Tap í toppslagnum
Brendan Roders neyddist til að gera eina breytingu á liði sínu fyrir leik því Glen Johnson var veikur og var Jon Flanagan settur í liðið. Kannski hefðu einhverjir haldið að Martin Kelly væri á undan í röðinni í þessa stöðu en Jon varð fyrir valinu. Philippe Coutinho kom inn í liðshópinn eftir meiðsli og tók sæti á bekknum.
Heimamenn fengu fyrsta færið á 6. mínútu þegar Tékkinn Tomas Rosicky átti skáskot hægra megin úr vítateignum sem Simon varði í horn. Þremur mínútum seinna fékk Jordan Henderson frítt hlaup inn í vítateig Arsenal, eftir að hafa unnið boltann við miðjuna, en skot hans var algjörlega máttlaust. Alveg upplagt færi og það var eins og Jordan væri steinhissa á að komast í þessa stöðu.
Eftir þetta gerðist ekkert þar til Arsenal skoraði á 19. mínútu. Boltinn kom inn í vítateginn frá hægri frá Bacary Sagna þar sem Santi Cazorla skallaði í stöng. Boltinn hrökk út og hann sjálfur var fljótastur til að þrumaði boltanum í markið. Simon var varnarlaus í markinu og vörnin víðsfjarri.
Sjö mínútum seinna jafnaði Liverpool með marki sem dómarinn tók af þeim. Bacary reif Luis Suarez niður. Luis tók aukaspyrnuna strax og sendi fram á Daniel Sturridge sem renndi boltanum fyrir markið þar sem Jordan skoraði. Dómarinn stöðvaði allan fögnuð Liverpool í fæðingu til þess að bóka Bacary og lét svo endurtaka aukaspyrnuna. Dómarinn gat svo sem staðið á þessum dómi en stundum er gefinn kostur á að taka aukaspyrnu svona snöggt og hann gat vel beðið með að bóka leikmanninn! Þarna hefði Liverpool átt færi á að komast aftur inn í leikinn og í raun gafst ekki annað svona gott. Ekki var meira skorað í hálfleiknum og kom Simon í veg fyrir það þegar hann varði vel frá Aaron Ramsey undir lok hálfleiksins.
Brendan tók á það ráð í hálfleik að senda Philippe Coutinho til leiks og tók Aly Cissokho út af en hann hafði ekki leikið vel. Brasilíski strákurinn var skiljanlega ryðgaður eftir axlarmeiðslin og gekk ekki vel að komast inn í leikinn. Snemma í síðari hálfleik tók Luis rispu fram vinstra megin, sendi yfir á Jordan sem átti skot rétt yfir. Nokkuð gott skotfæri en hann náði ekki að halda boltanum niðri. Rétt á eftir átti Kolo Ture misheppnaða sendingu sem olli því að Olivier Giroud komst einn inn í vítateiginn en skot hans fór í hliðarnetið. Litlu síðar komst Oliver aftur í færi en skaut beint á Simon. Liverpool gekk ekki að jafna og Arsenal gerði svo til út um leikinn á 59. mínútu. Aaron fékk þá boltann rétt fyrir utan vítateiginn og þrumaði boltanum upp undir þverslána. Glæsilegt skot hjá Veilsverjanum sem allt gengur upp hjá þessar vikurnar og Simon átti ekki möguleika.
Eftir þetta var heldur betur á brattann að sækja en Liverpool fékk færi á lokakaflnaum til að komast aftur inn í leikinn. Daniel fékk gott skallafæri þegar tuttugu mínútur voru eftir eftir fyrirgjöf frá Jordan en hann hitti ekki markið eins og hann hefði átt að gera. Rétt á eftir átti Luis skot úr þröngu færi sem strauk stöngina og fór framhjá. Þegar tvær mínútur voru eftir komst Luis í gott færi en hitti ekki markið og hefði kannski betur gefið á Daniel sem var alveg fokreiður yfir að fá ekki sendingu. Sigurinn féll heimamönnum í skaut og verður að segjast að það var sanngjarnt en Liverpoool átti sín færi sem ekki tókst að nýta og hvað hefði gerst ef markið sem jafnaði leikinn hefði fengið að standa?
Liverpool lék því miður ekki nógu vel í þessum mikilvæga leik og það var slæmt því toppsætið í deildinni var í húfi! Það er þó alls ekki ástæða til að vera með neina svartsýni því Liverpool hefur ekki staðið betur að vígi í deildinni á þessum árstíma um langt skeið. Það þarf bara að rífa sig upp og komast aftur á sigurbraut.
Arsenal: Szczesn; Sagna, Mertesacker, Koscielny, Gibbs (Vermaelen 78. mín.); Ramsey, Arteta, Rosicky (Monreal 72. mín.); Ozil, Cazorla; (Jenkinson 84. mín.) og Giroud. Ónotaðir varamenn: Fabianski, Bendtner, Akpom og Hayden.
Mörk Arsenal: Santi Cazorla (19. mín.) og Aaron Ramsey (59. mín.).
Gul spjöld: Bacary Sagna og Carl Jenkinson.
Liverpool: Mignolet; Toure, Skrtel, Sakho; Cissokho (Coutinho 46. mín.), Flanagan (Moses 68. mín.); Gerrard, Leiva, Henderson; Sturridge og Suarez. Ónotaðir varamenn: Jones, Agger, Allen, Sterling og Kelly.
Gult spajld: Aly Cissokho.
Áhorfendur á Emirates leikvanginum: 60.042.
Maður leiksins: Martin Skrtel. Slóvakinn var enn og aftur sterkur í vörnini. Hann hefur verið besti varnarmaður Liverpool það sem af er leiktíðar.
Brendan Rodgers: Þetta voru svekkjandi úrslit fyrir okkur í kvöld. En það er munur á liðshópunum ef litið er á þá. Þeir eru búnir að vera í Meistaradeildinni í mörg ár og hafa fjárfest talsvert mikið. Ég get því ekki beðið um meira frá leikmönnum okkar. Þeir hafa lagt sig fram í hverjum einasta leik.
Fróðleikur.
- Þetta var annað deildartap Liverpool á þessari leiktíð.
- Þetta var fyrsta tap Liverpool á Emirates leikvanginum í frá því á leiktíðinni 2009/10.
- Þetta var fyrsta útitap Liverpool í deildinni frá því í mars.
- Jon Flanagan lék sinn fyrsta leik á leiktíðinni.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.
Hér er viðtal við Brendan Rodgers sem tekið var eftir leikinn.
Hér er viðtal við Arsene Wenger.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!