| Heimir Eyvindarson

Jafntefli gæti nægt í kvöld

Liverpool liðið er með bakið upp að vegg og alveg ljóst að stuðningsmenn liðsins gera kröfu um sigur og ekkert annað í Búlgaríu í kvöld. Jafntefli gæti þó nægt og tap þarf ekki að vera dauðadómur.

Það er heldur þungt hljóðið í stuðningsmönnum Liverpool þessa dagana og ekki margt sem gefur tilefni til bjartsýni fyrir viðureign liðsins gegn Ludogorets í Meistaradeildinni í kvöld.

Stuðningsmenn félagsins heimta auðvitað sigur, eftir afleitt gengi að undanförnu, en gera sér jafnframt grein fyrir því að spilamennska liðsins að undanförnu gefur enga ástæðu til þess að sú krafa sé raunhæf.

Sigur í kvöld þarf þó ekki að vera nauðsynlegur upp á á framhaldandi veru í deild hinna bestu. Hér verður farið yfir helstu möguleikana í stöðunni, þegar tvær umferðir eru eftir í B-riðli:

A: Real Madrid vinnur báða sína leiki, gegn Ludogorets heima og Basel úti. Þá fer Liverpool áfram með jafntefli í kvöld og sigri gegn Basel á Anfield í lokaleiknum. Ef Liverpool tapar í kvöld og vinnur Basel heima þá eru Liverpool, Basel og Ludogorets öll jöfn og röðin ræðst af innbyrðis viðureignum.

B: Real Madrid gerir jafntefli við Basel í kvöld og vinnur Ludogorets heima. Þá gæti Liverpool nægt jafntefli í Búlgaríu, svo framarlega sem liðið leggur Basel að velli, en þá þarf liðið að vinna Svisslendingana með tveggja marka mun eða meira þar sem liðin verða þá jöfn að stigum.

C: Real Madrid tapar fyrir Basel, en vinnur Ludogorets. Þá þarf Liverpool að vinna bæði Ludogorets og Basel. Liverpool og Basel verða þá jöfn að stigum, en markatala í innbyrðisviðureignum sker úr um hvort liðið fer áfram.

Af þessu má sjá að jafnvel þótt það sé gríðarlega mikilvægt að liðið hysji upp um sig brækurnar í kvöld eru allar líkur á því að það fáist ekki úr því skorið fyrr en í lokaumferðinni á Anfield hvort Liverpool heldur áfram í Meistaradeildinni. Sigur í kvöld tryggir þó nokkuð örugglega sæti í Evrópudeildinni að minnsta kosti. En það er spurning hversu sólgnir menn eru í þá annars ágætu keppni. 






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan