| Heimir Eyvindarson

Pressan er á Chelsea

Brendan Rodgers segir að þrátt fyrir að Liverpool sé á toppi Úrvalsdeildar sé pressan meiri á Chelsea, fyrir toppslaginn á sunnudag.

„Ég er ekkert að velta mér sérstaklega upp úr því hvað menn kunna að segja eða halda um leikinn á sunnudaginn", sagði Brendan á blaðamannafundi á Melwood í dag þegar hann var spurður út í þau ummæli Jose Mourinho, að hann hygðist stilla upp varaliði gegn Liverpool.

„Ef leikmennirnir sem fara út á völlinn fyrir hönd Chelsea á sunnudaginn eru kallaðir varamenn eða varalið, þá finnst mér það reyndar lýsa ákveðnu virðingarleysi gagnvart þeim. Hópur Chelsea er einfaldlega það stór og sterkur að það er nokkuð sama hvaða liði þeir tefla fram, það mun alltaf verða dýrara og reynslumeira en okkar lið."

„Leikurinn á sunnudag er ný og stór hindrun á vegi okkar, en þetta er ekkert endilega þýðingarmeiri leikur en aðrir. Hver einasti leikur skiptir jafn miklu máli. En þetta verður án efa frábær leikur og sem betur fer munum við spila hann á Anfield, fyrir framan okkar stórkostlegu stuðningsmenn. Vonandi munu þeir hjálpa okkur að knýja fram sigur."

„Þetta verður einn af þessum leikjum sem þú þarft ekki að gera mikið til þess að mótivera liðið. Það kemur af sjálfu sér. Við höfum staðið okkur ágætlega í „stóru leikjunum" það sem af er og við höfum sýnt að við getum unnið hvaða lið sem er."

Þegar Brendan var spurður að því hvort pressan sem fylgdi því að vera á toppnum þegar svo stutt væri eftir af leiktíðinni væri ekki óbærileg stóð ekki á svari frá stjóranum: „Ég hef aldrei sofið betur!"

„Ef okkur tekst ekki að vinna deildina núna þá er það ekki heimsendir. Það hlýtur að líta verr út fyrir lið eins og Chelsea og Manchester City, sem hafa eytt stórum fjárhæðum í að kaupa leikmenn til þess að ná árangri. Væntingarnar eru vitanlega meiri í þeirra herbúðum."

„Við erum ánægðir með okkar gengi í vetur og hvernig sem fer á lokasprettinum munum við halda áfram að byggja liðið upp á næsta tímabili. Við erum á réttri leið, það er fyrir öllu."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan