| Sf. Gutt

Í minningu

Poster of Larry Lloyd - May 1971

Larry Lloyd lést fyrir réttu ári eða þann 28. mars 2024. Hann var lykilmaður í vörn Liverpool í upphafi áttunda áratugsins. Ferill hans var um magt merkilegur. 

Larry fæddist í Bristol 6. október 1948. Hann hóf atvinnuferil sinn með Bristol Rovers 1965. Liverpool keypti hann fyrir 50.000 sterlingspund vorið 1969. 

Larry lék aðeins níu leiki á fyrsta keppnistímabili sínu 1969/70 en eftir það var hann fastamaður í hjarta varnar Liverpool næstu þrjár leiktíðir. Þar tók hann stöðu goðsagnarinnar Ron heitins Yeats sem sem lést á síðasta ári. Besta keppnistímabil hans var án efa 1972/73. Þá spilaði hann 66 leiki þegar Liverpool varð Englandsmeistari og vann líka Evrópukeppni félagsliða.

Liverpool mætti þýska liðinu Borussia Mönchengladbach í úrslitum Evrópukeppni félagsliða vorið 1973. Fyrri leikurinn fór fram á Anfield Road og Liverpool vann hann 3:0. Kevin Keegan skoraði fyrstu tvö mörkin og Larry það þriðja með skalla eftir horn. Borussia vann seinni leikinn í Þýskalandi 2:0 og því má segja að mark Larry hafi fært Liverpool fyrsta Evróputitil félagsins. Þó margir hafi leikið fleiri leiki með Liverpool á Larry sess í sögu félagsins og þetta mark var sannarlega þýðingarmikið. 

Larry Lloyd

Á leiktíðinni 1973/74 missti Larry sæti sitt í aðalliðinu eftir áramótin og lék aldrei aftur með liðinu. Bill Shankly breytti vörn liðsins með það að markmiði að spila boltanum meira út úr vörninni í stað þess að senda háar sendingar fram. Í ágúst 1974 gekk hann til liðs við Coventry City. Larry lék 218 leiki með Liverpool, skoraði fimm mörk og átti eina stoðsendingu.

 

 

Það er ekki mjög algengt að leikmenn sem Liverpool selur nái miklu flugi með nýju félagi en Larry gekk í endurnýjun lífdaga hjá Nottingham Forest. Hann samdi við félagið 1976 og varð Englandsmeistari 1977/78 og Skjaldarhafi um sumarið. Larry varð Deildarbikarmeistari 1978 og 1979. Hann varð svo Evrópumeistari 1979 og 1980. Árið 1979 vann hann Stórbikar Evrópu. Hann hafði þar með unnið svo til alla titla sem hægt var að vinna ef undan er skilinn FA bikarinn. Hann var í tapliði í keppninni með Liverpool 1971. Á myndinni að ofan er Larry annar leikmanna Nottingham Forest á eftir markmanninum Chris Wood. Lið Forest og Liverpool eru þarna að ganga til leiks fyrir Deildarbikarúrslitaleikinn 1978.

Larry fór til Wigan Athletic 1980 og endaði leikferil sinn þar 1983. Hann varð framkvæmdastjóri hjá Wigan og seinna Notts County. 

Larry lék fjóra landsleiki fyrir England. Fyrstu þrjá á árunum 1971 og 1972. Þann síðasta spilaði hann 1980. Býsna magnað. 

Larry var hávaxinn og gríðarlega sterkur skallamaður. Hann var líka sterkur í návígjum. Hann var stórgóður miðvörður og gaf aldrei neitt eftir. 

Hvíl í friði Larry Lloyd.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan