Skipt um gír í síðari hálfleik!
Liverpool skipti um gír í síðari hálfleik gegn Southampton í dag eftir slakan fyrri hálfleik, sneri leiknum sér í hag og vann öruggan 3:1 sigur á Southampton.
Það kom ekki á óvart að Liverpool fengi fyrsta færi leiksins. Á 6. mínútu fékk Curtis Jones boltann í vítateignum. Hann náði skoti á markið en boltinn fór rétt framhjá vinstri stönginni.
Liverpool fylgdi þessu ekki eftir. Leikmenn voru daufir og Southampton náði að halda Liverpool vel í skefjum. Það var varla að neitt merkilegt gerðist fyrr en á fyrstu mínútu viðbótartímans. Þá kom mark og það kom úr óvæntri átt. William Smallbone elti boltann inn að markteignum. Virgil van Dijk hugðist láta boltann fara sína leið til Alisson Becker. Þetta mistókst hjá þeim félögum. Boltinn hrökk frá þeim og William náði að skjóta boltanum í autt markið. Gríðarlega óvænt staða í leik efsta og neðsta liðsins!
Arne Slot, sem sat uppi í stúku, lét verkin tala í hálfleik. Andrew Robertson, Alexis Mac Allister og Harvey Elliott voru sendir til leiks í stað Kostas, Dominik Szoboszlai og Curtis. Nú dugði ekki annað en að rífa sig í gang. Varamennirnir færðu mikið líf í leik Liverpool og eftir nokkur andartök lagði Mohamed Salah upp skotfæri fyrir Harvey sem þrumaði að marki í vítateignum hægra megin en Aaron Ramsdale varði vel. Þetta kveikti í Rauða hernum innan vallar sem utan.
Á 51. mínútu stakk Luis Díaz varnarmann af, lék upp að endamörkum vinstra megin og sendi fast fyrir markið. Darwin Núnez var vel með á nótunum og smellti boltanum í markið af stuttu færi fyrir framan Kop. Fagnaðarlætin voru mikil og nú varð ljóst í hvað stefndi. Southampton tók miðju en Liverpool vann boltann rakleiðis. Mohamed sendi út til vinstri á Luis sem komst inn í teig og skaut föstu skoti að marki. Aaron varði en hélt ekki boltanum. Southampton náði ekki að hreinsa og í kjölfarð var brotið á Darwin. Dómarinn dæmdi réttilega víti. Mohamed tók vítið og skoraði með þéttingsföstu skoti út við stöng vinstra megin. Tvö mörk á þremur mínútum og Liverpool komið yfir. Magnaður leikkafli!
Liverpool hafði öll völd hér eftir í hálfleiknum en slakaði þó á klónni eftir krafmikla byrjun og tvö mörk. Á 70. mínútu komst Southampton í fátíða sókn. Cameron Archer náði skoti í vítateignum en Alisson varði af öryggi. Mínútu síðar var staðið á fætur og klappað fyrir Adam Lallana sem kom inn sem varamaður fyrir gestina.
Sigur Liverpool var innsiglaður á 88. mínútu. Luis var enn ógnandi vinstra megin. Hann tók ripsu inn í vítateiginn þar sem hann átti í baráttu við Yukinari Sugawara. Luis og áhorfendur sem voru næstir heimtuðu víti. Dómarinn dæmdi ekkert en fékk skipun um að kíkja á sjónvarpið. Hann gerði það og eftir skoðun dæmdi hann víti vegna þess að Yukinari hafði breytt stefnu boltans með framhandlegg sínum. Mohamed steig aftur fram til að taka víti. Í þetta sinn skaut hann boltanum til hægri og hann söng ofarlega í netinu! Liverpool hafði hér með innsiglað sigur og honum var vel fagnað þegar flautað var til leiksloka!
Liverpool var víðsfjarri sínu besta í fyrri hálfleik en skipti um gír í síðari hálfleik og þá var aldrei spurning um sigur. Stórgóður leikur eftir hlé eftir líflausan fyrri hálfleik!
Liverpool: Alisson; Alexander-Arnold (Quansah 90. mín.), Konaté, Van Dijk, Tsimikas (Robertson 46. mín.); Jones (Mac Allister 46. mín.), Gravenberch (Endo 80. mín.); Salah, Szoboszlai (Elliott 46. mín.), Diaz og Núnez (Jota 67. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Chiesa og McConnell.
Mörk Liverpool: Darwin Núnez (51. mín.) og Mohamed Salah, bæði víti, (54. og 88. mín.).
Gul spjöld: Kostas Tsimikas og Darwin Núnez.
Southampton: Ramsdale; Walker-Peters, Harwood-Bellis, Bednarek (Bella-Kotchap 18. mín.), Manning (Aribo 83. mín.); Ugochukwu (Onuachu 83. mín.), Smallbone (Lallana 71. mín.); Dibling (Sugawara 64. mín.), Fernandes, Sulemana og Gronbaek (Archer 64. mín.). Ónotaðir varamenn: McCarthy, Stephens og Welington.
Mark Southampton: William Smallbone (45. mín.).
Gult spjald: Paul Onuachu.
Áhorfendur á Anfield Road: 60.339.
Maður leiksins: Darwin Núnez. Það gekk ekkert í fyrri hálfleik en á örskömmum tíma í síðari hálfleik jafnaði hann leikinn og fékk svo dæmda vítaspyrnu. Segja má að hann hafi gert út um leikinn. Í það minnsta lagði hann mikið til sigurs Liverpool!
Arne Slot: ,,Góð lið geta unnið leiki á misjafna vegu. Við vorum slakir í fyrri hálfleik. Ekki bara vegna þess hvernig við spiluðum heldur líka af því að það vantaði allan kraft í okkur. Það má segja að það eina góða í fyrri hálfleik hafi verið að leikmenn voru bara í orkusparnaði og hlupu ekki neitt!"
Fróðleikur
- Darwin Núnez skoraði sjöunda mark sitt á leiktíðinni.
- Mohamed Salah er nú kominn með 32 mörk á keppnistímabilinu.
- Þetta var 12. deildarleikurinn í röð sem Mohamed skorar eða leggur upp mark í.
- Mörkin tvö, sem Mohamed skoraði þýða að Egyptinn er búinn að skora 11 deildarmörk á móti Southampton. Það er félagsmet. Ian Rush átti gamla metið sem var tíu mörk.
- Á þessu keppnistímabili skoraði Mohamed fjögur mörk í deildarleikjunum tveimur við Southampton.
- Þetta var áttundi heimasigur Liverpool í röð á móti Southampton í öllum keppnum.
-
| Heimir Eyvindarson
Hvernig leggst hvíldin í okkar menn -
| Sf. Gutt
Lokaspretturinn hefst annað kvöld! -
| Sf. Gutt
Fyrsti apríl! -
| Sf. Gutt
Asíuferð í sumar -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Mohamed Salah Leikmaður mánaðarins! -
| Sf. Gutt
Tveir komu fyrr heim -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Af spjöldum sögunnar! -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir