| Heimir Eyvindarson

Stewart gerir sér grein fyrir mikilvægi leiksins

Stewart Downing segist vita að borgarslagurinn á morgun sé stuðningsmönnum liðsins mjög mikilvægur. Hann segir að innfæddu strákarnir í Liverpool passi upp á að hinir í liðinu gleymi því ekki!

,,Stevie, Carra, Jay Spearing og hinir strákarnir sem eru aldir upp í borginni hafa ekki talað um annað en þennan leik síðan það varð ljóst að við myndum mæta nágrönnunum í undanúrslitunum. Þeir passa upp á að við hinir gerum okkur fulla grein fyrir því að við verðum að vinna Everton!"

,,Ég skil þá mjög vel. Ég hef tekið þátt í nágrannarimmum í öðrum borgum og þetta er allsstaðar svona, þótt það jafnist líklega ekkert á við það sem er í gangi hér."

,,Þegar ég var hjá Middlesborough litum við á Newcastle sem okkar erkifjendur, en ég held að þeir hafi ekki endilega verið sama sinnis. Leikir Aston Villa og Birmingham komust nær því að vera alvöru nágrammaslagir, en hér er einhvernveginn meira undir. " 

,,Stemningin í Liverpool er einstök og maður finnur hvernig spennan meðal stuðningsmannanna hefur magnast upp undanfarið. Maður finnur stemninguna á vellinum og finnur líka hvernig hún magnast upp í borginni dagana fyrir leik. Þetta verður svakalegur leikur og það má búast við því að borgin verði eins og draugabær meðan hann fer fram."

,,Við leikmennirnir vitum auðvitað hvað er í húfi fyrir stuðningsmennina. Hverjir geta montað sig eftir leikinn og eitthvað fram eftir árinu! Ég veit að við getum unnið ef við spilum vel og vonandi tekst okkur það."

,,Fólk hér í borginni talar mikið um 4-4 leikinn gegn Everton um árið, síðasta leikinn undir stjórn Dalglish á sínum tíma (feb. 1991). Ég man ekki mikið eftir þeim leik en það er tvennt sem ég man. Glæsilegt mark sem John Barnes skoraði, en ég stúderaði hann mjög á þessum tíma, og svo hvað leikurinn var rosalega sveiflukenndur. Ég vona að leikurinn á morgun taki ekki eins á taugarnar!"

,,Annars er ég yfirleitt ekki stressaður fyrir leiki. Ég viðurkenni að vísu að það verður aðeins erfiðara að róa taugarnar á morgun en venjulega, enda bæði um Everton að ræða og undanúrslit í bikarnum. En ég hef virkilega trú á að við getum unnið þá. Mér finnst við vera sterkara lið og við höfum nú þegar sýnt það í verki tvisvar á þessari leiktíð. Vonandi tekst okkur það í þriðja skiptið á morgun."

Stewart Downing segist viss um að Brad Jones muni standa sig vel í markinu á morgun, en þeir voru liðsfélagar hjá Middlesborough.

,,Ég var eiginlega alveg viss um að Brad myndi verja vítið frá Yakubu þegar hann kom inn á móti Blackburn. Ég og Yakubu æfðum víti gegn Brad á hverjum degi hjá Middlesborough og ég fann það einhvernveginn á mér að hann myndi verja þetta. Mér fannst hann komast vel frá leiknum. Ég veit að hann átti sök á seinna vítinu, en það verður að hafa það í huga að henn hefur ekki spilað aðalliðsleik í langan tíma og þar að auki hefur mikið gengið á í hans lífi."

,,Brad er góður markvörður. Hann er bara óheppinn að standa í sömu röð og Pepe Reina. Það kemst enginn fram fyrir hann. Ef maður lítur yfir ferilinn hjá Brad þá sér maður að hann hefur kannski ekki spilað neitt rosalega mikið en hann hefur samt reynslu af stórleikjum, sem er mjög mikilvægt. Hann hefur spilað í undanúrslitum bæði í Evrópudeildinni og FA-bikarnum. Hann hefur gert þetta áður. Við höfum fulla trú á honum."

Stewart Downing kom Liverpool í undanúrslitin með því að skora sigurmarkið 2:1 á móti Stoke City í átta liða úrslitunum. Nú er sjá hvernig honum gengur á Wembley en hann var valinn Maður leiksins þar í Deildarbikarúrslitaleiknum í síðasta mánuði. Hann lék mjög vel í þeim leik og vonandi leikur hann líka vel á morgun verði hann valinn til leiks.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan