| Sf. Gutt

Upp í annað sæti eftir sætan sigur

Liverpool náði að komast upp í annað sætið í deildinni eftir sætan en nauman 2:1 sigur á Sunderland á Anfield. Daniel Sturridge skoraði sigurmark sem gæti reynst mjög dýrmætt þegar upp verður staðið í vor. Liverpool átti að gera út um leikinn fyrr en sigurinn var fyrir öllu og hann kom í afmælisgjöf handa Liverpool klúbbnum á Íslandi!

Það var mögnuð stemmning í loftinu fyrir leikinn enda hafði Liverpool ekki leikið á Anfield í mánuð. Leikmenn Liverpool og föruneyti fengu heldur betur að finna fyrir stemmningu og stuðningi fyrir leikinn þegar liðsrútan renndi upp að leikvanginum. Stuðningsmenn höfðu þá myndað heiðursvörð með mikilli fánaborg. Mögnuð stund!

Brendan Rodgers sendi sömu menn til leiks og hófu leikinn á laugardaginn í Cardiff. Það varð snemma ljóst að mörkum myndi ekki rigna eins og í þeim leik. Liverpool hafði svo sem öll völd frá byrjun en gestirnir börðust vel og fá færi sköpuðust lengi framan af. Ljóst var að leikmenn jafnt sem stuðningsmenn Liverpool yrðu að sýna þolinmæði í þetta skiptið.

Luis Suarez tók aukaspyrnu á 7. mínútu en skot has fór yfir. Svo gerðist ekkert markvert þar til á 35. mínútu. Snögg sókn Liverpool hófst með því að Luis náði boltanum við miðju og lék fram völlinn. Hann reyndi svo bogaskot hægra megin en boltinn fór framhjá fjærstönginni. Loks dró til tíðinda þegar sex mínútur voru eftir af hálfleiknum. Luis var þá felldur af Santoago Vergini rétt við vítateiginn þegar hann var að sleppa einn í gegn. Dómarinn ákvað að gefa Santiago gult spjald en flestir voru á því að hann hefði átt að taka það rauða fram!

Steven Gerrard og Luis Suarez biðu við boltann og ekki gott að segja hver myndi skjóta. Það var þó fyrirliðinn sem tók aukaspyrnuna. Þrumuskot hans hafnaði efst undir slá hægra megin án þess að Vito Mannone næði að koma vörnum við. Allt sprakk við þetta frábæra mark og nú töldu líklega flestir að ísinn væri brotinn.
 
Það var þó ljóst að Sunderland myndi ekki leggja árar í bát enda hefur verið barátta í liðinu þó slaklega hafi gengið í síðustu leikjum. Þegar þrjár mínútur voru til leikhlés kom að því að Svörtu kettirnir ógnuðu. Conor Wickham var að vandræðast fyrir utan vítateiginn en það endaði þó með því að hann skaut að marki. Martin Skrtel henti sér fyrir skotið sem breytti um stefnu og Simon Mignolet varð að hafa sig allan við til að verja neðst í horninu og slá boltann aftur fyrir. Alveg undir lok hálfleiksins braut Santiago af sér rétt við vítateiginn en af einhverjum ókunnum orsökum ákvað dómarinn að bóka hann ekki eins og öllum fannst augljóst. Hann hékk því inn á og það var bara dómaranum að þakka. Liverpool hafði því aðeins eitt mark í forskot þegar kom að leikhléi. 

Liverpool fékk aldeilis góða byrjun eftir hlé og eftir þrjár mínútur lá boltinn í marki Sunderland. Eftir gott spil lagði Jordan Henderson boltann út til hægri á Daniel Sturridge. Hann lék inn í vítateiginn, lagði boltann fyrir sig og skaut svo með vinstri. Boltinn sveif í boga af Wes Brown og datt út í vinstra hornið. Vel þegið að fá snertingu af Wes og enn eitt markið hjá Daniel!

Rétt á eftir var Luis við að sleppa í gegn en Lee Cattermole kom honum úr jafnvægi þannig að hann datt. Dómarinn dæmdi ekkert! Hverjum hefði dottið í hug að Luis léti sig detta fyrst hann hefði sloppið einn í gegn og mark í augnsýn?

Á 54. mínútu sendi Joe Allen fyrir markið á Daniel en ekki vildi betur til að skot hans fór í Luis! Úrúgvæinn var þó snöggur að ná boltanum og tók hælspyrnu af stuttu færi en Vito varði í horn. Litlu síðar stakk Luis sér inn í vítateiginn vinstra megin en skot hans fór framhjá. Á 65. mínútu komst Philippe Coutinho inn í vítateiginn en náði hvorki góðri fyrirgjöf eða skoti og allt rann út í sandinn.     

Liverpool hafði öll tök á leiknum en þriðja markið sem hefði gert út um leikinn lét á sér standa. Gestirnir gerðust nú djarfari og á 70. mínútu átti Lee Cattermole fallegt skot sem small í þverslánni eftir gott spil. Liverpool sneri vörn í sókn og gott samspil endaði með því að Joe gaf á Daniel sem smellti boltanum í þverslá með góðu skoti utan teigs!

Sunderland hafði sent tvo varamenn til leiks þegar rúmur klukkutími var liðinn. Þeir bættu leik liðsins og komu rækilega við sögu á 76. mínútu. Adam Johnson tók horn frá hægri. Boltinn slapp þvert fyrir yfir á fjærstöng og þar skallaði Ki Sung-Yeung óvaldaður í mark með því að henda sér fram. Nú gat allt í einu allt gerst!

Síðustu tíu mínúturnar voru hrikalega spennandi og reyndu verulega á leikmenn Liverpool og stuðningsmenn liðsins. Sunderland ógnaði ekki mikið en þeir voru grimmir og fundu að það var kannski hægt að jafna. Næst komust þeir því þegar mínúta var eftir. Adam tók aukaspyrnu við hliðna á vítateignum vinstra megin. Hann hitti á höfuðið á John O´Shea sem skallaði að marki en boltinn fór sem betur fer rétt framhjá fjærstönginni. Þar munaði sáralitlu! En Liverpool hélt út til leiksloka og Rauði herinn gat fagnað sætum sigri í leikslok!  

Liverpool lék ekki jafn vel og í síðustu leikjum en sigurinn hefði átt að vera innsiglaður áður en Sunderland komst inn í leikinn. Sigurinn og stigin þrjú voru þó að sjálfsögðu fyrir öllu og nú er Liverpool í öðru sæti. Chelsea leiðir deildina með einu stigi og Manchester City er skammt undan með leiki til góða. Endaspretturinn verður magnaður!

Liverpool: Mignolet; Johnson, Skrtel, Agger, Flanagan; Gerrard; Henderson, Coutinho, Allen; Suarez og Sturridge (Sterling 77. mín). Ónotaðir varamenn: Jones, Aspas, Moses, Sakho, Cissokho og Leiva.

Mörk Liverpool: Steven Gerrard (39. mín.) og Daniel Sturridge (48. mín.).

Sunderland: Mannone; Vergini, O'Shea, Brown; Bardsley, Bridcutt, Cattermole, Dossena (Colback 83. mín.); Giaccherini (Ki 61. mín.); Wickham (Johnson 61. mín.) og Altidore. Ónotaðir varamenn: Ustari, Larsson, Roberge og Scocco.
 
Mark Sunderland: Ki Sung-Yeung (76. mín.).

Gul spjöld: Santiago Vergini og Phil Bardsley.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.524.

Maður leiksins: Steven Gerrard. Liverpool lék ekki jafn vel og oft áður á leiktíðinni og það munaði mikið um reynslu fyrirliðans þegar spennan jókst í leiknum undir lokin. Hann skilaði sinni stöðu mjög vel allan leikinn. Hann sótti þegar við átti og varðist þegar á þurfti að halda. Svo skoraði Steven stórglæsilegt mark sem braut ísinn. Algjör meistari! 

Brendan Rodgers: Við vorum með undirtökin í leiknum en það skiptir engu máli hversu undirtökin eru góð þegar staðan verður 2:1. Það lá alltaf fyrir að síðustu tíu mínúturnar eða svo yrðu erfiðar. Mér fannst við sýna mikinn skapstyrk og við verðskulduðum sannarlega að vinna leikinn. 


                                                                                    Fróðleikur

- Steven Gerrard skoraði 12. mark sitt á keppnistímabilinu.

- Þetta var annað markið sem hann skorar úr aukaspyrnu á sparktíðinni.

- Daniel Sturridge skoraði 23. mark sitt á leiktíðinni.

- Markið var það 20. í deildinni og þar með hafa bæði Daniel og Luis skorað yfir 20 mörk á sparktíðinni. Það hefur ekki gerst í hálfa öld að tveir leikmenn Liverpool fari yfir 20 deildarmörk.

- Síðustu sóknarmenn Liverpool til að ná meira en 20 mörkum voru þeir Roger Hunt og Ian St. John á leiktíðinni 1963/64. Liverpool varð þá enskur meistari. 

- Þetta var sjöundi deildarsigur Liverpool í röð.

- Raheem Sterling  lék sinn 70. leik. Hann hefur skorað níu mörk.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér má horfa á viðtal við Brendan Rodgers sem tekið var eftir leikinn.
 
Hér má sjá myndir af því þegar leikmenn Liverpool komu til leiks fyrir leikinn.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan