Hjartnæm kveðjustund!
Það var hjartnæm kveðjustund á Anfield Road í gær þegar Robbie Fowler og stuðningsmenn Liverpool kvöddust á vellinum þar sem Robbie átti flestar sínar bestu stundir með Liverpool. Kveðjustundin var þó ekki auðveld.
"Ég átti fullt í fangi með að halda aftur af tárunum þegar ég gekk heiðurshringinn og stuðningsmennirnir kölluðu nafnið mitt. Þar sem þetta var síðasti leikurinn minn á Anfield þá hefði ég auðvitað viljað skora en það gengur ekki allt upp í knattspyrnunni. Ég er búinn að eiga góðan feril hjá Liverpool. Ég reyndi að láta ekki tilfinningasemina ná tökum á mér og ég held að það hafi tekist. Mér fannst ég standa mig þokkalega."
Það var kaldhæðni örlaganna að Robbie skyldi vera farinn af velli mínútu áður en Liverpool fékk vítaspyrnu. The Kop kallaði meira að segja "Við viljum Robbie inn á" eftir að vítaspyrnan var dæmd. Robbie tók þó þessu með stóískri ró.
"Svona getur gerst. Framkvæmdastjórinn er búinn að vera frábær og ég get ekki þakkað honum nógu mikið fyrir að gefa mér kost á að koma hingað aftur. Ég veit hvað honum gekk til með að skipta mér af leikvelli. Það gerði hann til að áhorfendur gætu hyllt mig. En eins og ég hef sagt þá gengur ekki allt eins og maður vill í knattspyrnunni. Ég hefði tekið vítaspyrnuna ef ég hefði verið inni á vellinum. Það hefði svo verið enn betra ef við hefðum unnið leikinn. Með svolítilli heppni gæti ég fengið að taka þátt í úrslitaleiknum í Meistaradeildinni. Við sjáum til hvað gerist þá."
Það muna allir hvernig fyrri dvöl Robbie Fowler hjá Liverpool endaði. Gerard Houllier skipti þá Robbie af leikvelli í hálfleik, í leik gegn Sunderland á Anfield Road, eftir að Liverpool hafði misst mann af velli með rautt spjald. Robbie var svo seldur til Leeds í vikunni á eftir. Robbie sá alla tíð eftir að fá ekki tækifæri til að kveðja stuðningsmenn Liverpool. Kveðjustundinni seinkaði um tæp sex ár!
"Ég missti af því að kveðja síðast og ég er ánægður með að hafa getað gert það núna. Ég vildi óska að ég hefði getað verið lengur hérna en allt gott tekur enda. Sem betur fer fékk ég gott tækifæri til að kveðja. Ég er búinn að þakka framkvæmdastjóranum fyrir mig. Stuðningsmennirnir hafa reynst mér frábærlega. Bæði þegar ég var hérna fyrst og líklega jafn vel núna þegar ég kom hingað aftur."
Stuðningsmenn Liverpool hylltu Robbie Fowler í leiknum í gær. Nafn hans var kallað reglulega á meðan á leiknum stóð. Hver einasti maður á Anfield Road stóð svo á fætur þegar Robbie fór af leikvelli. Meira að segja stuðningsmenn Charlton gerðu það líka. Leikmenn Liverpool gengu svo heiðurshring eftir leikinn eins og hefð er fyrir eftir síðasta heimaleik. Robbie var þar miðpunktur athyglinnar. þrjár dætur hans fylgdu honum og hann hélt á ungum syni sínum. Goðsögnin fékk nú tækifæri til að kveðja heimavöllinn sinn eins og goðsögnum sæmir!
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni