| Sf. Gutt

Fyrstu kaup sumarsins staðfest!

Loksins segja margir stuðningsmenn Liverpool! Fyrstu kaup sumarsins hjá Liverpool voru staðfest núna í kvöld. Giorgi Mamardashvili landsliðsmarkmaður Georgíu er nú orðinn leikmaður Liverpool. Hann kemur þó ekki til félagsins fyrr en í fyrsta lagi næsta sumar. Hann verður áfram hjá Valencia á Spáni þar sem hann hefur spilað frá 2021. Liverpool lánar hann sem sagt til Valencia.

Giorgi verður 24. ára 29. september. Hann fæddist í Tbilisi. Hann byrjaði í marki strax sem strákur. Davit, faðir hans, var markmaður. Hann lék sem atvinnumaður og gerðist seinna markmannsþjálfari. Giorgi var sem unglingur hjá Dinamo Tbilisi en lék aldrei með liðinu. Hann spilaði með Rustavi og Locomotive Tbilisi sem lánsmaður áður en hann fór til Valencia. Georgíumaðurinn hefur getið sér mjög gott orð hjá Valencia.

Giorgi Mamardashvili vakti mikla athygli í sumar í Evrópukeppni landsliða. Hann varði eins og berserkur og átti stóran þátt í að Georgía komst upp úr riðli sínum. Þetta var fyrsta stórmót Georgíu í knattspyrnu. 

Liverpool borgar 25 milljónir sterlingpunda fyrir Giorgi. Upphæðin getur farið upp í 29 milljónir ef ákveðin ákvæði í samningnum virkjast.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan