| Sf. Gutt

Tíðindalaust jafntefli

Liverpool og Utrecht sildu jöfn án marka í tíðindalausum leik á Anfield Road í kvöld. Næstum ekkert gerðist í einum rólegasta leik sem lengi hefur farið fram í Musterinu. Þeir sluppu vel sem fengu frítt inn. Íslendingarnir, sem dæmdu leikinn, sluppu vel frá leiknum.

Martin Skrtel leiddi Liverpool til leiks sem fyrirliði og var það í fyrsta sinn sem Slóvakinn gegndi því hlutverki. Liðið sem Roy Hodgson sendi til leiks var blanda reyndari leikmanna og ungliða.

Fyrri hálfleikur var með fádæmum tíðindalítill. Það var aðeins í eitt skipti sem áhorfendur þurftu að reisa sig upp. Á 8. mínútu náði Milan Jovanovic boltanum við miðju og tók kröftuga rispu upp a vítateig hollenska liðsins þar sem hann þrumaði að marki. Boltinn small í þverslánni og fór yfir. Liverpool hefði átt að fá horn því markmaðurinn náði að slæma hendi í boltann en Íslendingarnir höfðu það markspyrnu. Bæði lið voru mjög róleg í tíðinni og það kom ekki nokkrum einasta manni, sem til sá, á óvart að ekkert hafði verið skorað þegar Kristinn Jakobsson flautaði til leikhlés.

Afmælisbarnið kom ekki til leiks eftir hlé og Sotorios Kyrgiakos tók stöðu hans og fyrirliðabandið að auki. Hollenskir áttu sitt fyrsta markskot á 50. mínútu en Brad Jones varði það auðveldlega. Átta mínútum síðar tók Martin Kelly góða rispu fram hægri kantinn og sendi fyrir markið en Ryan Babel náði ekki til boltans rétt upp við markið. Litlu munaði en nægu. 

Tíðindaleysið hélt áfram eftir þetta alveg fram á 83. mínútu en þá virtist sem Liverpool myndi skora. Liverpool gerði nokkra atlögu að marki Utrecht, boltinn barst út til vinstri á Fabio Aurelio sem sendi inn á vítateiginn. Boltinn fór á Joe Cole sem náði föstu skoti en varnarmaður náði að bjarga því sem virtist vera öruggt mark með því að henda sér fyrir boltann. Joe náði sér alls ekki á strik frekar en í þeim síðustu leikjum sem hann hefur tekið þátt í.

Ekkert mark kom og tíðindaleysið var algjört frá upphafi til enda. Íslendingarnir sluppu vel frá leiknum og líka þeir sem þurftu ekki að borga sig inn á þennan leik. 

Liverpool: Jones, Aurelio, Wilson, Kelly, Skrtel (Kyrgiakos 46. mín.), Cole, Poulsen, Shelvey, Jovanovic (Kuyt 73. mín.), Babel og Eccleston (Pacheco 56. mín.). Ónotaði varamenn: Hansen, Johnson, Meireles og Torres.

Gult spjald: Nathan Eccleston.

Utrecht: Vorm, Cornelisse, Nesu, Keller, Silberbauer, Mertens, Maguire (A. Sarota 84. mín.), Nijholt, Wuytens, Duplan (Oar 71. mín.), og van Wolfswinkel (de Kogel 45. mín.). Ónotaðir varamenn: Cummings, Vorstermams og Van der Maarel.

Maður leiksins: Martin Kelly. Enn og aftur spilaði þessi efnilegri leikmaður vel. Hann bæði sótti og varðist vel. Hann var líka áhugasamur allan leikinn og það var nú ekki hægt að segja um alla á vellinum.

Roy Hodgson: Við erum allir vonsviknir með leikinn en við reyndum hvað við gátum. Undir lokin fannst mér að við ættum nokkur þokkaleg færi en vandamálið var að það skorti upp á tæknina uppi í markið. Ég ætti nú kannski að vera ánægðari en ég er en ég var að vona að við myndum sýna góð tilþrif því það voru svo margir hérna á leiknum í fyrsta sinn. Það tókst því miður ekki. 

                                                                              Fróðleikur

- Martin Skrtel var fyrirliði Liverpool í fyrsta sinn.
 
- Hann átti að auki afmæli og var 26 ára.

- Íslendingar sáu um að lög og regla væri á öllu á Anfield.

- Liverpool hefur enn ekki tapað Evrópuleik á þessari leiktíð.

- Liverpool hafði fyrir þennan leik unnið átta Evrópuleiki í röð á heimavelli.

- Liverpool vann riðilinn og Napolí fygldi með upp úr honum.

1 Liverpool 6 leikir 10 stig 
2 Napoli 6 leikir 7 stig
3 Steaua Bucharest 6 leikir 6 stig 
4 Utrecht 6 leikir 5 stig 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan