| Grétar Magnússon

Martin Skrtel skrifar undir nýjan samning

Varnarmaðurinn Martin Skrtel hefur skrifað undir nýjan langtímasamning við félagið.  Hann stefnir á að verða goðsögn hjá félaginu.

Skrtel, sem er 27 ára, var kosinn besti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð skrifaði undir samninginn í dag eftir æfingu.

Hann hafði þetta svo að segja í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins:  ,,Ég er ánægður því ég er hluti af einu stærsta félagi heimsins."

,,Eftir síðasta tímabil var mikið rætt og ritað um framtíð mína en ég verð að segja að mitt fyrsta markmið var ávallt að skrifa undir nýjan samning við félagið.  Fyrir mér er stórkostlegt að spila fyrir Liverpool.  Ég er stoltur að spila fyrir Liverpool með þessum góðu leikmönnum - sumir hverjir eru þeir bestu í heimi."

,,Ég vona að ég geti verið hluti af sögu félagsins og að stuðningsmennirnir muni ávallt muna eftir mér - það er mitt takmark fyrir framtíðina."

Skrtel var keyptur frá Zenit í janúar 2008 og hefur spilað 175 leiki fyrir félagið til dagsins í dag.  Hann og fjölskylda hans eru ánægð með lífið utan vallar og þessi slóvaski landsliðmaður er viss um að Brendan Rodgers muni einnig gera hann ánægðan með lífið innan vallar.



,,Ég hef verið hér í næstum því fjögur og hálft ár og ég hef notið tímans hér - fjölskyldan mín einnig," sagði Skrtel.  ,,Það var því engin spurning hvort ég myndi vera áfram eða færi.  Margt hefur breyst, nýr stjóri hefur tekið við.  Ég held að við getum byrjað að skrifa söguna og ég vil vera hluti af því."

,,Við höfum okkar markmið.  Á þessu tímabili er það topp fjögur og ég vonast til þess að við náum því.  Svo sjáum við til.  Ég held að Brendan Rodgers hafi sýnt hvað í honum býr hjá Swansea og ég vona að hann haldi því áfram hér.  Hann hefur sýnt að hann er góður stjóri og ég vona að við getum spilað betri knattspyrnu en við gerðum á síðasta tímabili og að við náum markmiðum okkar."

Skrtel hefur komið sér í hóp meðal bestu varnarmanna ensku Úrvalsdeildarinnar undanfarin tvö tímabil og hjálpað liðinu að ná þriðja besta varnarárangri allra liða í deildinni á síðasta tímabili.

Hann bætti við:  ,,Ég get sagt að síðastu tvö tímabil hafi verið mjög góð fyrir mig - líklega mín bestu tímabil á ferlinum.  Ef ég get haldið því áfram þá verð ég ánægður."




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan