| Sf. Gutt

Christian vill ekki fara frá Liverpool

Christian Poulsen náði ekki að festa sig í sessi hjá Liverpool á nýliðinni leiktíð eftir að hann kom frá Juventus. Margir telja að Daninn verði seldur núna í sumar en hann vill vera áfram leikmaður Liverpool. Hann tjáði sig um þetta á vefsíðu Liverpool.

,,Ég kom hingað í ágúst og margt gerðist á keppnistímabilinu. Við fengum bæði nýja eigendur og nýjan framkvæmdastjóra. Það var samt gott andrúmsloft í búningsklefanum þrátt fyrir allar þessar breytingar."
 
,,Ég er viss um að Kenny er rétti maðurinn til að leiða Liverpool til árangurs í framtíðinni því að á þeim stutta tíma sem hann hefur verið hérna höfum við bara farið í eina átt og ég vona að svo haldi áfram í framtíðinni. Auðvitað hefði ég líka viljað spila svolítið meira og það er mín von til framtíðar."
 
,,Að koma til Liverpool og spila á Anfield hefur verið virkilega gott fyrir mig en ég vona að ég muni hafa eitthvað meira og betra um að tala í lok næsta keppnistímabils. Ég hef lagt hart að mér á æfingum á Melwood til að reyna að komast aftur í liðið og það er markmið mitt í framtíðinni."

Christian Poulsen er venjulega fyrirliði danska landsliðsins en hann var á varamannabekknum á Laugardalsvellinum á laugardaginn þegar Danir unnu sigur á Íslendingum. Hann kom inn á í síðari hálfleik og stóð sig vel en var ekki ánægður með að byrja á bekknum.
 
„Auðvitað var svekkjandi að byrja á bekknum. Ég var búinn að búa mig undir það en það var engu að síður svekkjandi."
 
Christian getur að minnsta kosti verið ánægður með þau lok á keppnistímabilinu að vera í sigurliði með danska landsliðinu. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan