert dugði.

Liverpool:  Reina, Johnson, Agger, Carragher, Enrique, Leiva, Gerrard, Henderson (Assaidi, 71. mín.), Downing (Sturridge 25. mín.), Coutinho og Suarez.  Ónotaðir varamenn:  Jones, Skrtel, Coates, Shelvey og Suso.

West Ham:  Jaaskalainen, Tomkins (Pogatetz, 83. mín.), O'Brien, Collins, Demel, Nolan (Taylor, 62. mín.), Jarvis, Vaz Te (Collison, 63. mín.), Diame, O'Neil og Cole.  Ónotaðir varamenn:  Henderson, Potts, Maíga og Chamakh.

Gult spjald: Joey O'Brien.

Áhorfendur á Anfield:  45.007.

Maður leiksins:  Erfitt er að velja mann leiksins eftir markalausan leik en helst er þó að nefna Daniel Agger sem stóð vaktina með prýði.  Það er alltaf erfitt að mæta liðum sem Sam Allardyce stýrir því mikið er lagt upp úr háum sendingum hjá þeim stjóra.  Agger gerði vel í að berjast gegn þessum háu sendingum og átti svo glæsilega björgun þegar hann henti sér fyrir skot Carlton Cole.

Brendan Rodgers:  ,,Við erum mjög pirraðir, augljóslega náðum við ekki í þau þrjú stig sem okkur fannst við eiga skilið.  Við reyndum og reyndum frá fyrstu mínútu.  Mér fannst leikur okkar góður, við vorum að skapa hættu uppvið mark gestanna.  Ég verð samt að hrósa leikmönnum West Ham.  Þeir vörðust mjög, mjög vel.  Þeir fleygðu sér fyrir skot okkar og voru alltaf mættir til að verja mark sitt."

                                                                                   Fróðleikur:

- Þetta var aðeins annað markalausa jafntefli liðsins á heimavelli á þessu tímabili.

- Hitt markalausa jafnteflið kom í október gegn Stoke City.

- West Ham hafa ekki unnið sigur á Anfield síðan 1963.

- Oussama Assaidi spilaði sinn fjórða deildarleik fyrir félagið. Í þeim öllum hefur hann komið inn á sem varamaður.

Hér má sjá myndir úr leiknum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan