Spáð í spilin
Árið 2013 er að renna sitt skeið og árið 2014 tekur við. Liverpool hefur keppni ársins í Musterinu og tekur á móti Hull City. Fyrstu tveir jólaleikirnir töpuðust og nú þarf að vinna sigur til að komast aftur á rétta braut! Liverpool fór í efsta sæti daginn fyrir Þorláksmessu en nú við áramót er liðið aðeins númer fimm. Tveir erfiðir útileikir töpuðust en það var vitað að þeir myndu reyna á. Reyndar töpuðust þeir naumlega og dómarar voru ekki nógu glöggir að mati stuðningsmanna Liverpool!
Það er þó ekki langt í toppliðin og nú er bara að komast aftur á sigurbraut og hvað er betra en að fá heimaleik á fyrsta degi árins? Nú er reyndar komið í ljós, eins og alltaf hefur verið vitað, að liðshópurinn er ekki nógu stór. Lykilmenn eru meiddir og meiðslalistinn lengdist yfir jólin þegar Joe Allen og Mamadou Sakho meiddust. Þeir eru úr leik í bili. Það sagði sína sögu um hópinn að tveir unglingar, Brad Smith og Jordan Rossiter, voru á bekknum á Stamford Bridge og Brad var sendur til leiks. En það þýðir ekkert að kvarta og það verður bara að vinna með þá menn sem eru til taks. Bæði Brad og sérstaklega Jordan þykja mjög efnilegir og kannski fá þeir tækifæri til að sýna hvað í þeim býr í næstu tveimur leikjum.
Það er bara mánuður frá því Liverpool fór til Hull og fékk slæman 3:1 skell þar. Hull vann ekki leik eftir sigurinn á Liverpool þar til þeir burstuðu Fulham 6:0 í síðasta leik en Liverpool vann alla leiki eftir tapið fram að jólaleikjunum. Hull er með nokkra góða leikmenn í sínum röðum og þeir koma fullir sjálfstrausts til Liverpool eftir stórsigurinn. Leikmenn Liverpool eru aftur með tvö töp á bakinu eins og fram hefur komið. Liverpool hefur unnið sex síðustu heimleiki sína og ég spái því að sá sjöundi bætist við á nýársdaginn. Liverpool vinnur 3:1. Luis bætir tveimur mörkum í safnið og Raheem skorar líka.
Annars er ekki annað hægt, þrátt fyrir töpin tvö um jólin, en að vera bjartsýnn um þessi áramót. Liðið hefur staðið sig mjög vel það sem af er leiktíðarinnar og verið í toppbaráttunni frá fyrsta leik. Liðið hefur raðað inn mörkum og þá sérstaklega á heimavelli. Brendan Rodgers hefur náð að fá liðið til að leika skemmtilega sóknarknattspyrnu og árangurinn, ef árið í heild er skoðað, er með því besta bæði hvað varðar stigasöfnun og markaskorun. Það sem þarf að bæta er árangur á útivöllum, sem hefur ekki verið nógu góður á þessari leiktíð, og eins þarf að fara að gera eitthvað af viti í bikarkeppnunum en Brendan Rodgers hefur ekki náð neinum árangri í þeim hingað til. F.A. bikarinn hefst í byrjun árs og þar gefst tækifæri. Svo er að halda áfram á sömu braut í deildinni og ná Meistaradeildarsæti og kannski er atlaga að Englandsmeistaratitlinum sjálfum ekki ómöguleg. En árið í heild hefur verið býsna gott og það næsta byrjar með sigri. Gleðilegt ár!
YNWA
Hér má sjá leikmenn Liverpol undirbúa sig fyrir nýársleikinn.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!