| Sf. Gutt

Yfirburðasigur á meisturunum!

Loksins kom að sigri Rauða hersins á Old Trafford eftir sex töp í röð. Englandsmeistararnir voru heimsóttir og Liverpool vann 0:3 yfirburða sigur sem hefði getað verið stærri.

Það sást greinilega frá upphafsflauti að það var mun meira sjálfstraust í liði Liverpool en heimamanna. Strax eftir tvær mínútur sendi Jordan Henderson fram á Daniel Sturridge sem fékk skotfæri í vítateignum en hann hitti boltann illa og engin hætta varð af. 

Um tveimur mínútum seinna braust Luis Suarez inn í vítateiginn. Þar þrengdu fyrst Marouane Fellaini og svo Phil Jones að honum. Luis stóð í fæturna þar til hann missti jafnvægið og vel hefði verið hægt að dæma víti. Það var þó ekki gert.

Á 20. mínútu komst Daniel Sturridge inn í vítateiginn en aftur var skot hans hættulaust. Eftir þetta gerist harla lítið lengi vel. Það var að sjálfsögðu barist úti um allan völl en fá færi komu. En staðan breyttist á 34. mínútu. Daniel skipti yfir til vinstri á Luis með langri sendingu. Luis lék framhjá Rafael Da Silva sem handlék boltann með útréttri hendi og dómarinn dæmdi auðvitað víti á staðnum. Þarna hefði Rafael líka átt að fá rautt því rétt áður var hann bókaður fyrir grófa tæklingu á Steven Gerrard. Fyrirliðinn var sem betur fer inn á til að taka vítið og skoraði af miklu öryggi úti við stöng hægra megin. David De Gea fór í hitt hornið. Magnað víti og nú var búið að gefa tóninn!

Heimamenn tóku smá rispu undir lok fyrri hálfleiks. Á 42. mínútu átti Robin Van Persie skot sem fór í Martin Skrtel og af honum í horn. Mínútu fyrir leikhlé náði United loks markskoti sem hitti rammann. Adnan Januzaj sendi fyrir frá hægri og við vítateiginn náði Wayne Rooney föstu viðstöðulausu skoti sem Simon Mignolet varði vel með því að slá boltann frá. Wayne fékk boltann aftur en nú henti Martin sér fyrir boltann og bjargaði glæsilega. Þetta þýddi að Liverpool leiddi í hálfleik og eina markskot United á markrammann í leiknum var búið!

Síðari hálfleikur gat ekki byrjað betur. Jordan sendi á Joe Allen sem braust inn í vítateiginn þar sem Phil Jones hrinti honum. Dómarinn dæmdi víti eftir heilar 25 sekúndur! Hver hefði trúað því að lið fengi tvö víti á Old Trafford? Steven tók vítið og sendi boltann neðst í hægra hornið. Hann og félagar hans fögnuðu svo gríðarlega fyrir framan stuðningsmenn Liverpool sem gengu af göflunum!

Eftir þetta hafði Liverpool bæði tögl og hagldir. Englandsmeistararnir áttu ekki minnstu möguleika á heimavelli sínum. Þeir reyndu reyndar að bæta úr og sækja en komust ekkert áleiðis gegn ákveðnum varnar- og miðjumönnum Liverpool. Svo var alltaf skjálfti í vörn United þegar Liverpool vann boltann sem var ósjaldan.

Svo ákveðnir voru leikmenn Liverpool að Simon sló Daniel Agger sem fékk glóðarauga! Eftir fyrirgjöf kýldi Simon boltann frá og rakst harkalega utan í Nemanja Vidic sem lá eftir. Á niðurleiðinni úr stökkinu rak Belginn olnbogann framan í Daniel sem bólgnaði samstundis undir öðru auganu. Það þurfti að huga að bæði Nemanja og Daniel. Leikmenn Liverpool voru svo sannarlega ákveðnir!

Þegar stundarfjórðungur var eftir fékk Liverpool þriðju vítaspyrnu sína í leiknum! Hver hefði trúað því á Old Trafford?! Dómarinn taldi þá að  Nemanja Vidic hefði fellt Daniel Sturridge en það var ekki réttur dómur því ekki var um neina snertingu að ræða. Nemanja var rekinn af velli og nú var heimamönnum öllum lokið. Að sjálfsögðu tók Steven vítið. Hann ákvað að skipta um horn en skot hans fór neðst í vinstri stöngina en David henti sér í vitlaust horn. Slæmt og eins gott að staðan var orðin svo til örugg! Fimm mínútum seinna eða svo átti Liverpool að fá fjórða vítið þegar Michael Carrick sparkaði Daniel Sturridge niður en á einhvern ótrúlegan hátt fann dómarinn það út að þetta væri ekki víti. Samt var þetta augljósasta vítaatvikið!

Lokakaflinn var algjörlega eign Liverpool. Leikmenn Manchester United voru búnir að gefast upp og það var ótrúlegt að horfa upp á Liverpool leika sér að meisturunum eins og  köttur að mús. Þegar átta mínútur voru eftir lék Luis snilldarlega á einn varnarmann og komst einn í upplagt færi í vítateginum en David varði vel með því að henda sér til hliðar og slá boltann í horn. 

Það var þó skammgóður vermir. Á 84. mínútu reyndi Daniel Sturridge skot við vítateiginn. Skotið var misheppnað en boltinn hrökk inn í teiginn. Luis fékk boltann svo til á sama stað og síðast og nú skoraði hann með öruggu skoti framhjá David. Prjónuðu skórnir virkuðu eftir allt saman! Leikmenn og stuðningsmenn Liverpool trylltust af fögnuði. Svo einfalt var það nú!

Liverpool vann þarna glæstan sigur á Manchester United á Old Trafford eftir sex tapleiki í röð. Liðið var stútfullt af sjálfstrausti frá fyrstu mínútu og það var leikið til sigurs! Þegar upp var staðið hefði sigurinn vel getað verið stærri. Sigurinn tryggði svo til að Liverpool heldur einu af fjórum efstu sætunum. Það er þó ekkert öruggt en það skiptir alveg gríðarlega miklu að eitt af fjórum efstu sætunum náist. Svo er að sjá hvernig gengur að nálgast Englandsmeistaratitilinn. Hvernig sem það fer þá á Liverpool álíka góða möguleika á að vinna þennan langþráða titil og hin efstu liðin. Áfram með smjörið!


Manchester United: De Gea, Da Silva, Jones, Vidic, Evra, Fellaini (Cleverley 76. mín.), Carrick, Mata (Ferdinand 87. mín.) , Rooney, Januzaj (Welbeck 76. mín.)  og Van Persie. Ónotaðir varamenn: Lindegaard, Young, Valencia og Kagawa.

Gul spjöld: Rafael Da Silva og Nemanja Vidic

Rautt spjald: Nemanja Vidic.

Liverpool: Mignolet, Johnson, Skrtel, Agger, Flanagan, Henderson, Gerrard (Leiva 87. mín.) , Allen, Sterling  (Coutinho 72. mín.), Sturridge (Aspas 90. mín.) og Suarez. Ónotaðir varamenn: Jones, Moses, Sakho og Cissokho.

Mörk Liverpool: Steven Gerrard, víti, (34. mín. og 46. mín.) og Luis Suarez (84. mín.)

Gul spjöld: Jon Flanagan, Steven Gerrard, Martin Skrtel og Daniel Sturridge. 

Áhorfendur á Old Trafford: 75.225.

Maður leiksins: Steven Gerrard. Eina eina ferðina var fyrirliðinn alveg frábær á miðjunni. Hann skilaði tveimur geysilega mikilvægum vítaspyrnum í markið og það kom ekki að sök þó sú þriðja færi forgörðum. Fyrir utan að skora tvö mörk var Steven einfaldlega magnaður, átti frábærar sendingar og barðist eins og sá sanni herforingi sem hann er og hefur lengi verið.

Brendan Rodgers: Mér fannst við vera framúrskarandi í dag. Við höfum sannarlega undirtökin. Mér fannst að við hefðum getað skorað fleiri mörk. Við vorum mjög grimmir og sókndjarfir. Síðasta sendingin hefði stundum mátt vera aðeins betri og þá hefðum við klárað þá enn betur. Grimmdin hjá okkur var augljós.


                                                                                       Fróðleikur.

- Steven Gerrard hefur nú, með tveimur mörkum í þessum leik, skorað 11 mörk á sparktíðinni.

- Steven mistókst að skora úr víti í fyrsta sinn á þessari leiktíð.

- Steven er nú kominn með 170 mörk fyrir Liverpool á ferli sínum. Leikurinn var númer 660.

- Steven hefur nú skorað átta sinnum á móti Manchester United.

- Luis Suarez skoraði 25. mark sitt á leiktíðinni. 

- Þetta var fyrsti sigur Liverpool á Old Traffor frá því liðið vann þar 1:4 í mars 2009. 

- Frá þeim sigri hafði Liverpol tapað sex leikjum í röð í öllum keppnum.

- Liverpool er nú með 62 stig. Á síðustu leiktíð fékk liðið 61 stig!

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér er viðtal við Brendan Rodgers sem tekið var eftir leik.

Hér er viðtal við Steven Gerrard. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan