Áframhald við illan leik!
Brendan Rodgers sagði fyrir leikinn að hann ætlaði sér að læra af mistökum í liðsvali sínum í bikarleikjum frá síðasta keppnistímabili. Þetta mátti greinilega sjá á liðsuppstillingu hans en ekkert var um óreynda menn í byrjunarliðinu. Óskabyrjun Liverpool kom því ekkert á óvart.
Raheem Sterling fékk boltann utan vítateigs, stakk sér í gegnum miðja vörn Nottingham manna og skoraði af öryggi þó svo að markmaðurinn næði að koma við boltann. Aðeins fjórar mínútur búnar og byrjunin eins og best mátti hugsa sér!
Liverpool hafði öll völd frá upphafi en Simon Mignolet þurfti reyndar að verja eina aukaspyrnu. Á 19. mínútu sendi Steven Gerrard aukaspyrnu frá hægri sem Daniel Agger skallaði í stöng. Daniel kom af illu til leiks tíu mínútum áður eftir að Aly Cissokho fór þjáður af leikvelli. Tíu mínútum eftir skalla Daniel virtist Liverpool vera kominn með leikinn í höfn. Steven sendi hánákvæma sendingu fram á Daniel Sturridge. Hann fékk boltann vinstra megin í vítateignum og þrumaði honum óverjandi út í hornið fjær. Magnað skot!
Aftur var Daniel Agger ágengur á 35. mínútu þegar markmaður gestanna varði skalla hans eftir horn með miklum tilþrifum. Fimm mínútum síðar bjargaði tréverkið Notts County aftur. Eftir vel útfærða sókn sendi Raheem út til vinstri á Steven en skot hans small í stöng. Allt í góðum málum í leikhléi en forystan hefði reyndar átt að vera orðin meiri.
Ekkert benti til vandræða framan að síðari hálfleik en þriðju deildarliðið kom sér smá saman í gang. Eftir klukkutíma varði Simon langskot og tveimur mínútum seinna skoraði Yoann Arquin með skalla af stuttu færi í slá og inn. Vörn Liverpool náði ekki að verjast aukaspyrnu og allt í einu var komið líf í County. Á 69. mínútu var Kolo Toure óheppinn þegar hann stýrði fyrirgjöf Steven Gerrard í stöng. Þremur mínútum áður hafði Joe Allen farið meiddur af velli. Hann var að sjá tognaður í læri.
Leikmenn Liverpool höfðu slakað mikið á en það var svo sem ekki mikil ógn af gestunum. Á 74. mínútu sendi Steven frábæra sendingu fyrir markið á Daniel Sturridge en skalli hans fór framhjá. Þegar sex mínútur voru eftir gerðist það sem ýmsum var farið að detta í hug. Snögg sókn County endaði með því að boltinn barst fyrir markið frá hægri og þar smellti Adam Coombers boltanum í markið nýkominn inn á sem varamaður. Stuðningsmenn þeirra röndóttu trylltust skiljanlega.
Rauðliðar reyndu að ná síðbúnum sígri undir lokin. Á 87. mínútu skaut Daniel Agger utan vítateigs, boltinn fór í varnarmann og rétt framhjá. Í blálokin lagði Glen Johnson upp færi fyrir Raheem en skot hans fór framhjá. Ótrúlegt en satt Notts County, sem er án sigurs í þriðju efstu deild, var búið að herja fram framlengingu!
Nottingham menn voru brattir framan af framlengingu án þess þó að ógna en vont versnaði hjá Liverpool þegar Kolo Toure var borinn af velli. Þetta þýddi að Liverpool varð að leika síðustu 20 mínúturnar manni færri! Raheem var meira að segja orðinn hægri bakvörður. Hvað var í gangi spurðu stuðningsmenn Liverpool hvorn annan? Meiðsli Kolo komu þó aðeins til góða því Liverpool skoraði í tíma þeim sem bætt var við vegna meiðsla hans.
Liverpool baut sókn County á bak aftur og boltinn gekk hratt fram völlinn. Philippe Coutinho, sem kom til leiks sem varamaður, sendi fína sendingu fram á Daniel Sturridge sem lék inn í vítateignn vinstra megin og skot hans úr þröngu færi rataði naumlega rétta boðleið í markið. Reyndar vildu þeir röndóttu fá víti rétt áður en Daniel skoraði. Eftir þetta var allur vindur úr gestunum þó þeir væru manni fleiri.
Liverpool gerði svo endanlega út um leikinn þegar tíu mínútur voru eftir af seinni hluta framlengingar. Varamaðurinn Jordan Henderson fékk þá boltann rétt fyrir framan miðju. Hann stakk boltanum milli fóta varnarmanns og rauk svo í gegn áður en hann smellti boltanum í markið. Alveg frábært mark!
Sigurinn var í höfn en hann var dýrkeyptur og harðsóttari en búist var við. Þrír menn Liverpool meiddust og áætlun Brendan um þægilegan og tiltölulega áreynslulausan sigur fyrir leikinn á móti Manchester United um næstu helgi fór fyrir lítið. En það var góð stemmning á vellinum og áhorfendur fengu nóg fyrir peningana. Gamaldags bikarleikur var málið í kvöld!
Liverpool: Mignolet, Johnson, Toure, Wisdom, Cissokho (Agger 9. mín.), Gerrard, Allen (Henderson 65. mín.), Sterling, Alberto (Coutinho 72. mín.), Ibe og Sturridge. Ónotaðir varamenn: Jones, Aspas, Leiva og Borini.
Mörk Liverpool: Raheem Sterling (4. mín.), Daniel Sturridge (29. og 105. mín.) og Jordan Henderson (110. mín.)
Gul spjöld: Andre Wisdom og Raheem Sterling.
Notts County: Bialkowski, Dumbuya, Liddle, Smith, Stevens, Bell (Coombes 82. mín.), Labadie, Fotheringham (Boucaud 77. mín.), Campbell-Ryce (Thompson 70. mín.), Arquin og McGregor. Ónotaðir varamenn: Spiess, Tempest, Murray og Nangle.
Mörk Notts County: Yoann Arquin (62. mín.) og Coombes (84. mín.).
Gul spjöld: Jamal Campbell-Ryce og Yoann Arquin.
Áhorfendur á Anfield Road: 42.231.
Maður leiksins: Daniel Sturridge. Þessi skæði sóknarmaður er nú búinn að skora fjögur mörk á leiktíðinni. Hann virtist hafa gert út um leikinn með öðru marki Liverpool en fór svo langt með það löngu seinna í framlengingunni þegar hann skoraði aftur. Daniel sást ekki mikið í leiknum en mörkin hans tvö voru mögnuð.
Brendan Rodgers: Við erum auðvitað vonsviknir að hafa gefið mörk eftir að vera tvö núll yfir. Ég get þó ekki annað en hrósað báðum liðum. Mínum mönnum fyrir að sýna magnaðan styrk í að halda baráttunni stöðugt áfram og Notts County á líka mikið hrós skilið.
Fróðleikur
- Liverpool og Notts County mættust í fyrsta sinn í Deildarbikarnum.
- Daniel Sturridge er nú kominn með fjögur mörk á leiktíðinni.
- Raheem Sterling og Jordan Henderson skoruðu sín fyrstu mörk á leiktíðinni.
- Luis Alberto lék sinn fyrsta leik með Liverpool.
- Notts County er elsta atvinnumannalið í heimi. Félagið er stofnað árið 1862.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!