Grísku meistararnir lagðir að velli
Liverpool vann sinn fyrsta sigur í Ameríku þetta sumarið þegar liðið lagði grísku meistarana Olympiakos að velli 1:0 á Soldiers leikvanginum í Chicago. Leiknum lauk rétt eftir miðnætti að íslenskum tíma í nótt sem leið.
Enn bættust menn við á leikskýrsluna og ensku landsliðsmennirnir Steven Gerrard, Glen Johnson, Daniel Sturridge og Raheem Sterling komu til leiks í fyrsta sinn eftir sumarfrí. Serbinn Lazar Markovic lék sinn fyrsta leik.
Liverpool fékk sannkallaða óskabyrjun því boltinn lá í marki gríska liðsins eftir aðeins fimm mínútur. Steven Gerrard sendi boltann fram að vítateignum á Daniel Sturridge. Hann hugðist hamra boltann að markinu en rann til og hitti ekki boltann almennilega. Boltinn hrökk þó af varnarmanni og inn fyrir vörnina þar sem Raheem Sterling náði að snerta boltann lauslega en það dugði til að koma honum alla leið í markið.
Liverpool lék býsna vel á köflum fram að hálfleik og nýliðarnir þóttu spila vel. Það var þó lítið um færi líkt og í æfingaleikjunum hingað til.
Gríska liðið bætti sig í síðari hálfleik og strax í byrjun slapp Liverpool með skrekkinn þegar Gevorg Ghazaryan átti gott skot við vítateignn sem small í þverslá. Eftir þetta var fátt tíðinda þar til undir lokin. Litlu mátti muna þegar Joe Allen missti boltann á eigin vallarhelmingi. Andreas Bouchalakis náði boltanum og tók á rás að markinu en Sebastian Coates gerði vel og bjargaði með góðri tæklingu.
Á lokamínútunni varði Brad Jones, sem stóð að venju í markinu, vel hörkuskot frá Dominguez. Liverpool fór snúningalaust í skyndisókn og Jordan Ibe tók rispu fram hægri kantinn þaðan sem hann sendi fyrir á Joe en varnarmaður bjargaði. Liverpool hafði sigur og það var hið besta mál því það er alltaf gott að vinna þó um sé að ræða æfingaleiki.
Liverpool: Jones, Johnson (Kelly 62. mín.), Skrtel, Toure (Coates 62. mín.), Enrique (Robinson 45. mín.), Gerrard (Leiva 62. mín.), Henderson, Can (Allen 45. mín.), Sterling (Ibe 75. mín.), Markovic (Coutinho 45. mín.) og Sturridge (Lambert 75. mín.). Ónotaður varamaður: Ward.
Áhorfendur á Soldiers leikvanginum: 36.170.
Þessi leikur var hluti af International Champions Cup mótinu sem fer fram víða um Norður Ameríku þessa dagana. Næsti leikur Liverpool á mótinu verður á miðvikudagskvöldið við Manchester City.
Hér eru myndir úr leiknum af Lfctour.com.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!