| Sf. Gutt

Sigurmark á síðustu stundu!



Liverpool náði að herja fram 1:2 sigur á móti Aston Villa með sigurmarki á síðustu stundu eftir að hafa verið marki undir þegar þrjár mínútur voru eftir. Ótrúlegur sigurvilji og þrautsegja hjá Evrópumeisturunum!

Adam Lallana var eini leikmaðurinn sem var í byrjunarliðinu á Villa Park frá því í Deildarbikarsigrinum á móti Arsenal á miðvikudagskvöldið. Hann leysti Fabinho Tavarez af en Brasilíumaðurinn hefði farið í leikbann ef hann hefði verið bókaður og þar með ekki verið löglegur þegar Liverpool mætir Manchester City um næstu helgi. 

Heimamenn byrjuðu af miklum krafti og leikmenn Liverpool voru í hálfgerðum vandræðum á köflum. Þar kom að Villa komst yfir. John McGinn sendi boltann fyrir úr aukaspyrnu frá vinstri. Trézéguet læddi sér inn fyrir varnarlínuna og skoraði með skoti undir Alisson Becker. Markið var skoðað í bak og fyrir í sjónvarpinu og var að lokum staðfest. 

Liverpool jafnaði sjö mínútum seinna þegar Sadio Mané sendi fyrir frá vinstri á Roberto Firmino sem skoraði af stuttu færi. Atvikið var skoðað fram og aftur í sjónvarpinu og niðurstaðan rangstaða sem var fullkomin fjarstæða. Roberto var jafn varnarmanni og hver maður, sem skoðaði atvikið á skjá, gat séð það. Á 37. mínútu átti Sadio í höggi við varnarmann og féll við. Dómarinn dæmdi að Sadio hefði látið sig detta og bókaði hann. Enn var rýnt í skjái og hugsanlega hefði verið hægt að dæma víti miðað við sambærilegt atvik um síðustu helgi þegar dæmt var víti. Villa leiddi því í hálfleik og nýliðarnir í deildinni verðskulduðu forystuna.  

Leikmenn Liverpool reyndu að herða sig eftir hlé og þeir Georginio Wijnaldum og Sadio ógnuðu með skotum sem Tom Heaton varði af öryggi. Liverpool tók nú öll völd og hver sóknin rak aðra. Eftir klukkutíma sendi Trent Alexander-Arnold fyrir á Sadio en Tom fékk skalla frá honum af stuttu færi í öxlina og bjargaði þar með marki. Á 73. mínútu gaf Roberto Firmino fyrir frá vinstri en Adam Lallana hitti ekki boltann í algjöru dauðafæri við markteiginn. 

Sókn Liverpool var linnulaus og Villa komst ekki fram fyrir miðju tímunum saman en það vantaði ekkert upp á baráttu heimamanna. Liverpool hefði átt að fá víti þegar stundarfjórðungur var eftir. Varamaðurinn Alex Oxlade-Chamberlain átti þá skot sem fór í hendi varnarmanns en hvernig sem á því stóð var það ekki talið víti þó svo að maðurinn væri með hendina út frá líkamanum. 

Á 87. mínútu bar sókn Liverpool loksins árangur. Sadio fékk boltann hægra megin við vítateiginn og sendi yfir á fjærstöng. Þar kom Andrew Robertson á fullri ferð og skallaði í markið af stuttu færi. Staðan jöfn! Þegar komið var fram í viðbótartíma var Alex felldur rétt fyrir utan vítateiginn. Trent tók aukaspyrnuna en skot hans fór af leikmanni Villa í varnarveggnum í horn. Trent fór yfir að hornfánanum og tók hornspyrnuna. Sadio var við markteigshornið nær og náði að skalla boltann til hliðar. Boltinn smaug milli tveggja varnarmanna og alla leið í markið. Ótrúlegt mark og enn einu sinni bar þrautsegja Liverpool árangur! Eftir að hafa verið undir lengi vel fögnuðu stuðningsmenn Liverpool sigri!

Liverpool lék ekki ýkja vel framan af en yfirburðir liðsins í síðari hálfleik skiluðu sigri þó hann kæmi í hús á síðustu stundu. Frábær endir!

Mark Aston Villa: Trézéguet (21. mín.).

Gul spjöld: 
Anwar El Ghazi.

Mörk Liverpool: Andrew Robertson (87. mín.) og Sadio Mané (90. mín.).

Gul spjöld: Sadio Mané og Virgil van Dijk. 

Áhorfendur á Villa Park: 41.878.

Maður leiksisns: Sadio Mané. Sigurmarkið eitt og sér tryggir Sadio nafnbótina en hann lagði líka upp jöfnunarmarkið og átti magnaðan leik. 

Jürgen Klopp: Þetta var virkilega flott. Mér finnst að það sé auðvitað heppni í spilinu þegar maður skorar svona mörk. En ég tel að ef annað liðið hefði átt sigurinn skilinn þá hafi það verið við sem verðskulduðum sigur.

Fróðleikur

- Andrew Robertson skoraði annað mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Sadio Mané skoraði tíunda mark sitt á sparktíðinni. 

- Tent Alexander-Arnold lék sinn 100. leik með Liverpool. Hann hefur skorað fimm mörk. 

- Trent hefur lagt upp 21 mark í fyrstu 100 leikjum sínum.

- Liverpool hefur haldið hreinu í 31 leik af þessum 100, unnið 71, gert 16 jafntefli og tapað 12.

- Trent er fjórði yngsti leikmaður í sögu Liverpool til að spila 100 leiki. 

- Liverpool hefur nú skorað 325 deildarmörk á móti Aston Villa sem er það mesta sem Rauði herinn hefur skorað á móti einu liði. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan