| Heimir Eyvindarson

Tap í úrslitaleiknum

Manchester United sigraði Liverpool í úrslitaleiknum í Guinness international mótinu í Bandaríkjunum í nótt. Lokatölur urðu 3-1 í fjörugum leik. 

Leikurinn fór fram á Sun Life Stadium í Miami að viðstöddum rúmlega 50 þúsund áhorfendum. Leikurinn byrjaði með talsverðum látum og nokkuð ljóst að bæði lið voru staðráðin í að sýna klærnar í þessum síðasta leik í Ameríkuferðinni.

Strax á 6. mínútu voru okkar menn stálheppnir að fá ekki á sig mark, en þá bjargaði Mamadou Sakho mjög vel þegar Hernandez gerðist aðgangsharður í teignum. Litlu síðar fékk Liverpool aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Steven Gerrard sendi inn á vítateiginn. Boltinn hrökk af höfði varnarmanns til Jordan Henderson sem var í upplögu færi en skalli hans var mislukkaður. 

Það var síðan Liverpool sem tók forystuna á 14. mínútu leiksins þegar Steven Gerrard skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir viðskipti Phil Jones og Raheem Sterling í vítateig United manna. Staðan 1-0.

Philippe Couthinho kom sér í skotstöðu við vítateiginn á 24. mínútu og náði föstu skoti sem De Gea varði vel neðst í horninu. Tíu mínútum seinna var ekki annað séð en að Liverpool ætti að fá annað víti þegar Herrera virtist fella Sterling en ekkert var dæmt þeim sem fylgdu Liverpool til furðu. 

Það sem eftir lifði hálfleiksins var heilmikið líf í báðum liðum og kannski sérstaklega í okkar mönnum sem áttu nokkrar skemmtilegar sóknir. Sérstaklega voru Coutinho og Sterling líflegir.  Hálfleikurinn rann þó út án þess að fleiri mörk væru skoruð og okkar menn héldu til búningsherbergjanna í Miami með nokkuð sanngjarna 1-0 forystu í farteskinu.

Á 49. mínútu fékk Rickie Lambert ágætt færi eftir sendingu frá Gerrard en De Gea átti ekki í nokkrum vandræðum með slakt skot hans. Mínútu síðar sendi Coutinho gullsendingu inn á Sterling en Chris Smalling blokkeraði skot Sterlings glæsilega í horn. Heppnin var þarna með United því boltinn hefði vel getað lent í markinu í stað þess að fara aftur fyrir og Spánverjinn átti ekki möguleika í markinu. Heilmikið líf í okkar mönnum fram á við.

Á 55. mínútu jafnaði United metin. Þar var að verki Wayne Rooney, eftir sendingu frá Hernandez. Tveimur mínútum síðar kom Juan Mata United yfir með skoti sem hafði viðkomu í Sakho. Varnarleikur okkar manna óþægilega kunnuglegur í báðum mörkunum og staðan skyndilega orðin 2-1 fyrir United.

Á 63. mínútu komu fyrstu skiptingarnar frá Rodgers. Þá fóru Lambert, Gerrard og Allen útaf fyrir Ibe, Lucas og Can. Á 74. mínútu kom Kolo Toure inná fyrir Sakho og á 77. mínútu kom Kristoffer Peterson inn fyrir Coutinho. United fékk mark dæmt um tíma en fyrirgjöf fór ofan á þaknetið þaðan sem boltinn hrökk út í markteiginn þar sem Wayne sendi boltann í markið sér til gamans. Svo virtist sem dómarinn ætlaði að telja þetta löglegt mark en hann sá sem betur fer að sér og dæmdi loks markspyrnu. Furðulegt atvik.  

Liverpool sótti á mörgum mönnum allan síðari hálfleikinn, sérstaklega eftir að United komst yfir og á 88. mínútu komust United menn í skyndisókn sem endaði með því að Jesse Lingaard skoraði gegn fáliðaðri vörn okkar manna. Lokatölur í Miami 3-1 fyrir United.

Segja má að úrslitin í leiknum hafi ekki verið alls kostar sanngjörn. En góð færi fóru forgörðum hjá Liverpool þegar liðið hafði undirtökin og svo brást vörnin illa í tveimur fyrstu mörkunum. Leikur Liverpool var þó bæði góður og slæmur. En æfingaferðin til Ameríku tókst vel þótt það hefði auðvitað verið mun betra að vinna úrslitaleikinn!  

Liverpool: Mignolet, Kelly, Skrtel, Sakho (Toure á 74. mín.), Johnson, Gerrard (Leiva á 63. mín.), Henderson, Allen (Can á 63. mín.), Coutinho (Peterson á 77. mín.), Sterling, Lambert (Ibe á 63. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones, Robinson, Coady, Coates, Suso og Philips.

Manchester United: De Gea, Evans (Blackett á 46. mín.), Smalling, Jones, Valencia (Shaw á 9. mín.), Herrera (Lingaard á 79. mín.), Fletcher (Cleverley á 46. mín.), Young, Mata (Kagawa á 69. mín.), Rooney og Hernandez (Nani á 69. mín.).
 
Áhorfendur á Sun life leikvanginum: 51.104.

Maður leiksins: Philippe Coutinho. Brassinn var gríðarlega sprækur og skapandi, en okkur vantaði tilfinnanlega markaskorara til þess að klára færin sem hann bjó til. Það stendur vonandi til bóta.

Brendan Rodgers: Þetta var góður leikur af okkar hálfu. Við náðum að skapa okkur slatta af færum og vorum óheppnir að klára þau ekki. Það var ekki nógu gott að fá á okkur mörkin tvö á tveggja mínútna kafla og eftir það teygðist dálítið á liðinu. Ég er sáttur við okkar frammistöðu hér í Bandaríkjunum og við höldum glaðir heim.

Hér eru myndir úr leiknum af Lfctour.com.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan