Spáð í spilin
Manchester City v Liverpool
Annarri umferð ensku Úrvalsdeildarinnar lýkur annað kvöld. Gull- og silfurlið síðustu leiktíðar mætast á heimavelli Englandsmeistaranna. Sannkallaður stórleikur og þó svo þetta sé bara önnur umferð deildarinnar þá er ekki hægt að neita því að mikilvægi leiksins er mikið. Liverpool hafði fram góðan en nauman sigur í fyrstu umferð þegar liðið lagði Southampton að velli. Manchester City byrjaði líka með sigri en liðið vann sannfærandi útisigur norður í Newcastle.
Það munaði aðeins tveimur stigum á liðunum þegar upp var staðið í vor en af hverju varð Liverpool ekki Englandsmeistari? Það má endalaust benda á hin og þessi atvik í hinum og þessum leikjum. En líklega réði það úrslitum að Manchester City var með breiðari leikmannahóp. Reyndar er það ekki líklega skýringin. Stærri leikmannahópur City réði úrslitum. Brendan Rodgers og ráðgjafar hans hafa reynt allt sitt til að bæta einmitt úr þessu í sumar. Góðir leikmenn hafa bæst í hópinn og því má segja að Liverpool eigi að geta veitt Manchester City enn meiri keppni en á síðustu leiktíð. Þetta er þó ekki svo einfalt en það er ekki neinn vafi á því að leikmannahópur Liverpool er sterkari en á síðasta keppnistímabli. Svo gæti Mario Balotelli, fyrrum framherji Manchester City, kannski verið orðinn leikmaður Liverpool annað kvöld. En hann spilar að minnsta kosti ekki með.
En sé talað um ákveðna leiki á síðasta keppnistímabili sem réðu úrslitum er ekki annað hægt en að líta til leiks sömu liða á sama stað í jólatörninni. Liverpool lék einn besta leik sinn á sparktíðinni en mistök Simon Mignolet í sigurmarki City og nokkrar afdrifaríkar ákvarðanir dómarans, sem féllu með heimamönnum, voru þess valdandi að þeir Bláu í Manchester unnu 2:1. Liverpool hefði með réttu átt að vinna og í það minnsta fá jafntefli sem hefði gefið Liverpool Englandsmeistaratitilinn!
Svo merkilegt sem það er nú þá er þetta önnur viðuriegn liðanna í sumar en liðin mættust í jöfnum og skemmtilegum leik í Ameríku sem lauk 2:2. Liverpool vann svo í vítakeppni og ekki var það verra. Segja má að sá leikur lofi góðu fyrir annað kvöld. En nú ætla ég að gerast svo djarfur að spá Liverpool útisigri á móti Englandsmeisturunum. Í þetta skipti fellur það með Liverpool sem ekki féll með þeim í síðustu heimsókn sem var svo afdrifarík. Liverpool nær að halda út og vinna 1:2. Jordan Henderson og Raheem Sterling skora. Manchester City hefur varla tapað heimaleik síðustu þrjár leiktíðir en ég trúi því að Liverpool vinni að þessu sinni.
Vissir þú?
Liverpool vann síðast á heimavelli Manchester City í janúar 2012. Steven Gerrard skoraði þá úr víti þegar Liverpool vann 0:1 í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Deildarbikarsins. Liðin skildu jöfn 2:2 í seinni leiknum á Anfield og Liverpool fór í úrslit þar sem liðið vann Cardiff City í vítaspyrnukeppni.
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni