| Sf. Gutt

Tap fyrir Roma í Boston

Liverpool tapaði fyrsta leik sínum í Ameríkuferðinni 1:0 þegar varafyrirliðinn skoraði sjálfsmark á síðustu mínútunni á móti Roma. Leiknum, sem fór fram á hinum fræga Fenway Park, lauk í nótt að íslenskum tíma.

Leikurinn fór ekki vel af stað fyrir Liverpool því Fabio Borini þurfti að fara af leikvelli á 12. mínútu eftir að meiðst á öxl eftir harða byltu. Ergilegt fyrir Ítalann sem var þarna að spila á móti gamla liðinu sínu. Emre Can leysti Fabio af hólmi. Mjög fátt gerðist í fyrri hálfleik og ekkert búið að skora þegar leikhlé hófst. 

Liverpool lék heldur betur í síðari hálfleik og Philippe Coutinho átti gott skot sem var ekki ýkja fjarri. Hann sendi svo litlu síðar á Rickie Lambert sem náði föstu skoti en Lukasz Skorupski varði.

Ítalska liðið endaði leikinn vel. Brad Jones gerði vel í að verja skot frá Antonio Sanabria í horn þegar leikurinn var að fjara út. Roma fékk svo annað horn og eftir það fór boltinn í Daniel Agger og í markið. Rétt fyrir framan markið fór boltinn á milli fóta Jack Robinson. Ótrúlegt! Sumir fjölmiðlar skrá markið reyndar á Marco Boriello en hann og Daniel börðust um boltann þegar hann kom fyrir markið. Roma vann því en jafntefli hefði verið sanngjarnt.

Liverpool: Jones, Kelly (Coady 68. mín.), Skrtel, Coates (Agger 60. mín.), Enrique (Robinson 46. mín.), Leiva, Allen (Henderson 77. mín.), Coutinho (Phillips 84. mín.), Borini (Can 12. mín.), Lambert (Peterson 60. mín.) og Ibe (Suso 77. mín.). Ónotaður varamaður: Ward.

Áhorfendur á Fenway Park: 38.000.

Hér eru myndir úr leiknum Lfctour.com. 
 
Þess má geta að enski bakvörðurinn Ashley Cole lék með Roma. Hann var orðaður við Liverpool framan af sumri eftir að hann var laus mála hjá Chelsea. Ashley ákvað að reyna fyrir sér utan Englands og gerði samning við Roma.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan