| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Þá er loksins komið að leik í úrvalsdeildinni á ný.  Að þessu sinni er það erfiður útileikur við Stoke City en okkar menn hafa nú ekki sótt gull í greipar þeirra á Britannia vellinum í gegnum árin.


Leikurinn fer fram sunnudaginn 12. janúar og verður flautað til leiks kl. 16:10.

Sem fyrr eru einhver meiðslavandræði hjá leikmönnum Liverpool.  Daniel Agger verður frá næstu fjórar vikurnar skv. nýjustu fréttum.  Frakkinn Mamadou Sakho gæti verið orðinn góður af sínum meiðslum en ólíklegt er þó að hann fari beint í byrjunarliðið, hann meiddist undir lok leiksins gegn Chelsea 29. desember.  Líklega verður miðvaraparið skipað þeim Martin Skrtel og Kolo Toure í þessum leik.  Daniel Sturridge gæti líka komið við sögu í en hann hefur verið meiddur síðan í lok nóvember.  Annars eru það sem fyrr þeir Joe Allen, Jon Flanagan, José Enrique og Sebastian Coates sem eru á meiðslalistanum.

Hjá heimamönnum eru það Thomas Sörensen, Andy Wilkinson og Asmir Begovic sem eru meiddir en þeir Stephen Ireland og Robert Huth ættu að vera búnir að ná sér af sínum meiðslum og gætu komið við sögu á sunnudaginn.


Eins og áður sagði hafa okkar menn ekki riðið feitum hesti frá viðureignum sínum við Stoke á þeirra heimavelli en Liverpool hefur ekki unnið á Britannia vellinum síðan að Stoke komust uppí Úrvalsdeild tímabilið 2008-09.  Eini sigurinn á þessum velli síðustu ár kom í 4. umferð Deildarbikarsins árið 2011.

Alls hafa liðin mæst fimm sinnum á Britannia síðan 10. janúar 2009 og hafa síðustu þrír leikir tapast en fyrstu tveir enduðu með jafntefli.  Liverpool hafa aðeins náð að skora tvisvar sinnum, Grikkinn Sotirios Kyrgiakos skoraði í 1-1 jafntefli 16. janúar 2010 og Steven Gerrard kom okkar mönnum yfir 0-1 á 2. mínútu úr vítaspyrnu í desember 2012 í leik sem svo tapaðist 3-1.  Í raun hefur gengið illa gegn Stoke undanfarin ár hvort sem leikið var heima eða heiman en loksins vannst sigur á þeim í fyrsta leik þessa tímabils.  1-0 var niðurstaðan en tæpt var það, Simon Mignolet varði vítaspyrnu Jonathan Walters í blálokin og fögnuðurinn var gríðarlegur.


Vonandi heldur þetta áfram á sunnudaginn en það er ljóst að erfitt verkefni er fyrir höndum.  Stoke hafa staðið sig ágætlega á heimavelli það sem af er tímabils og unnu þeir t.d. frækinn 3-2 sigur á Chelsea þar sem lánsmaðurinn Oussama Assaidi skoraði sigurmarkið rétt fyrir leikslok.  Auðvitað má hann ekki spila þennan leik samkvæmt reglum enska knattspyrnusambandsins.  Aðeins einn leikur hefur tapast en það var gegn Norwich City í september.  Þess ber þó að geta að þeir hafa skorað 19 mörk í 20 leikjum á tímabilinu og fengið á sig 30.  Miðað við þann sóknarþunga sem býr í Liverpool ætti því að vera tækifæri til að nýta sér þetta.


Ef leikmenn Liverpool einbeita sér að sínum leik og spila eins og þeir gera hvað best þá getur auðvitað unnist sigur á þessum velli, væri það gríðarlega mikilvægt innlegg í baráttuna um sæti meðal fjögurra efstu liða í deildinni.  Spennan er mikil á toppnum og mega liðin lítið við því að misstíga sig.

Fyrir leikinn sitja okkar menn í fjórða sæti með 39 stig.  Stoke eru í því 12. með 22 stig.

Eftir svona upphitun þar sem fátt hefur verið um jákvæða hluti til að nefna verður spáin því frekar raunsæ að þessu sinni.  Heimamenn sigra 2-1 en þetta verður hörkuleikur sem getur alveg farið hvernig sem er, miðað við söguna af leikjum liðanna á þessum velli hingað til dettur því spáin Stoke megin að þessu sinni.

Vonum hinsvegar það besta og hver veit nema að sunnudagurinn verður gleðilegur eftir alltsaman.

Fróðleikur

- Liverpool hefur ekki unnið Stoke á Britannia í Úrvalsdeildinni

- Luis Suarez er markahæstur í liðinu með 20 mörk sem öll hafa komið í deildinni.

- Stærsti sigur Liverpool á Stoke kom árið 2000 þegar 8-0 sigur vannst í 4. umferð Deildarbikarins.

- Stjóri Stoke í þeim leik var Guðjón Þórðarson.

- Stærsti sigur á Stoke á heimavelli þeirra í deildinni kom árið 1982 er 1-5 sigur vannst.

- Þrír fyrrum leikmenn Liverpool eru á mála hjá Stoke, þeir Peter Crouch, Charlie Adam og Jermaine Pennant.

- Það eru einmitt þeir Charlie Adam og Peter Crouch sem hafa skorað mest fyrir Stoke á tímabilinu, báðir með 5 mörk í öllum keppnum ásamt Kenwyne Jones.

- Oussama Assaidi, lánsmaður frá Liverpool, hefur skorað 4 mörk á tímabilinu, vonandi kemur hann sterkur til baka.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan