| Sf. Gutt

Landsleikjafréttir

Landsleikjahrotan er að baki. Eftir því sem best er vitað snúa allir landsliðsmenn Liverpool heilir heim. Að sjálfsögðu skiptir það mestu máli. 

Á sunnudaginn spiluðu Englendingar á útivelli við Finna í Þjóðadeildinni. England vann 1:3. Trent Alexander-Arnold var í byrjunarliðinu og gerði sér lítið fyrir og skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu af löngu færi. Trent hefur verið stórgóður í síðustu landsleikjum. 

Grikkland lagði Írland 2:0 á heimavelli. Caoimhin Kelleher var í marki Íra. Seinna mark Grikkja var skorað eftir slæm mistök hjá honum. Kostas Tsimikas kom inn sem varamaður hjá Grikkjum.

Á mánudagskvöldið fór Dominik Szoboszlai á kostum með Ungverjum sem unnu Bosníu og Hersegóvínu 2:0. Hann skoraði bæði mörkin. Seinna markið var úr víti.  

Ibrahima Konate var í byrjunarliði Frakka sem unnu Belga 1:2. Sterkur útisigur Frakklands sem var manni færri á lokakafla leiksins. Ibrahima endaði leikinn sem fyrirliði.

Holland mætti Þýskalandi í Munchen. Þjóðverjar unnu 1:0. Cody Gakpo og Ryan Gravenberch voru í byrjunarliði Hollands. Virgil van Dijk var í leikbanni.

Ungliðarnir Owen Beck og Lewis Koumas voru varamenn hjá Wales sem lagði Svartfjallaland 1:0 í Cardiff. Harry Wilson, fyrrum leikmaður Liverpool, skoraði sigurmarkið úr víti. Það þóttu tíðindi að Joe Allen sem áður lék með Liverpool, kom inn sem varamaður. Hann var hættur með landsliðinu en Craig Bellamy fékk hann til að vera í liðshópnum á nýjan leik. Joe var með Wales hér á Íslandi um daginn. Hann er orðinn 34. ára og spilar núna með Swansea City.

Í gærkvöldi fengu Skotar Portúgal í heimsókn. Andrew Robertson leiddi Skota. Ben Doak var líka í byrjunarliði Skotlands. Félagi þeirra Diogo Jota hóf leikinn fyrir Portúgal. Ekkert mark var skorað.

Conor Bradley var fyrirliði Norður Íra annan leikinn í röð. Norður Írar burstuðu Búlgaríu 5:0 í Belfast.

Í forkeppni Suður Ameríku fyrir næstu Heimsmeistarakeppni spiluðu þrír leikmenn Liverpool. Luis Díaz skoraði eitt marka Kólumbíu sem unnu öruggan 4:0 sigur á Síle. 

Alexis Mac Allister spilaði í klukkutíma þegar heimsmeistarar Argentínu burstuðu Bólivíu 6:0.

Darwin Núnez leiddi framlínu Úrúgvæ á heimavelli á móti Ekvador. Leiknum lauk án marka. 

Ungliðinn Kyle Kelly var í byrjunarliði Sankti Kitts og Nevis sem gerði 1:1 jafntefli við  Cayman eyjar. Kyle sem á 19 ára afmæli í dag er búinn að spila sex landsleiki og er það áhugaverður árangur. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan