| Grétar Magnússon

Sigur í fyrsta leik

Fyrsti leikur tímabilsins í ensku Úrvalsdeildinni var sigurleikur hjá Liverpool á Anfield. Tæpara mátti það þó ekki standa og heimamenn máttu prísa sig sæla með þrjú stig.

Brendan Rodgers gerði eina breytingu frá æfingaleiknum við Dortmund, inn í byrjunarliðið kom Lucas í stað Emre Can sem settist á bekkinn. Þeir Javier Manquillo og Dejan Lovren spiluðu sína fyrstu leiki í Úrvalsdeildinni fyrir félagið.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en heimamenn í Liverpool voru þó ívið beittari framávið. Þeir ógnuðu þó ekki marki gestanna af neinu viti, Daniel Sturridge skaut að marki vel fyrir utan vítateig en boltinn fór framhjá markinu. Eftir tuttugu mínútna leik kom fyrsta skotið á mark þegar Raheem Sterling reyndi fyrir sér vinstra megin í teignum. Skotið var hinsvegar beint á Forster í markinu og hann greip boltann.


Þrem mínútum síðar skoraði svo Sterling fyrsta mark tímabilsins fyrir félagið. Jordan Henderson vann boltann á miðjunni og sá gott hlaup hjá Sterling. Frábær sending innfyrir vörnina gerði Sterling nokkuð auðvelt fyrir, hann lagði fyrir sig boltann, lék nær marki og sendi hann svo létt framhjá Forster og í fjærhornið. Markinu vel fagnað og heimamenn komnir á bragðið.

Nú héldu flestir að kné yrði látið fylgja kviði en við þetta mark vöknuðu gestirnir svo um munaði. Það sem eftir lifði hálfleiks voru þeir miklu beittari í sínum aðgerðum og Mignolet þurfti að vera vel á verði nokkrum sinnum áður en dómarinn flautaði til hálfleiks. Fyrst sló hann aukaspyrnu Ward-Prowse yfir markið þegar boltinn virtist stefna óáreittur í fjærhornið og svo varði hann vel skot frá Schneiderlin fyrir utan teig. Sterling átti samt síðasta orðið fyrir hálfleik er skot hans af vítateigslínu var vel varið.

Staðan 1-0 í hálfleik og gestirnir af suðurströndinni héldu áfram að þjarma að marki Mignolet eftir hlé. Ekki leið á löngu áður en þeir voru búnir að jafna og þar var að verki hægri bakvörðurinn Clyne eftir gott samspil upp hægri kantinn. Clyne var allt í einu á auðum sjó í vítateignum og hamraði boltann upp í þaknetið. Ekki virkaði þetta mark vel á heimamenn sem virtust alveg tapa öllu sjálfstrausti. Lélegar sendingar manna á milli og einföld mistök voru gerð sem hleyptu Southampton mönnum í fín færi. Davis fékk fínt skotfæri í teignum eftir gott spil en sem betur fer var skotið slakt og Mignolet varði.


Meiri hætta skapaðist upp við mark Liverpool en heppnin var með þeim rauðklæddu og gestirnir nýttu ekki færin. Rodgers gerði breytingar í seinni hálfleik, Lucas fór útaf og Allen kom inná auk þess sem Rickie Lambert kom inná í fyrsta sinn fyrir félagið, útaf fór Coutinho. Við þetta hresstist aðeins leikur heimamanna og á 79. mínútu skoraði Daniel Sturridge fínt mark af stuttu færi eftir að gestunum mistókst að hreinsa frá marki, Sterling var fyrstur til að átta sig og skallaði boltann til Sturridge sem átti auðvelt verk fyrir höndum.

Markinu var mikið fagnað því það kom eiginlega gegn gangi leiksins. Southampton menn lögðu ekki árar í bát og það var aðeins vegna frábærrar markvörslu Mignolet í lokin að liðin skiptu ekki með sér stigum. Schneiderlin þrumaði að marki innan úr teignum en Belginn náði að slæma hendi í boltann sem hafnaði í þverslánni og skoppaði svo niður í teiginn þar sem Long náði skallanum en framhjá fór boltinn.


Lokaflauti dómarans var tekið með fegins hendi og þrjú stig í húsi þegar hlutirnir hefðu getað farið miklu verr. En það er oft ekki spurt að því hvernig stigin vinnast, það er bara talið í restina hversu mörg þau eru. Oftar en ekki er það einkenni góðra liða að vinna leiki þrátt fyrir að spila ekki vel.



Liverpool:
Mignolet, Manquillo, Skrtel, Lovren, Johnson, Gerrard, Lucas (Allen, 63. mín.), Henderson, Coutinho (Lambert, 76. mín.), Sterling, Sturridge. Ónotaðir varamenn: Jones, Touré, Sakho, Can, Ibe.

Mörk Liverpool: Raheem Sterling (23. mín.) og Daniel Sturridge (79. mín.).

Gult spjald: Javier Manquillo.

Southampton: Forster, Clyne, Yoshida, Fonte, Bertrand, Schneiderlin, S. Davis (Isgrove, 82. mín.), Wanyama, Tadic (Long, 74. mín.), Ward-Prowse, Pelle. Ónotaðir varamenn: K. Davis, Hooiveld, Stephens, Taider, Cork.

Mark Southampton: Nathaniel Clyne (56. mín.).

Gul spjöld: Morgan Schneiderlin og Steven Davis.

Áhorfendur á Anfield: 44.736.

Maður leiksins: Raheem Sterling hlýtur nafnbótina að þessu sinni. Drengurinn er aðeins 19 ára gamall en er að sýna mikinn þroska sem leikmaður. Hann skoraði fyrsta mark tímabilsins að þessu sinni og lagði upp sigurmarkið mikilvæga.

Brendan Rodgers: ,,Við þurftum að kreista fram úrslit og dagurinn var frábær fyrir okkur. Þetta var erfiður leikur. Ég er mjög ánægður með þá staðfestu og þann karakter sem leikmenn sýndu til að vinna leikinn. Eftir því sem líður á tímabilið verðum við betri og leikurinn fær að fljóta betur. Þetta voru harðsótt stig. Þeir (Southampton) eru með gott lið, þeir eru með marga mjög góða leikmenn og reynslumikinn stjóra sem er kominn inn og skipuleggur þá vel. Það var ávallt ljóst að þetta yrði erfiður leikur."

Fróðleikur:

- Daniel Sturridge spilaði sinn 50. leik fyrir félagið.

- Að sjálfsögðu skoraði hann í leiknum og var mark númer 36.

- Alls hefur hann skorað 32 mörk í 44 Úrvalsdeildarleikjum.

- Raheem Sterling skoraði fyrsta mark leiktíðarinnar.

- Hann hefur alls skorað 12 mörk í Úrvalsdeildinni fyrir félagið og 13 í öllum keppnum.

- Javier Manquillo, Dejan Lovren og Rickie Lambert spiluðu allir í fyrsta sinn fyrir félagið.

- Steven Gerrard spilaði sinn 670. leik fyrir Liverpool.

Hér má sjá myndir úr leiknum.

Hér má horfa á viðtal sem tekið var við Brendan Rodgers eftir leik.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan