Hvað er framundan?
Eftir viku hefst endaspretturinn að æðsta takmarki okkar á þessu tímabili: að vinna ensku deildina í 20. sinn. Hér verður farið yfir það helsta sem er framundan hjá Liverpool - og Arsenal.
Svona er staða þriggja efstu liðanna, þegar 9 umferðir eru eftir. Eins og komið hefur rækilega fram munu 16 stig af 27 mögulegum gulltryggja sigur Liverpool í deildinni þar sem Arsenal getur mest náð 85 stigum. Nottingham Forest getur mest náð 81 stigi, önnur lið hafa ekki möguleika á að ná 80 stigum og eru því örugglega úr leik.
Arsenal hefur verið okkar helsti keppinautur í vetur og verður það út tímabilið, þótt spútniklið Nottingham Forest geti svo sem vel stolið öðru sætinu. En það verður að teljast hæpið að Nuno og hans menn landi sigri í deildinni. Þess vegna verður sjónum hér einungis beint að þeim leikjum sem Arsenal og Liverpool eiga eftir.
1. apríl - þriðjudagur:
Arsenal og Fulham mætast á Emirates. Eins og við höfum fengið að kynnast í vetur er Fulham með gott og vel skipulagt lið sem erfitt er að brjóta á bak aftur. Liðið gerði jafntefli við bæði Arsenal og Liverpool í fyrri umferðinni. 1-1 gegn Arsenal á Craven Cottage og 2-2 gegn Liverpool á Anfield, þar sem Andy Robertson fékk að líta rauða spjaldið snemma leiks. Fulham er til alls líklegt og getur vel stolið stigi eða stigum í þessum leik.
2. apríl - miðvikudagur:
Hér hefst endaspretturinn hjá okkar mönnum. Ég má hundur heita (sjá mynd) ef menn mæta ekki vel gíraðir í þennan leik, minnugir slagsmálaleiksins á Goodison fyrir nokkrum vikum. Ekkert nema sigur kemur til greina í þessum leik.
5. apríl - laugardagur:
Arsenal heimsækir Everton á Goodison Park í fyrsta leik dagsins. Everton menn verða vonandi snarvitlausir eftir slæmt tap fyrir Liverpool á miðvikudeginum. Hér gerum við sjaldgæfa undantekningu og höldum af öllu hjarta með nágrönnum okkar.
6. apríl - sunnudagur:
Þessi leikur verður erfiður. Fulham er eins og áður segir þétt og gott lið, en vonandi verða þeir með aðeins of mikið sjálfstraust eftir að hafa rúllað Arsenal upp á þriðjudeginum.
8. apríl - þriðjudagur:
Arsenal mætir Real Madrid á Emirates í fyrri leik liðanna í 8 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Arteta mun örugglega stilla upp sínu sterkasta liði og alveg klárt mál að mikil orka mun fara í þennan leik. Enda Real sigurstranglegasta liðið í CL - eins og svo oft áður.
12. apríl - laugardagur:
Arsenal mætir Brentford á Emirates. Arsenal vann fyrri leikinn 1-3 á GTech Community Stadium. Brentford hefur verið í aðeins betra standi undanfarið og vonandi skellir Daninn geðþekki Thomas Frank í góðan rútubíl gegn örþreyttum Arsenal mönnum og stelur a.m.k. einu stigi. Hér treystum við á frændur okkar Dani.
13. apríl - sunnudagur:
Hér gæti Trent Alexander-Arnold verið kominn á ferðina, sem er mikilvægt þótt hann sé ekki að vinna neinar vinsældakosningar hjá stuðningsmönnum í augnablikinu. Vonandi verða Bradley og Gomez líka orðnir leikfærir, en lítið er að frétta af stöðunni á þeim. Svo er bara að krossa fingur að engir aðrir meiðist.
16. apríl - miðvikudagur:
Arsenal heimsækir Real Madrid á Santiago Bernabéu í seinni leik 8 liða úrslitanna í Meistaradeildinni.
20. apríl - sunnudagur:
Arsenal fer á Portman Road og spilar við Ipswich, sem að öllum líkindum verður fallið þegar þarna er komið sögu.
Liverpool fer á King Power Stadium og spilar við Leicester sem verður líklega líka fallið.
26. apríl - laugardagur:
Arsenal mætir Crystal Palace á Emirates. Arsenal vann fyrri leikinn á Selhurst Park 5-1. Þótt Palace sé oft skemmtilega spilandi lið verður það varla mikil fyrirstaða fyrir Arteta og hans menn.
27. apríl - sunnudagur:
Liverpool tekur á móti Tottenham á Anfield. Hér getur 85. stigið komið í hús og þá er eini möguleiki Arsenal að vinna deildina á markamun. Að því gefnu að þeir vinni alla sína leiki frá og með 1. apríl og við töpum síðustu fjórum leikjunum. Það er ekki að fara að gerast. Hér er raunhæfur möguleiki á því að fagna sigri í deildinni á heimavelli.
29. apríl og 6. maí:
Ef svo ólíklega vill til að Arsenal slái Real Madrid út í 8 liða úrslitum CL þá eiga þeir undanúrslitaleiki 29. apríl og 6. maí.
3. maí - laugardagur:
Arsenal tekur á móti spútnikliði Bournemouth á Emirates. Bournemouth vann fyrri leikinn á Vitality Stadium 2-0, þar sem Saliba fékk rauða spjaldið á 30. mínútu. Hér getur allt gerst.
4. maí - sunnudagur:
Hörkuleikur gegn sterku, en mistæku, Chelsea liði á erfiðum heimavelli. Liverpool vann fyrri leikinn á Anfield í október 2-1, með mörkum frá Salah og Jones. Vonandi fögnum við 88. stiginu hér.
10. maí - laugardagur:
Jæja! Hér skal það gerast! Í draumaheimi, sem er alls ekki byggður á óraunhæfum draumi, munu Arsenal menn þurfa að standa heiðursvörð á Anfield laugardaginn 10. maí. Mikið óskaplega væri það ljúft. En, ef við pössum nú að fara ekki fram úr okkur, þá verður þetta örugglega svakalegur leikur. Hvernig sem staðan verður. Arsenal verða dýrvitlausir og hundleiðinlegir - og verður mikið í mun að sanna þær fullyrðingar Arteta að þrátt fyrir allt sé Arsenal miklu betra lið en Liverpool. Við sjáum til með það kallinn minn.
18. maí - sunnudagur:
Næst síðasta umferðin. Arsenal mætir Newcastle á Emirates. Ef staðan verður þannig að Arsenal á ennþá sjéns á titlinum þá er þetta okkar síðasta von til þess að þeir misstígi sig, því síðasti leikur Arsenal er gegn handónýtu Southampton liði sem er löngu, löngu fallið.
Liverpool fer í erfiðan útileik á sama tíma, gegn Brighton á Amex Stadium. Liverpool vann fyrri leikinn á Anfield í nóvember 2-1 með mörkum frá Gapko og Salah í seinni hálfleik. Brighton komst 0-1 eftir hálftíma leik og leiddi í leikhléi. Brighton liðið er þrælerfitt við að eiga þannig að þetta getur orðið mjög erfitt ef baráttan um deildina verður ennþá í gangi.
25. maí - sunnudagur:
Lokaumferðin. Eins og áður segir fer Arsenal til Southampton og rúllar þeim upp. Liverpool mætir hins vegar Crystal Palace á Anfield. Liverpool marði sigur á Selhurst Park í fyrri umferðinni með marki frá Jota. Vonandi verður þetta ein allsherjar sigurhátíð.
26. maí - mánudagur (Bank Holiday):
Vonandi, vonandi, vonandi verður þetta stemningin á götum Liverpool borgar. En...við skulum samt ekki fara fram úr okkur. Ég er samt löngu farinn fram úr mér!
YNWA!
-
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Undanúrslitasagan -
| Sf. Gutt
Mohamed Salah Leikmaður mánaðarins! -
| Sf. Gutt
Tveir komu fyrr heim -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Af spjöldum sögunnar! -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Finn fyrir ást fólksins í borginni! -
| Sf. Gutt
Næsta víst að Trent er á förum! -
| Sf. Gutt
Ógleymanlegt!