| Grétar Magnússon

Babel segist ekki vera á förum

Ónefnt götublað á Englandi birti viðtal við Ryan Babel fyrir leikinn við Debrecen í Meistaradeildinni þar sem Hollendingurinn átti að hafa sagst vilja fara frá félaginu, einnig átti hann að hafa gagnrýnt liðsfélaga sína.

Babel segir þetta viðtal vera uppspuna frá rótum en viðtal sem hann veitti þegar hann var á ferð með hollenska landsliðinu í síðasta landsleikjahléi var enn og aftur slitið úr samhengi.

,,Ég var mjög vonsvikinn þegar viðtalið birtist vegna þess að ég veitti ekkert viðtal hérna í Englandi - ég veitti þessu götublaði alls ekki viðtal.  Síðasta viðtal sem var tekið við mig var í Hollandi fyrir mánuði síðan þegar ég var með landsliðinu, og ég held að þeir hafi tekið einhverja bita úr þessu viðtali og skáldað svo afganginn."

,,Þeir skrifuðu að ég hefði talað um aðra leikmenn - ég myndi aldrei tala svona um aðra leikmenn.  Það fyndnasta var að þeir skyldu segja að ég og Dirk Kuyt séum ekki vinir.  Þvílík vitleysa !  Dirk getur sagt ykkur hvernig samband okkar tveggja er."

,,Þetta verður að komast á hreint.  Hvaða götublað birti þetta ?  (hér verður þýðandi viðtalsins að grípa inní og tilkynna það að ekki verður minnst á nafn þessa götublaðs en Babel segist aldrei vilja tala við þetta blað.)

Babel hefur rætt þetta við Rafa Benítez og liðsfélaga sína.

,,Ég er mjög ánægður með að stjórinn skyldi segja mér það strax að hann hefði trú á mér og hann trúði því ekki að ég hefði veitt viðtalið.  Ég vona að fólk skilji þetta.  Það er auðvelt að lesa blöðin og trúa því sem þar stendur, ég var því vonsvikinn yfir þessu og þá staðreynd að þetta skyldi birtast á degi þar sem mikilvægur leikur var framundan."

,,Ég hef rætt við nokkra liðsfélaga mína og þeir vissu alveg hvernig þetta var í pottinn búið þannig að þetta var ekkert mál."

Eins og venjulega þegar félagaskiptaglugginn nálgast fara af stað sögusagnir og er Babel þar engin undantekning.  Hann ítrekar engu að síður þá ósk sína að vera áfram hjá félaginu.

,,Ég hef veitt mörg viðtöl þar sem ég hef sagt hvað mér finnst en staðan er sú sama fyrir hvern og einn einasta leikmann sem vill spila leiki og hefur trú á því að hann sé nógu góður til að vera í byrjunarliðinu.  Ég hef trú á því að ég sé nógu góður til að spila marga leiki fyrir Liverpool.  Ég segi það aftur og aftur.  Vonandi fæ ég tækifæri til að sýna það."

,,Ég var fúll yfir því að meiðast gegn Manchester City vegna þess að þar fékk ég tækifæri í byrjunarliðinu og ég þurfti að fara af velli eftir 20 mínútur.  Ég verð að leggja hart að mér og ég er ekki kominn á þann punkt ennþá að ég hafi sýnt hvað í mér býr."

,,Það er gaman fyrir leikmann að taka þátt í Heimsmeistaramótinu og mér finnst það mikilvægt á mínum ferli.  Hvað mig varðar þá er ég á því að leiðin til að komast á HM sé að berjast fyrir sæti mínu á Anfield."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan