| Ólafur Haukur Tómasson

Daniel nálægt byrjunarliðssæti

Dani Pacheco hefur birst í leikmannahópi Liverpool nokkrum sinnum á þessari leiktíð og hefur hann komið inn á sem varamaður í tveimur leikjum til þessa en hann hefur verið á varamannabekknum í fimm af síðustu sjö leikjum liðsins. Rafael Benítez hefur mikið álit á þessum átján ára sóknarmanni og segist hann styttast í fyrsta byrjunarliðsleikinn hjá honum.

"Dani heldur áfram að æfa með aðalliðinu. Þegar við létum Andriy Voronin fara þá tókum við Dani strax í hópinn og við sjáum daglega að honum fer fram. Hann æfir mjög vel.

Alla daga hugsar maður um hvenær maður spilar, hann hefur verið mikið á bekknum og stundum hugsum við um hvenær rétti tíminn til að setja hann inn á er en maður verður einnig að hugsa um aðalliðsmennina og gefa öðrum sem þurfa spiltíma líka. Það sem er víst þá er Dani hæfileikaríkur leikmaður. Hann hefur útsjónarsemi og við vitum að hann getur gert gæfumuninn. Hann er enn mjög ungur en við erum ánægðir með hann og hann stendur sig vel."

Pacheco skrifaði fyrir skömmu undir samning sem gildir til ársins 2012 og er Benítez er vongóður um að þessi fyrrum leikmaður Barcelona muni geta nýtt hæfileika sína í aðalliðinu.

"Dani á í engum vandræðum þegar hann er með boltann. Hann er snjall og hann reynir alltaf að gera erfiða hluti en það sýnir gæðin sem hann býr yfir. Það að hann æfir með okkur sýnir hvað okkur finnst um hann. Hann er með okkur öllum stundum og það þýðir að hann getur spilað hvenær sem er. Það veltur allt á leikjunum en ef hann heldur áfram eins og hann hefur verið að gera þá fær hann sín tækifæri."

Framherjinn kom í raðir Liverpool árið 2007 frá unglingaliði Barcelona og hefur ríkt mikil spenna varðandi þennan efnilega leikmenn en hann er án nokkurs vafa einn af efnilegri leikmönnum liðsins.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan